Hægt að njóta þess í botn að ferðast einn

Ferðamenn á góðri stundu við höfnina. Að ferðast einn þarf …
Ferðamenn á góðri stundu við höfnina. Að ferðast einn þarf alls ekki að vera einmanalegt, og getur raunar verið frelsandi. Haraldur Jónasson/Hari

Félagsveran í okkur kemur oft fram þegar hugurinn leitar út í heim. Hvaða vin væri gaman að taka með í ferðalagið? Ætli makinn hefði áhuga á þessum áfangastað, eða börnin? Tilhugsunin um að vera aleinn úti í heimi hræðir líka suma: hver veit hvað getur gerst í milljónaborgum þar sem alls kyns furðufuglar búa, eða inni í skógum og upp til fjalla – þar eru jú ljón og górillur! Svo þarf hvort eð er að bóka hótelherbergi og ódýrara ef tveir deila herberginu, er það ekki?

En að ferðast með öðrum getur líka verið agalega óskemmtilegt. Það færir fólk út fyrir þægindarammann að vara í ókunnugu landi, og úr takti við dagsins amstur, svo að hætta er á núningi á milli fólks nema það sé þeim mun betur samstillt. Þreytan og hungrið eftir langar gönguferðir getur gert ferðafélagana önuga og þarf stundum lítið til að sjóði uppúr. Má finna ótal dæmi þess að vinskapur hefur endað eftir það sem átti að verða yndislegt ferðalag, og pör sem eiga erfitt með að þola félagsskap hvors annars, allan sólarhringinn, í helgarferð til stórrar borgar, ætti að líta á það sem vísbendingu um að leita á önnur mið.

Þeir sem komast á bragðið þykir, aftur á móti, ekkert jafnast á við að ferðast einir og óstuddir, og ekki erfitt að sjá hvers vegna:

  • Þú færð að upplifa á þínum eigin hraða: Ef engir eru ferðafélagarnir er enginn að þrýsta á um að skoða söfnin hægar eða hraðar, drífa sig í gegnum Harrods eða kíkja í hverja búð á Manhattan. Að losna við þennan þrýsting gerir ferðalagið afslappaðra og þýðir að gott næði gefst til að leyfa sér að virkilega skynja áfangastaðinn
  • Þú getur kynnst heimamönnum: Manneskja sem er ein á ferð á auðveldara með að eignast nýja kunningja en par eða lítill hópur vina. Einstaklingur getur frekar átt von á heimboði, og ef hann er laus og liðugur mætti jafnvel skjótast á stefnumót.
  • Þú stýrir útgjöldunum: Sá sem ferðast einn þarf ekki að gera málamiðlanir. Hann verður ekki að taka tillit til þess ef ferðafélagarnir vilja spara og gista á farfuglaheimili, eða eyða meira en hann ætti til að halda í við hina. Viltu spreða og borða gæsalifur í hvert mál? Eða spara og borða tilboðsmáltíðir á MacDonalds út ferðalagið? – Gjörðu svo vel, því þú ræður.
  • Frelsið er algjört: Sá sem er reiðubúinn að skoða heiminn einn þarf ekki að bíða eftir að vinir eða ættingjar komist með. Hann getur stokkið upp í vél hvenær sem tækifæri gefst, og rambað um heiminn eins og tími og fjárhagur leyfir.
  • Einveran er holl: Með því að vera einn og ótruflaður gefst tækifæri til að líta inn á við, og oft hægt að sjá djúpt inni í sálartetrið þegar komið er á fjarlægar slóðir. Að hafa engan félagsskap, með tilheyrandi klið og áreiti, býður upp á að ráðast í sjálfsskoðun, og skilja betur hvað við viljum og hvert við stefnum – og er það ekki þess vegna sem við ferðumst?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert