Dagný Dís fann ástina í París

Dagný Dís Magnúsdóttir bjó í París.
Dagný Dís Magnúsdóttir bjó í París.

Dagný Dís Magnúsdóttir, rekstrarverkfræðingur hjá Marel í Bretlandi, flutti til Parísar fyrir nokkrum árum til þess að læra frönsku við Sorbonne-háskóla. Dagný varð ekki bara ástfangin af borginni og franskri menningu á árunum í París þar sem hún fann líka ástina í París. Það er ekki að ástæðulausu sem borgin er oft kölluð borg ástarinnar. 

„Ég vann hjá Microsoft á Íslandi en við fengum upplýsingar að utan um að staðan mín væri ekki lengur í boði hjá fyrirtækinu. Eftir mjög ánægjulegan tíma þar fannst mér fullkomið næsta skref að flytja út,“ segir Dagný Dís um ákvörðunina að flytja til Parísar.

„Síðan ég man eftir mér hef ég talað frönsku reiprennandi í huga mér en aldrei upphátt. Svo París var augljós kostur. Lífið í París snýst fyrst og fremst um að lifa því og muna að njóta. Parísarbúar njóta matarins, listarinnar og fólksins allt í kring. Það er klárlega það sem heillaði mig mest við París. Það og allar fallegu byggingarnar.“

Þessi samsetta mynd rammar inn stemmninguna í París að mati …
Þessi samsetta mynd rammar inn stemmninguna í París að mati Dagnýjar.

Hvaða hverfi eru í uppáhaldi hjá þér?

„Ég bjó í sextánda hverfi, XVIe arrondissement, á breiðstræti sem liggur út frá Sigurboganum. Það var skemmtileg tilviljun að íslenska sendiráðið var í sömu götu. Svo á leiðinni út í búð, labbaði ég fram hjá risahurð með íslenska skjaldamerkinu að ofan. Ellefta hverfið er yndislegt, stutt í allt og hægt að labba að Sigurboganum, Eiffelturninum og einni helstu verslunargötu heims, Champs Elysées.

Fyrsta hverfi, 1erarrondissement, er þó í mínu uppáhaldi. Þar er hægt að finna fallegustu byggingar heims, Louvre, Notre Dame og fleiri. Þaðan er stutt í fallegan dansskóla með virtum kennurum, Centre de danse du Marais. Þar eru kenndir danstímar í salsa, tangó, nútímadansi, jazz-ballett, ballett og fleira. Hægt er að mæta og taka stakan tíma. Bak við Notre Dame við bakka Signu er svo dansað og spilað á hljóðfæri á kvöldin. Stemmingin þar er alveg himnesk. Svo má ekki gleyma að rölta við í bókabúðinni Shakespeare & Company. Bókabúðin var opnuð árið 1951 með það í huga að bókaunnendur hvaðan sem er í heiminum myndu sameinast þar, við bakka Signu, í þeim tilgangi að deila ástríðu sinni á bókmenntum.“

Dagný við Eiffelturninn.
Dagný við Eiffelturninn.

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Þegar ég bjó í París var L‘Avenue uppáhaldsstaðurinn minn, ég fór oft þangað með vinkonum mínum og sakaði ekki að þetta var einn af uppáhaldsstöðum Kim Kardashian West og við eina af flottustu verslunargötum Evrópu, Avenue Montagine. La Cevicheria er líka í miklu uppáhaldi, stemmningin þar er eins og að vera í kvikmynd. Staðurinn er retró og töff. Hann er ekki langt frá Rue Montorgueil sem er æðisleg gata full af lífi, kaffihúsum, verslunum og sérverslunum.“

Hvernig er skemmtanalífið í París?

„Skemmtanalífið í París er eins og í öllum stórborgum, ef þú ákveður að hafa gaman af og njóta þá er allt til staðar. Monsieur Mouche mæli ég með á sumrin, staðurinn er á Signu og með útsýni yfir á Eiffelturninn. Hôtel Costes verður þú að þekkja þegar þú mætir á Paris Fashion Week. Þangað mæta allar helstu fyrirsæturnar og fólk úr helstu tískuhúsum heims til að bera saman bækur sínar. Flestir mæta þó á götuna eða í hverfið Bastille til að hittast og fá sér drykk. Það myndi ég segja að væri mesta lífið á kvöldin og nóg um að velja.“

Hvað er ómissandi að sjá?

„Fallegu herbergin í Louvre, byggingin sjálf er frá 16. öld og er stórkostleg. Útsýnið úr Parísarhjólinu í Jardin de Tuileries, eða á Place de la Concord,og það eru kannski ekki allir sem vita að það er sirkus í París. Það er eins og að fara aftur í tímann. Ég mæli eindregið með að sjá þá sýningu, Cirque d'Hiver.“

Dagný fann ástina í París.
Dagný fann ástina í París.

Hvernig er draumadagurinn þinn í París?

„Draumadagurinn í París er að vakna með kærastanum mínum í gömlu íbúðinni okkar. Borða baguette traditionnelle, drekka nýkreistan appelsínusafa og kaffi. Út að hlaupa og gera æfingar í Bois de Boulogne, skógi í jaðri Parísar, eða Parc Monceau, einum fallegasta garði í París. Hjóla svo um París, fram hjá Eiffelturninum, meðfram Signu að Louvre og upp að blómabúð vinkonu minnar. L'arrosoir er ein fallegasta blómabúð í París, hún var stofnuð fyrir rúmlega 50 árum og kemur reglulega fyrir í bókum og tímaritum. Þar fáum við okkur einn kaffibolla og kaupum blóm til að njóta á meðan við erum í París. Röltum svo um Le Marais og ég stekk kannski inn í einn danstíma. Endum svo daginn á apéro eða fordrykk heima hjá okkur eða vinafólki þar sem við hitum upp fyrir kvöldið með kampavíni og ólífum, eldum saman eða röltum á næsta veitingastað. Þetta er mjög ríkt í franskri menningu.“

Dagný mælir með því að hjóla um París.
Dagný mælir með því að hjóla um París.

Eru einhverjar túristagildrur sem ber að varast?

„París er eins og hver önnur stórborg þar sem ber að gæta sín. Það er stranglega bannað, ég endurtek, stranglega bannað að veifa símanum sínum um í lestinni þegar hún stoppar. Því að mjög algengt er að þjófur grípi símann rétt áður en lestarhurðin lokast og þú stendur eftir inni símalaus er hún fer af stað.

Í kjölfar hryðjuverkanna í París var eins og eitthvað í borginni hafi breyst. Í tvo daga var enginn á ferli og borgin var í sorg. Ég tel að árásin hafi aukið samkennd og samheldni Parísarbúa. Atburðir þessa dags gerðu það að verkum að fólk varð örlítið blíðara og umhyggjusamara.

Mig langar að minnast á að Frakkar eru yndislegt fólk en framkoma þeirra getur litið út fyrir að vera dónaleg. En þeir eru alls ekki aðeins „dónalegir“ við túrista heldur einnig við aðra Frakka. Ég hugsa að það sé algengur misskilningur að Frakkar séu dónalegir við túrista.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert