Mávastell á 500 kall og konunglegt góss

Mávastellið fæst á spottprís á dönskum flóamörkuðum.
Mávastellið fæst á spottprís á dönskum flóamörkuðum. mbl.is/Jim Smart

Hvað er hægt að hafa fyrir stafni í sumarfríi í strandbæ á Jótlandi í Danmörku, þar sem búið var að lofa sumarblíðu og sólskini, en svo brestur á með helliregni? Jú - fara á einhvern af þeim fjölmörgu flóamörkuðum sem eru vítt og breitt um Jótland og gera þar reyfarakaup. 

Óvíða er jafn mikil hefð fyrir endurnýtingu og sölu notaðra hluta og fatnaðar og í Danmörku. Flóamarkaðirnir á Jótlandi eru sannkölluð paradís fyrir sparsama fagurkera og alla aðra sem vita fátt skemmtilegra en að grúska og gramsa og gera góð kaup.

Á um 50 stöðum, víðsvegar um Danmörku eru flóamarkaðir reknir undir merkjum Bláa krossins, eða Blå Kors sem er hjálparstarf fyrir heimilislausa og fólk í vímuefnavanda. Flestir þessara markaða eru á Jótlandi og þar kennir ýmissa grasa. Á einum þeirra rakst greinarhöfundur á kassa sem lét lítið yfir sér en þegar nánar var að gáð geymdi hann tíu kaffibolla, undirskálar og kökudiska úr Mávastellinu. 

Herlegheitin kostuðu litlar 500 danskar krónur, sem á núverandi gengi eru um 9.000 krónur. Að sjálfsögðu var þetta keypt. En ekki hvað? 

Reyndar mátti sjá Mávastellið á allflestum þeirra fjölmörgu flóamarkaða sem heimsóttir voru þessa rigningardaga; stellið var framleitt í yfir 100 ár og um miðja síðustu öld var áætlað að það væri til á a.m.k. tíunda hverju heimili í Danmörku. Því er gríðarlegt framboð af því á dönsku flóamörkuðunum. 

Konunglegt púsluspil og aðrar gersemar

Púsluspil með mynd af dönsku konungsfjölskyldunni frá miðjum 8. áratugnum …
Púsluspil með mynd af dönsku konungsfjölskyldunni frá miðjum 8. áratugnum er meðal gersema sem greinarhöfundur fékk á flóamarkaði á Jótlandi fyrr í sumar.

Fyrir konungssinna og aðra þá sem eru veikir fyrir konunglegum gripum eru þessir flóamarkaðir gullnáma.

Postulínsplatti frá Bing og Grøndal sem gerður var í tilefni …
Postulínsplatti frá Bing og Grøndal sem gerður var í tilefni af því þegar Margrét Þórhildur Danadrottning tók við völdum að föður sínum, Friðriki XI látnum.

Undirrituð keypti m.a. forláta púsluspil með mynd af dönsku konungsfjölskyldunni og postulínsplatta frá Bing og Grøndal sem framleiddir voru í takmörkuðu upplagi þegar Friðrik IX, faðir Margrétar Þórhildar Danadrottningar lést og hún tók við völdum.

Postulínsplatti frá Bing og Grøndal sem var gerður til minningar …
Postulínsplatti frá Bing og Grøndal sem var gerður til minningar um Friðrik IX Danakonung.

Þá er mikið úrval af bókum og tímaritum um allt á milli himins og jarðar á flóamörkuðunum. Eintak af danska tímaritinu Billedbladet vakti áhuga blaðamanns, það var frá árinu 1967 og þar var fjallað um tilhugalíf Margrétar Þórhildar, sem þá var krónprinsessa og Hinriks greifa, sem síðar varð Danaprins. 

Eintak af Billedbladet frá 9. júní 1967. Í blaðinu er …
Eintak af Billedbladet frá 9. júní 1967. Í blaðinu er fjallað um tilhugalíf Margrétar, sem þá var krónprinsessa og Hinriks, sem þá var greifi en hlaut titil prins þegar hann giftist Margréti.

Dönsk hönnunarvara á góðu verði

Skyldi einhver ekki hafa áhuga á konunglegu góssi má víða á flóamörkuðunum finna platta með teikningum danska listamannsins Bjørn Wiinblad sem hafa notið talsverðra vinsælda hér á landi undanfarin ár, einkum mánaðarplattarnir. Talsvert er síðan hætt var að framleiða þá og hér á landi eru þeir m.a. seldir í verslunum með notaða muni og á ýmsum Facebook-síðum. Algengt verð er nokkur þúsund krónur. 

Plattar Bjørns Wiinblad eru vinsælir og eru algeng sjón á …
Plattar Bjørns Wiinblad eru vinsælir og eru algeng sjón á flóamörkuðum á Jótlandi í Danmörku.

Þessa platta má fá á flóamörkuðum á Jótlandi fyrir 25-30 danskar krónur, sem eru um 500 krónur. 

Þá er algengt að finna ýmsa þekkta danska hönnunarvöru á þessum mörkuðum, t.d. dýrastytturnar frá Bing og Grøndal og tréfígúrur Kaj Bogesens. Ekki má svo gleyma postulíninu frá Royal Copenhagen sem þarna má fá á talsvert lægra verði en víðast hvar annars staðar.

Flóamarkaðir á Jótlandi

  • Allir markaðir á vegum Bláa krossins eru þess virði að heimsækja.  Upplýsingar eru á vefsíðunni blaakors.dk.
  • Knudepunktet í Frederikshavn er fyrirtaks markaður.
  • Á vefsíðunni guloggratis.dk er yfirlit yfir flóamarkaði í Danmörku.
  • Kræmmerland í Pandrup er gríðarstór og þar má gera reyfarakaup.
  • Markedskalenderen.dk er góð upplýsingasíða um flóamarkaði í Danmörku.
mbl.is