Svona geta ferðalangar framtíðarinnar eflt sig

Enskuskóli Erlu Ara hefur um árabil boðið upp á ferðir til Englands fyrir unglinga á aldrinum 13-16 ára þar sem þau stunda enskunám í Kent School of English. 

Erla segir að krökkunum sé raðað í hópa eftir getu þar sem hinum ýmsum þjóðernum er blandað saman.

„Námið byggist upp á skemmtilegum kennslustundum þar sem lögð er áhersla á tal, auk þess sem þau vinna saman í hópum með það að leiðarljósi að styrkja sjálfsvitund, sjálfseflingu og menningarlæsi,“ segir Erla.

Hópurinn sem fór út á vegum Erlu Ara síðastliðið sumar myndaði til dæmis tengsl við hóp sem kom frá Valencia á Spáni. „Íslensku og spænsku krakkarnir unnu saman að ýmsum verkefnum og var ánægjulegt að sjá gleðina og tengslin sem mynduðust við þessa samvinnu.“

Erla segir það vera mikið atriði að krakkarnir fái að njóta sín og upplifa sjálfstæði í öruggu umhverfi.

„Þau fá mikla möguleika á að styrkja enskukunnáttu sína og öðlast sjálfstraust í að tala hana. Allir á vegum skólans eru breskir, bæði kennarar og þau sem sjá um dagskrána eftir að hefðbundnum kennslustundum er lokið, auk þess sem þau þurfa að tala ensku við fjölskylduna sem þau dvelja hjá.

Heimurinn er allra og því er afar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ekki er allt eins og heima. Það sem þykir sjálfsagt hér þykir kannski ómögulegt meðal annarra þjóða og því er um að gera að öðlast hæfileika til þess að aðlagast og virða siði og menningu í öðrum löndum,“ segir hún.

Að sögn Erlu má ekki gleyma mikilvægi þess að njóta lífsins, eignast nýja vini og skemmta sér í leik og námi. Koma svo heim reynslunni ríkari með góðar minningar sem seint gleymast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert