Húsvísku sjóböðin á lista Time

Sjóböðin á Húsavík eru sögð gefa gestum nægt andrými.
Sjóböðin á Húsavík eru sögð gefa gestum nægt andrými. Ljósmynd/Aðsend

Sjóböðin á Húsavík (GeoSea) hafa ratað á árlegan lista tímaritsins Time Magazine sem einn af 100 áhugaverðustu stöðum í heiminum til að heimsækja á árinu 2019.

Í umsögn sinni um sjóböðin segir Time offjölgun ferðamanna vera mikið vandamál á Íslandi. Sjóböðin gefi gestum hins vegar nægt andrými og stórkostlegt tækifæri til að virða fyrir sér norðurljósin séu þau heimsótt eftir myrkur.

Meðal annarra staða sem rötuðu á lista Time má nefna Hearst-kastalann í Kaliforníu, Gorgongoza-þjóðgarðinn í Mósambík, Sameiningarstyttuna í Gujarat á Indlandi og Uluru-þjóðgarðinn í Ástralíu.

Sjóböðin opnuðu á Húsavíkurhöfða fyrir tæpu ári og segja forsvarsmenn þeirra útnefninguna vera mikla viðurkenningu fyrir sjóböðin og líklega til að styrkja böðin enn frekar sem áhugaverðan viðkomustað.

mbl.is