Miðaldrakonan lendir næstum því í ástarævintýri

Ásdís Ósk Valsdóttir komst í mark.
Ásdís Ósk Valsdóttir komst í mark. Ljósmynd/Kjartan Long

„Þá var loksins komið að því. Síðasta Landvættaþrautin 2019 var að byrja. Laugardaginn 10. ágúst 2019 kl. 11:00 hófst Jökulsárhlaupið. 33 kílómetrar sem varð að ljúka á 5 tímum eða eins og þeir sögðu í kynningarefninu frá hlaupinu: „tímatöku verður hætt kl. 16:00 og þeir hlauparar sem koma í mark eftir það teljast ekki hafa lokið hlaupinu“.  Ekki nóg með að það væru mjög stíf tímamörk. Þeir settu líka inn millitímamörk við aðra drykkjarstöð sem var eftir 19,7 km.  Hlauparar höfðu 3 tíma til að skila sér þangað og það var ekkert elsku mamma.  Þú varst ekkert með ef þú náðir ekki þangað á þremur tímum. Frá því að minn íþróttaferill hófst fyrir alvöru, í lok apríl 2018, hefur ekkert orð hrætt mig meira en TÍMAMÖRK,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og íþróttakona í sínum nýjasta pistli: 

Það er einhvern veginn svo mikil grimmd í þessu orði.  Þú ert búin að leggja þig alla fram, æfa og æfa og svo á lokametrunum er þér bannað að halda áfram. TÍMAMÖRK. Þessi orð létu kalt vatn renna milli skins og hörunds. Fossavatnsganga var fyrsta Landvættaþrautin okkar. Þar voru líka mjög stíf Tímamörk, eða sko alltaf nema 2019 þegar það þurfti að stytta gönguna úr 50 km í 42 vegna snjóleysis og taka út tímamörkin. Þannig að tæknilega séð hef ég aldrei keppt við Tímamörk. Ég var hinsvegar alveg sannfærð um að það er algjörlega glatað að hafa tímamörk. Það fögnuðu fáir meira en ég þegar tímamörkin duttu út í Fossavatnsgöngunni. Sumir, fögnuðu alls ekki neitt. Það var fólk sem var að koma erlendis frá til að nota Fossavatnsgönguna til að fá keppnisrétt í allskonar mótum erlendis. Fólk sem var búið að æfa sig aðeins meira en ég og leggja örlítið meira á sig. Ég get alveg viðurkennt að þarna var ég pínu sjálfhverf og hugsaði mest um mig og að þurfa ekki að ná tímamörkum. 

Vinkonurnar tjölduðu í Ásbyrgi.
Vinkonurnar tjölduðu í Ásbyrgi.

Undirbúningsstressið grípur miðaldra konuna

Einhverra hluta vegna tilheyrir svona keppnisstandi að fá allskonar undirbúningspósta. Þeir eru örugglega vel meintir og flestir þakklátir fyrir þá en þeir hafa tilhneigingu til að stressa mig. Þá þarf ég að setja mig inn í allskonar hluti og taka allskonar ákvarðanir því þó þeir séu upplýsandi þá kemur ekki tékklisti eins og þegar þú fórst í sumarbúðir sem barn. Þá kom einfaldlega 1 par stuttbuxur, 2 pör sokkar og svo framvegis. Þetta finnst mér algjörlega vanta. Þarna kemur sér vel að hún Hilda vinkona sér um allt svona skipulag. Hún er reynslubolti þegar kemur að hlaupakeppnum. Hún er búin að hlaupa Jökulsárhlaupið þrisvar sinnum, Laugaveginn tvisvar sinnum, Fimmvörðuhálsinn og svo allskonar maraþon út um allan heim. Hún er minn sérfræðingur þegar kemur að útbúnaði.

Þegar undirbúningspósturinn kom frá Jökulsárhlaupinu opnaði ég hann, renndi yfir hann, panikaði og sendi hann beint á Hildu (sem auðvitað átti sitt eintak líka). Það voru nokkrir hlutir sem stressuðu mig meira en aðrir. Það var tekið fram að það yrðu engir laxapokar við ána sem átti að vaða yfir. Ég veit allt um laxapoka. Ég notaði svoleiðis þegar ég handleggsbrotnaði ekki og var sett í gifs í 12 daga. Laxapokar geta verið endalaust langir, þú klippir þá til eftir þörfum. Hversu djúp og straumhörð ætli áin sé? Þurfa laxapokarnir kannski að ná upp á hálsi? Verð ég holdvot og hrakin? Það var mjög langt í fyrstu drykkjarstöð, eða 11,5 km.

Hvað ætli ég þurfi mikið af vatni með mér? Það var mjög mikið af upplýsingum þannig að ég ákvað að setja þetta allt í hendurnar á henni Hildu.  Þar með talið að lesa úr þessu korti sem fylgdi af hlaupaleiðinni.  Það var reyndar ágætis ákvörðun því ef ég hefði skoðað kortið mjög vel þá hefði ég séð viðvörunarþríhyrningana á hlaupaleiðinni þar sem stóð Varúð – Hlaupastígur nálægt brún.  Þegar kona er búin að fara í meðferð við lofthræðslu og er enn að átta sig á því hvernig gengur að yfirvinna hana þá geta svona setningar valdið ótímabæru kvíðakasti.

„Hilda sendi til baka: Anda inn, anda út ...  við verðum saman um helgina.  Sko, þetta er ekki flókið. Við sækjum gögnin, klæðum okkur, förum í rútuna, keyrum í startið, leggjum af stað og höldum áfram þar til við komum í mark. Þetta er sama set-uppið og hjá Þorvaldi !!! (Þorvaldsdalsskokkið). Mæta og fara í rútu og hlaupa svo til baka.

Ég á eftir að skoða kortið betur yfir brynningarstöðvarnar en væntanlega borgar sig líka að vera með eigið vatn.  Mín reynsla af hlaupinu (þrisvar sinnum) er sól og gott veður og ég hef jafnvel heyrt af hlaupum þar sem hiti var beinlínis til vandræða!!!“

Vikuna fyrir hlaupið sjálft kom svo ítarlegur upplýsingapóstur frá Brynhildi Ólafsdóttur, forsvarsmanns Landvættanna. Farið yfir allt það nauðsynlegasta eins og að muna að klippa táneglur og kaupa eyrnatappa. Það var greinilegt að það var líka nauðsynlegt í útilegum.  Bæði Hilda og Brynhildur lögðu mikla áherslu á að gista í tjaldi í Ásbyrgi. Hilda var eins og lítið barn á jólunum. Hún gat ekki verið spenntari fyrir þessari útilegu. Ásdís, við verðum að gista í Ásbyrgi. Það er ALLTAF gott veður í Jökulsárshlaupinu og stemmingin á tjaldstæðinu er engu lík. Það var ekki annað hægt en að smitast af útilegugleðinni og ég komst í rétta gírinn og var orðin spenntari fyrir Ásbyrgi en Þjóðhátíð í Eyjum. 

Hef reyndar aldrei farið á Þjóðhátíð í Eyjum en hef heyrt að það sé alltaf rosalega gaman.  Ég var líka vel undirbúin fyrir þessa útilegu. Ég hafði gist í tjaldi á Egilsstöðum þegar ég fór á Bræðsluna í sumar (sem var jafnoft og alla þessa öld) og fannst þetta frábært tækifæri til að nýta fína svefnpokann minn sem ég keypti í Fjallakofanum fyrir þá útilegu. Ég fékk lánaða tjalddýnu, stól og borð þannig að við gætum virkilega notið þess að vera úti í góða veðrinu.  Jú svei mér þá, þetta yrði algjörlega frábært. Við Hilda ákváðum meira að segja að taka okkur frí á föstudaginn frá vinnu. Leggja af stað um morguninn svo við yrðum komnar tímalega á tjaldstæðið þannig að við næðum örugglega plássi (áður en allt yrði uppbókað).

Hér er hópurinn að bíða eftir að hlaupið hefjist.
Hér er hópurinn að bíða eftir að hlaupið hefjist.

Jólin klikka algjörlega og svekkelsið mikið

Í vikunni fyrir hlaup fórum við að skoða veðurspárnar. Þetta leit ekkert sérstaklega vel út.  Við höfðum samt ekkert svakalega miklar áhyggjur af veðrinu. Þetta var nákvæmlega eins og fyrir Þorvaldsdalsskokkið. Leit illa út í upphafi en á sjálfan keppnisdaginn var frábært veður og aðstæður eins og best varð á kosið. Tveimur dögum fyrir hlaup eða svo varð að viðurkenna staðreyndir. Það yrði ekki gott veður á hlaupadaginn. Það var meira að segja vægt til orða tekið. Það yrði algjörlega ömurlegt veður. Rok, rigning og 6 gráðu hiti. Það var ekki hægt að segja að ég væri mjög spennt. Ég íhugaði að fara ekki neitt. Ég þurfti ekkert á þessu hlaupi að halda. Ég var búin að hlaupa Þorvaldsdalsskokkið. Ég ætlaði hvort sem er aftur í Landvættina á næsta ári þar sem ég missti af Bláalónsþrautinni þegar ég lenti óvart í gifsi. Ég get alveg eins tekið þetta hlaup líka á næsta ári. Ég er ekki að nenna að gista í tjaldi í skítakulda og rigningu og fara svo að hlaupa köld og hrakin. Ég fór yfir öll rökin hvers vegna ekki. 

Ég hef aldrei hlaupið í kulda eða mikilli rigningu.  Það er búið að vera sól og gott veður í allt sumar. Ég er ekki með reynsluna hennar Hildu sem hefur hlaupið í öllum veðrum, m.a.s að hagléli og stormi. Ég kann´etta ekki.  Ég verð örugglega úti. Ég næ pottþétt ekki þessum blessuðu Tímamörkum og dett út. Ég er ekki alveg nógu góð í þetta langa hlaup við þessar aðstæður. Innst inni vissi ég alveg að það var EKKI rétt.  Ég var mjög vel undirbúin bæði andlega og líkamlega fyrir þetta hlaup og af þessum 4 Landvættaþrautum var ég best í hlaupinu.  Síðustu vikurnar var ég búin að hlaupa Þorvaldsdalsskokkið, Fimmvörðuhálsinn og fullt af ríkishringum í Heiðmörkinni. Ég gat þetta alveg. Það er bara stundum svo auðvelt að selja sér auðveldu leiðina og velja þægindarammann.

Tveimur dögum eftir ítarlega upplýsingapóstinn frá Brynhildi kom annar póstur.  Hann var mun styttri. Eiginlega bara ein síða. Veðurspáin fyrir norðan næstu daga og fyrir keppnisdaginn sjálfan er hryssingsleg, frekar stíf norðanátt með kulda og rigningu.

Það er margsannað að þið hlaupið hraðar í kulda en hita sagði hún og lagði mikla áherslu á að við myndum pakka niður fatnaði við allskonar aðstæður. Ég tók því mjög alvarlega. Ég var búin að fá undirbúningsskjalið frá henni Hildu. Ég prentaði það út og ákvað síðan að það væri best að pakka niður eins miklu og kæmist í nýju stóru útivistartöskuna mína sem ég keypti í Fjallakofanum fyrir Fimmvörðuhálsinn. Hún reyndist rúma ansi vel. Ég held að ég hafi pakkað niður 8 sokkapörum, 4 þunnum peysum, 2 ullarpeysum, öllum útivistarbuxum sem ég átti sem og þykkum hlaupabuxur. Líka öllum þykkum úlpum og jökkum og eitthvað meira. Þetta voru jú þrír dagar og tvær nætur í tjaldi. Ég tók hreinlega með öll þykk útivistarföt sem ég átti, ullarsokkana mína og nýju stígvélina og regnkápuna sem ég keypti fyrir Bræðsluna en gat ekki notað vegna veðursældar. 

Við Hilda ræddum málin.  Hún var ekki alveg jafn spennt og í upphafi. Við trúðum því hreinlega ekki  að veðurheppni Hildu væri að bregðast. Það  er ALLTAF gott veður í Jökulsárhlaupinu. Í fyrra var svo heitt að fólk fékk hitakrampa og féll næstum því í yfirlið.  Það var búið að vera gott veður í öllum þrautunum í sumar. Hvernig gat þetta klikkað svona svakalega á endasprettinum? Vonbrigðin voru alger. 

Hér er Ásdís ásamt Hrafnhildi vinkonu sinni.
Hér er Ásdís ásamt Hrafnhildi vinkonu sinni.

Þetta var eins og að vera lítill drengur á jólunum sem er búinn að bíða eftir því að fá draumabílinn í jólagjöf, svo komu bara tveir litlir mjúkir pakkar og í þeim báðum leyndust handprjónaðir vettlingar. Við ákváðum að taka slaginn og skella okkur samt norður. Lögðum af stað árla morguns norður. Komum við í Mosfellsbakaríi þar sem við byrjum allar okkar út á land ferðir með því að fá okkur drykk og súkkulaði hjá Hafliða. Þar rakst Hilda á hlaupavinkonu sína sem var líka á leiðinni í hlaupið. Hvernig leist þér á þessa veðurviðvörun sagði vinkonan.  Hvaða veðurviðvörun sagði ég. Þessa sem ég valdi að segja þér ekki frá sagði Hilda. Hún þekkir sína konu, ekkert að vera að setja hana inn í smáatriðin sem stressa hana. Stoppuðum svo í Borgarnesi þar sem ég keypti mér Panodil Hot. 

Ég var komin með keppnisstressið og þá fæ ég alltaf flensueinkenni. Við stoppuðum á Akureyri og versluðum í matinn fyrir útileguna. Frá Akureyri og til Ásbyrgis voru samræðurnar mjög einsleitar.  Erum við í alvörunni að fara að gista í tjaldi? Það er skítaveður. Það verður glatað að vakna kaldar og hraktar til að fara að keppa í roki og rigningu. Á ég að kíkja á Airbnb og kanna hvað er laust? Á ég að skoða með bústaði til leigu? Svo kvað Hilda upp stóra dóm. Við gistum í tjaldi í nótt, þetta verður frábært. Við komum í Ásbyrgi, það var meira en nóg pláss á tjaldstæðinu. Það voru svona 10 tjöld. Við þræddum bílinn á milli polla og fundum smá lund þar sem við tjölduðum undir trjám í algjöru skjóli.  Þetta yrði alveg frábært.  Það voru ekki nema svona 100 m á salernið, frábær staðsetning.

Um kvöldið var undirbúningsfundur Landvætta í partýtjaldinu. Við Hilda vorum búnar að elda okkur pasta og fá okkur Hraunbita í eftirrétt. Kosturinn við 33 km hlaup er að þú getur étið allt sem þér dettur í hug fyrir hlaup, það flokkast allt sem lífsnauðsynleg hleðsla (sko kannski ekki 15 pítsur en svona hér um bil).  Brynhildur og Róbert fóru yfir allar nauðsynlegar upplýsingar. Þegar talið barst að einhverri á (ég var búin að steingleyma þessum upplýsingapósti frá mótshöldurum þar sem þeir töluðu um að vaða yfir á og þessum skiptum sem Hilda hafði sagt mér frá sömu á) svitnaði ég hressilega og leit illilega á Hildu og sagði, Hrafnhildur (ekkert Hilda mín hérna), ertu að segja mér að við séum að fara að vaða yfir einhverja á.  Hilda leit á mig og brosti og sagði, róa sig, þetta er bara smá á, við erum ekki að fara yfir Jökulsá,  Hrafnhildur, þetta heitir JÖKULSÁRHLAUP...

Hér er Ásdís ásamt Elvu og Hrafnhildi rétt áður en …
Hér er Ásdís ásamt Elvu og Hrafnhildi rétt áður en þær lögðu af stað.

Brynhildur fór yfir klæðaburð og ég ákvað að klæða mig nákvæmlega eins og hún. Ég hef alltaf klætt mig allt of mikið og haft allt of mikið í pokanum.  Núna ætlaði ég að fara nákvæmlega eftir fyrirmælum. Ég ætlaði sem sagt að vera í hlaupatopp, léttri merinoullarpeysu, regnhlaupajakka, síðum hlaupabuxur, ullarblönduhlaupasokkum, utanvegahlaupaskónum mínum, með húfu, vettlinga og buff.  Í pokanum ætlaði ég svo að hafa eina þykkari peysu og aukabuff, helling af orkugelum, Snickers og vatni.  Hef reyndar aldrei skilið tilganginn með þessum orkugelum. Það eru allir með þau þannig að ég geri það líka.

Sigurvíman leynir sér ekki.
Sigurvíman leynir sér ekki.

Miðaldra konan bugast algjörlega og hættir við hlaupið

Við Hilda fórum snemma í tjaldið, það var langur dagur framundan og eins gott að fá góðan nætursvefn. Ég var minna en ekkert spennt fyrir morgundeginum. Tjaldið var hins vegar hlýtt og notalegt sem og. Loksins gat ég líka notað ullarundirfötin sem ég keypti í kuldakvíðakastinu fyrir Fossavatnsgönguna. Reyndar höfðu bæði Sævar og Halldór í Fjallakofanum reynt að sannfæra mig um að ég þyrfti ekki á þeim að halda. Betra er seint en aldrei. Þau reyndust nýtast mjög vel sem náttföt í tjaldútilegu. Um miðja nótt vaknaði ég við að tjaldið var á ferð og flugi. Það var hífandi rok og brjáluð rigning. Ég sagði við Hildu, ég er hætt við hlaupið. Ég er ekki að fara að hlaupa í þessu ruglveðri. Ég er með bók og prjóna og dunda mér við það í dag á meðan þið klikkhausarnir hlaupið í óveðri og gulri veðurviðvörun.  Ég ætla ekki að hlaupa. 

Mér finnst Hilda taka ansi vel í þetta og fór mjög sátt að sofa.  Hilda sagði mér daginn eftir að hún hefði hugsað.  „þetta er nú hvorki staður né stund til að taka svona ákvörðun.  Við metum stöðuna í fyrramálið en ef veðrið verður eins þá verður nú líklega búið að blása hlaupið af“.  Bók og prjónar voru á skipulagsritinu hennar Hildu. Ég fór því samviskusamlega og keypti í ullarvettlinga og tók síðustu bókina í Þríleiknum hennar Lilju Sigurðardóttur vinkonu með. Hvers vegna prjónar? jú, það er nú fátt notalegra en að sitja úti í sólinni á tjaldstæðinu og prjóna vettlinga. Mér fannst ég vera búin að koma mér upp ansi hreint góðu safni af útivistarfötum en núna sá ég að það var ennþá ansi margt sem mig vantaði. Hilda var í mjög fínum útivistarbuxum frá Fjallakofanum, þunnri dúnúlpu og útivistarjakka.  Ég sá mikinn aðstöðumun á okkur þessa helgi og því er þetta komið á, ÞARFAÐFÁMÉRSVONADRESS LISTANN. Ég var nefnilega með tvennar buxur, gamlar göngubuxur sem héldu ekki vatni og svo harðar regnbuxur sem önduðu ekki.  Hildu buxur héldu bæði vatni og vindi og önduðu.  Já, það hefur greinilega verið einhver þróun í útivistarfatnaði síðustu 10 árin eða svo.

Vaðið yfir á.
Vaðið yfir á.

Nýr dagur og allt verður skárra

Við vöknuðum snemma og það var logn og engin rigning. Fórum í Landvættatjaldið og hituðum okkur hafragraut. Ég tók eina Treo pillu við hausverk og svo Panodil Hot við hálsbólgu. Það er svona staðalbúnaðar hjá mér fyrir keppni að fá hausverk og hálsbólgu og það var engin undantekning núna. Eftir grautinn og hafa farið aðeins yfir málin með Róberti Marshall sem hafði mjög einfalda sýn á þessu. Ásdís, það er hægt að hlaupa í öllu veðri og þú getur þetta auðveldlega ákvað ég að hætta þessu nöldri og gíra mig í hlaupið. Við fórum í Gljúfrastofu og skiptum um föt þar. Tilhugsunin um að græja okkur í tjaldinu var ekki spennandi. Það var nú ekki annað hægt að að komast í gírinn þegar ég sótti númerið mitt, fékk flöguna og þennan forláta bol. Ég hitti alla hina Landvættina og fann hlaupagleðina. Á endastöðinni voru þessir fínu kamrar sem ég nýtti að minnsta kosti tvisvar fyrir hlaupið, örugglega í tíunda skiptið þennan morguninn. Það voru allir í stuði, sumir voru með poka á bakinu, aðrir ekkert, sumir í stuttbuxum, aðrir meira klæddir. Það var svona allur gangur á þessu. Við fórum niður að Dettifossi, tókum nokkrar „selfies“ eins og skylda er fyrir keppni og röðuðum okkur í rétt hólf.  Þeir sem ætluðu að vera fjóra tíma eða lengur.  Ég var ennþá frekar stressuð yfir þessum tímamörkum við þrjá tímana en ákvað að hætta að hugsa um þetta og skemmta mér í hlaupinu.

Jökulsárhlaupið sjálft

Það voru 222 keppendur skráðir í 32.7 km hlaupið. Ég byrjaði mjög vel.  Mér leið fáránlega vel og ég náði góðum tíma. Tók framúr ansi mörgum og fyrstu 20 km leið mér rosalega vel.  Þegar ég kom að fyrstu drykkjarstöðunni (eftir 11,5 km) átti ég svo mikið eftir að ég hlakkaði til að hlaupa restina. Það var reyndar skítaveður, kalt, rigning og rok og ég barðist við að láta húfuna hanga á hausnum á mér. Vettlingarnir urðu blautir og það var lítið um myndatökur þar sem ég var svo loppin að ég gat hreinlega ekki náð þeim af mér. Það skipti samt ekki öllu máli. Ég var vel stemmd og ég átti nóg inni. Ég naut virkilega að hlaupa og stækka þægindarammann minn. 

Hlaupaleiðin sem var merkt með þríhyrningi Varúð, hlaupið á brúninni, var ekkert mál og ég klifraði upp kletta og renndi mér niður þá eins og ég hefði ekki gert annað alla mína ævi.  Lofthræðsla, lofthræðsla, fann ekki fyrir henni. Áin sem ég hafði kviðið gífurlega fyrir, reyndist minna en ekkert mál. Vatnið rétt svo náði mér í kálfa og ég var hvort sem er svo blaut að ég fann ekkert fyrir vatninu. Á drykkjarstöð númer tvö var ég orðin pínu orkulaus.  Ég var svöng og ég gaf mér nokkrar mínútur í að fylla á tankinn og slaka á. Það var allt í lagi, ég átti nóg eftir. Þetta var stöðin sem var 3ja tíma línan og ég var á 2.32 klst. Langt á undan áætlun. Þarna áttaði ég mig á því að það var alveg raunhæft að ég myndi klára og þarna áttaði ég mig líka á því að þessi skelfilegu TÍMAMÖRK sem ég var búin að hræðast allan veturinn voru alveg sanngjörn. Ef ég sem var algjör byrjandi í hlaupum gat hlaupið þetta undir tímamörkum í versta veðri í sögu hlaupsins þá var þetta alveg sanngjarnt. 

Þarna voru ekki nema 13 km eftir og ég var að njóta mín í botn. Það var reyndar ekki hægt að njóta neins annars því ég sá yfirleitt ekkert út fyrir rigningunni.  Ég er sannfærð um að Hilda var alveg að segja satt þegar hún var að dásama fegurðina á hlaupaleiðinni (í fyrri hlaupum). Það var bara engin leið að sannreyna það. Svo gerðist hið óhugsandi. Ég stoppaði, ég komst ekki áfram. Ég lyfti fætinum til að hlaupa, gera eins og Hilda segir  Þú setur bara annan fótinn framfyrir hinn og heldur áfram þar til þú kemur í mark. Hann lyftist ekki, ég komst ekki áfram. Ég var hreinlega eins og kanínan í Duracell auglýsingunni. Þessi sem gekk fyrir annarri tegund af batteríi.  Þetta var hrikalegt. 

Þarna átti ég um 12 km eftir og ég gat ekki hlaupið. Orkan og krafturinn var farinn.  Ég tók kalt mat, ég var ekki þreytt, ég bara gat ekki hlaupið. Ég gæti mögulega náð þessu á kraftgöngu en það var samt svo glatað, ég yrði væntanlega síðust í mark. Ég ákvað að höfða til skynseminnar og fór aftur á byrjunarreit, daganna þegar ég var að byrja að hlaupa og gat hlaupið á milli ljósastaura. Ok, Ásdís, þú labbar að gulu stikunni og svo hleypur þú yfir 3 stikur. Þetta gekk í smá stund en ég bara gat ekki lyft löppunum almennilega þannig að þetta var meira svona kraftlabb frekar en hlaup.  Ég var alveg týnd. 

Það voru ansi margir sem tóku framúr mér á þessum tíma. Ég gat ekki hlaupið þó líf mitt lægi við. Eftir 1 km af eymd og volæði, kveikti ég á perunni. Þú ert algjörlega orkulaus.  Hvernig væri að prófa þessi blessuðu orkugel. Æi, ég veit ekki, þau hafa aldrei virkað almennilega. Ég er nú meira með þau til að vera eins og hinir. Það eru allir með orkugel. Sumir hafa meira að segja plan hvenær á að taka þau og hversu oft. Mér fannst svoleiðis plan vera meira snobb. Hafði nú ekki mikla trú á því að það virkaði. Ég var meira fyrir að nota innsæið, fara eftir tilfinningunni. Ég hafði engu að tapa þannig að ég tók eitt orkugel.  Það gerðist ekkert og ég hélt áfram að „kraftlabba“ á milli gulra stika. Allt í einu fann ég það, ég fékk orkuna mína aftur og ég gat farið að hlaupa. Þetta var eins og í lygasögu. 

Í að minnsta kosti 2 kílómetra var ég búin að reyna að starta mér í gang. Ég var eins og rauða sláttuvélin sem allir áttu einu sinni, þessi sem þurfti að draga í gang með snærisspotta og ekkert gerðist fyrr en allt í einu. Allt í einu fór ég líka í gang. Orkan mín kom og ég gat farið að hlaupa. Ekki bara gat ég farið að hlaupa, ég átti miklu meira en nóg inni. Setti upp plan í fljótheitum. Ég ætla að taka annað orkugel eftir rúma 27 km, alveg sama hvernig mér líður. Gerði það og kláraði hlaupið með stæl. Ég kom í mark á 4.43 en ekki nóg með það.  Í fyrsta skipti í sögu Jökulsárhlaupsins var tíminn lengdur um 20 mín eða í 5.20 þar sem þetta var versta veður í sögu hlaupsins. Ég kom í mark nr. 180 af 222.  Það þýðir bara eitt.  Ég þarf að fara aftur í hlaupið með orkugelaplan og sjá hvað ég get í raun og veru. 

Svona litu skórnir út eftir daginn.
Svona litu skórnir út eftir daginn.

Miðaldra konan brennir í bæinn og slaufar tjaldútilegunni

Við Hilda vorum sammála að önnur nótt í Ásbyrgi væri ekki málið. Við drifum okkur því upp á tjaldstæði og pökkuðum saman öllu og hentum í bílinn og brunuðum í bæinn. Við byrjuðum á því að skella okkur í sund á Húsavík. Reyndar rétt náðum við í pottana en það er fátt meira hressandi en að vera hrein og fín eftir svona hlaup. Komum við á Akureyri og fengum okkur sveittan hamborgara í vegasjoppu og keyrðum í bæinn. Við vorum harðákveðnar að keyra í bæinn samdægurs þar sem þar beið okkar hlýtt og notalegt rúm (á sitthvorum staðnum reyndar) og það var of freistandi að ná því frekar en að sofa í blautu tjaldi. Hilda keyrði og ég hélt henni félagsskap. Þegar þú ert búin að vera saman í marga daga þá erum við pínu uppiskroppa með umræðuefni.  Þá kom sér nú vel að hafa net í símanum þannig að þessa fimm tíma þá kláraði ég að lesa internetið fyrir okkur og hélt okkur þannig vakandi. Ég myndi rústa bleiku spurningunum í Trivial Pursuit í dag. Ég var ansi þreytt daginn eftir.  Með meiri harðsperrur en ég vissi að ég gæti fengið og rosalega þyrst. Að sama skapi var ég mjög stolt af því að hafa klárað þetta hlaup. Ég var þreytt í nokkra daga á eftir og átti sem betur fer tíma hjá sjúkraþjálfara á mánudeginum. Ég fór aðeins yfir harðsperrurnar. Ég spurði, ég teygði ekkert eftir hlaupið. Það er gott sagði hann, það á ekki að teygja eftir svona langt hlaup, heldur gefa líkamanum tækifæri til að jafna sig. 

Minn líkami þurfti tæpa viku til að jafna sig sem er kannski ekkert skrýtið.  Hann hefur aldrei þurft að hlaupa svona langt við svona aðstæður.  Einu sinni sagði ég að vöðvarnir mínir væru svona 5 ára miðað við notkun.  Ég hallast að því að þeir hafi elst um ár í þessu hlaupi.

Hér er Ásdís Ósk ásamt öðrum Landvættum.
Hér er Ásdís Ósk ásamt öðrum Landvættum.

Hvaða lexíu lærði miðaldra konan?

Þú getur alltaf miklu meira en þú heldur.  Ég stækkaði þægindarammann minn meira í þessu hlaupi en í öllum öðrum þrautum sem ég hef tekið þátt í.  Ef ég hefði ekki tekið þátt þá hefði það eingöngu verið vegna þess að ég nennti því ekki og það hefði verið lexía sem ég hefði tekið áfram með mér í gegnum lífið. Að ég gæfist upp þegar á móti blési. Það er mjög hættulegt að hugsa þannig. Að taka þátt í einhverju þó að það sé pínu erfitt styrkir mann meira en nokkurn myndi gruna.  Þegar ég kom í markið, áttaði ég mig á því að ég er ekki byrjandi í hlaupi. Ég er hlaupari og alveg ágætis hlaupari sem á nóg inni til að bæta sig. Það þarf að gera plan.  Það er ekki hægt að fara í svona langt hlaup og treysta á innsæið og tilfinninguna.  Þú hefur ekki alveg þá yfirsýn sem þú þarft þegar þú ert komin í svona langt hlaup, orðin þreytt og hugsar kannski ekki alveg rökrétt.  Þá gildir að fylgja planinu.

Næsta mál á dagskrá er að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar www.ahc.is samtökunum. Þau eru að vinna frábært starf til að finna lækningu á AHC taugasjúkdómnum og verða með ráðstefnu í haust þannig að hver króna skiptir máli.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið þá fer að styttast í æfingar hjá Þríþrautafélagi Kópavogs. Ég hef alltaf verið ákveðin í að taka hálfan járnkarl eftir Landvættina. Að vísu var hlaupið fyrsta þrautin mín í Landvættinum þannig að ég þarf að taka hinar 3 aftur en það er allt í lagi.  Ég verð í fínu formi eftir æfingar fyrir hálfan járnkarl.  Ég hef verið með mjög kvíðablandna tilhlökkun að byrja í því prógrammi en eftir þetta hlaup veit ég að ég get það. Ég þarf bara að ákveða að gera þetta og þá get ég það.

Ég væri ekki á þessum stað án Landvættaprógrammsins

Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni var að skrá mig í Landvættaprógrammið hjá Ferðafélagi Íslands. Það er fullt af fólki sem tekur Landvættina án þess að fara í prógrammið. Það er yfirleitt fólk sem er í fantagóðu formi og er að æfa þessar greinar. Fyrir okkur venjulega fólkið þá er mjög gott að hafa einhvern sem heldur utan um allt. Þú færð vikulega æfingaráætlun. Þú færð æfingarferðir og þú færð ítarlegar upplýsingar, fræðslu og kennslu um allt og ekkert sem mögulega, fræðilega, jafnvel tengist þessum þrautum. Stundum of mikið fyrir svona stressbolta eins og mig en þegar ég lít til baka þá var þetta algjörlega fullkomið. Forsvarsmenn Landvættanna, Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall, voru frábær og héldu mjög vel utan um allt og alla. Hinir þjálfarnir Kjartan Long og Birna Bragadóttir voru einnig algjörlega frábær.  Ég á þeim öllum svo mikið að þakka.  Þetta var ekki allt dans á rósum. Stundum þurftu þau að ýta á takkana og það var stundum erfitt að komast út úr þægindarammanum og sigrast á hausnum. Ég gæti ekki mælt meira með þessu prógrammi þó ég reyndi. Á 10 mánuðum taka þau venjulegt fólk og breyta þeim í ofurhetjur.  Það voru ansi margir sem rústuðu þægindarammanum sínum á þessar vegferð. Hvað þarf til að geta orðið Landvættur og komast í prógrammið? Það er miðað við þú getir að minnsta kosti hlaupið 10 km á 90 mínútum þegar þú byrjar og svo þetta smáatriði. Æfa samkvæmt plani allan veturinn. Mitt plan gekk reyndar ekkert alveg upp. Ég handleggsbrotnaði og fór í gifs og datt út. Hinsvegar bý ég að reynslu og þekkingu sem gerir mér kleift að halda áfram að bæta mig. Vegna Landvættaprógrammsins treysti ég mér núna til að fara að æfa hálfan járnkarl. Þetta er ekkert flókið.  Maður leggur af stað, setur aðra löppina fram fyrir hina þangað til þú kemur í mark (nema sund, þá er rosalega mikilvægt að nota líka hendur. 

Nokkur góð ráð um orku og orkugel

  1. Hafðu alltaf plan þegar þú ferð í lengri keppnir
  2. Innsæið og tilfinningin er ekkert til staðar þegar þú ert orðin þreytt/ur
  3. Orkugel svínvirka en þau eru mjög mismunandi og því mikilvægt að prófa hvað hentar
  4. Aldrei fara með neitt nýtt í keppni. Það er því gífurlega mikilvægt að vera búin að prófa þau orkugel sem þú ætlar með í keppni áður en farið er af stað
  5. Aldrei blanda saman orkugelum og orkudrykkjum. Það fer víst mjög illa saman í magann.

Ásdís Ósk heldur úti skemmtilegri Instagram-síðu eins og sjá má hér fyrir neðan: 

View this post on Instagram

“A year from now, you will wish you had started today.” — Karen Lamb Þetta er alltaf uppáhaldsmáltækið mitt. Hef ekki töluna á því hversu oft ég byrjaði og hætti, byrjaði og hætti. Ég sannfærði sjálfa mig um að ég gæti ekki, væri ekki nógu góð, þýddi ekki að reyna. Svo einn daginn fyrir 2 árum tók ég ákvörðun og ég hef ekki litið til baka. Ég hef lent í allskonar brekkum og beygjum. Ég hef heyrt óteljandi marga segja mér að ég gæti aldrei gert þetta eða hitt. Ég hef alltaf valið að hlusta ekki á úrtölur, bæði mínar sem og annara. Mín lexía, ef þú vilt eitthvað nógu, nógu, nógu mikið þá finnur þú leiðina. Annars finnur þú afsakanir. Við eigum eitt líf og það er stórkostlegt að nýta tækifærin sem bjóðast. This is my favorite quote. I cannot count the times I started, quit, started and quit. I convinced myself that I couldn't, that I as not good enough, I should not bother to try. Then one day 2 year ago I made a decision and I have not looked back. I have had so many setbacks. I have heard countless people tell me that I could not do this or that. I have always chosen not to listen to YOU CAN‘T. Both mine and others. My lesson. If you really, really, really want something, you find a way. If not, you find excuses. We have only one life and it‘s worth grabbing every opportunity we get and use it #onelife #oneyearfromnow #onlyoneme #baraeittlif #baraeinég #growthmindset #þægindaramminn #beaccountable #becauseican #madeiniceland🇮🇸 New photo: @unnurmagnaphotography Makeup: @gudnyingak

A post shared by Ásdís Ósk Valsdóttir (@asdisoskvals) on Aug 19, 2019 at 3:27am PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert