Fátt jafnast á við lúxushótelið á Hawaii

Lilja Ósk Sigurðardóttir er hrifin af góðum lúxushótelum.
Lilja Ósk Sigurðardóttir er hrifin af góðum lúxushótelum.

Lilja Ósk Sigurðardóttir veitt fátt betra en að dvelja á fínum lúxushótelum. Lilja segir hótelkeðjurnar Mandarin Oriental og Four Seasons klikka aldrei og dreymir um að gista í lúxustjaldi Four Seasons í frumskógi í Taílandi. 

Hvaða máli skiptir það þig að vera á góðu hóteli á ferðalagi?

„Lélegt hótel getur hreinlega eyðilagt ferðina og sömuleiðis getur stórkostlegt hótel gert ferðina ógleymanlega. Mér finnst líka ákveðið öryggi fólgið í því, ef ég er ein að ferðast til annarra heimsálfa eða framandi landa, að vera á hóteli sem er hluti af þekktri keðju eða hefur enskumælandi starfsfólk,“ segir Lilja.      

Hvað er það sem þú elskar við lúxushótel?

„Öll smáatriðin, þegar maður er alltaf að uppgötva eitthvað óvænt og skemmtilegt í boði hótelsins. Þykkur og mjúkur baðsloppur, stór og góð handklæði, þekkt snyrtivörumerki á baðherberginu, vatn í glerflöskum en ekki í plasti, drykkir og matur við komu og svo framvegis. Oft bjóða betri hótel upp á vín og smárétti seinni partinn og það er alltaf skemmtilegt. Eins væri það efni í ritgerð hversu mikið ég elska góðan hótelmorgunverð (og verð pirruð yfir lélegum hótelmorgunverði). Ekki má gleyma heilsulindum sem lúxushótel bjóða upp á en mér finnst fátt betra en að eiga stund þar eftir langan dag.“

Hvar hefurðu fengið besta hótelmorgunverðinn hingað til?

„Einn eftirminnilegasti hótelmorgunverðurinn var á Inter Continental í Berlín, þar gat maður valið sér morgunverð út frá heimsálfum. Nokkrum sinnum hef ég fengið hótelmorgunverð þar sem boðið er upp á kampavín og það er sérlega góð leið til að hefja daginn ef það er slökunardagur fram undan. Gæta þarf þess þó, að halda sig einungis við eitt eða tvö glös svo maður verði ekki kominn með hausverk í hádeginu.“

Áttu þér uppáhaldshótel?

„Kannski ekki eitt uppáhalds en Mandarin Oriental og Four Seasons klikka aldrei. Stundum vel ég meira að segja áfangastaði út frá því hvar þessar keðjur eru með hótel því ég treysti þeim algjörlega. Fyrir tveimur árum gisti ég á Four Seasons á Maui á Hawaii og líklega verður það seint toppað að vera með kokteil í sundlauginni með útsýni yfir hafið og fjöllin. Þess á milli var komið með ávexti og kalda klúta á klukkustundarfresti og ég hef sjaldan verið jafnafslöppuð.“

Hvaða hóteli dreymir þig um að gista á?

„Það er eitt „bucket list“-hótel sem ég hef augastað á núna og það er Four Seasons Tented Camp Golden Triangle á Taílandi. Þarna gistir maður í hálfgerðum tjöldum í frumskóginum rétt við fílaverndunarsvæði og eru tjöldin innréttuð í anda landkönnuða á 20. öldinni. Allt er innifalið, stórkostlegur matur, drykkir, spa-meðferðir og skoðunarferðir. Maður fær að ganga með fílunum, baða þá og gefa þeim að borða. Verandi gífurlegur dýravinur þá hljómar þetta eins og draumur og fólk sem hefur farið þangað segir þetta vera eina mestu upplifun ævi sinnar.“

Lilju dreymir um að gista í þessu hálfgerða lúxustjaldi á …
Lilju dreymir um að gista í þessu hálfgerða lúxustjaldi á Four Seasons Tented Camp Golden Triangle á Taílandi.

Hvernig bókar þú hótelin? 

„Það hefur reynst mér best að bóka í gegnum hótelin sjálf og vera meðlimur í klúbbunum þeirra. Þá fær maður ýmis fríðindi eins og fríar gistinætur, ókeypis morgunverð eða spa-meðferðir í boði hótelsins.“

Hvað þarf að varast þegar pöntuð eru fín hótel? 

„Myndir geta verið mjög blekkjandi og ég hef lent í því að bókunarsíður hafi merkt herbergin vitlaust svo ég hélt að ég væri að bóka ákveðið herbergi en það kom í ljós að ég hafði verið að horfa á myndir af svítum hótelsins. Sömuleiðis sýna hótelin oft glæsilegar útsýnismyndir og þá þarf að skoða vel hvernig herbergin eru staðsett á hótelinu og hvaða herbergi (og í hvaða verðflokki) bjóða upp á útsýnið. Ég fer alltaf inn á TripAdvisor áður en ég bóka hótel og skoða myndir frá öðrum hótelgestum en ekki frá hótelinu sjálfu. Svo má oft finna myndbönd á YouTube sem gefa betri mynd af hótelinu. Svo finnst mér alltaf að maður eigi strax að láta vita ef maður er ósáttur við herbergið eða eitthvað annað því maður er að borga fyrir þægindi og fríið á ekki að fara í að vera ósáttur. Þrisvar sinnum hef ég lent í herbergi við lyftu og svaf illa vegna stöðugs umgangs og hávaða. Í dag passa ég að biðja ávallt um herbergi eins langt frá lyftunni og mögulegt er. Það er líka ágætis brennsla að ganga lengra eftir hitaeiningaríkan hótelmorgunverðinn.“

Hvað segirðu við fólk sem finnst það peningasóun að gista á lúxushóteli?

„Þetta fer auðvitað allt eftir því hvernig þú vilt verja peningunum þínum. Fyrir mig er það alveg jafnmikil upplifun að gista á lúxushóteli eins og að borga fyrir skoðunarferð eitthvað. Lúxushótel gefa manni nokkra daga í paradís á milli þess sem maður lifir í venjulegum hversdagsleikanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert