Gróa ferðast helst bara með handfarangur

Gróa Ásgeirsdóttir ferðast mikið vegna vinnunnar.
Gróa Ásgeirsdóttir ferðast mikið vegna vinnunnar. Ljósmynd/Árni Sæberg

Gróa Ásgeirsdóttir verður alltaf betri og betri í því að pakka létt. Hún starfar hjá Air Iceland Connect og vegna vinnunnar hefur hún ferðast mikið innanlands og til Grænlands sem er eitt af hennar uppáhaldslöndum. 

Hvernig ferðatýpa ert þú?

„Ég ferðast mikið innanlands sér í lagi starfs míns vegna og hef því fengið að kynnast perlum Íslands og hvað Ísland hefur að bjóða. Ég hef líka verið svo heppin að fá að ferðast mikið um Grænland vegna vinnunnar og er það land einn af mínum uppáhaldsáfangastöðum. Ég er frekar skipulögð þegar ég ferðast, gef mér nægan tíma og í dag nýt ég þess að fljúga svona í flestum tilfellum. Áður fyrr var ég mjög flughrædd en er það ekki lengur og þvílíkur léttir. Það er svo miklu einfaldara að ferðast án flughræðslu.“ 

Gróa hefur gaman af því að fara í golfferðir.
Gróa hefur gaman af því að fara í golfferðir.

Skipuleggur þú ferðalög með miklum fyrirvara eða ertu hvatvís þegar þú ferð í ferðalög?

„Bæði – ég á það til að fara mjög óvænt, sérstaklega innanlands, en plana líka fram í tímann. Mér finnst mjög gaman að fara í ferðalag með skömmum fyrirvara og það gefur ferðalaginu ævintýralegan blæ. Svo er líka skemmtilegt að undirbúa ferðalög vel, skipuleggja dagskrá og leyfa sér að hlakka til, það er oft hluti af ferðalaginu.“ 

Hvert er besta frí sem þú hefur farið í?

„Ég á nokkur uppáhaldsfrí, en best er þegar ég get blandað saman því að slaka á og hreyfa mig. Þannig er til dæmis gönguferð um þorpin í Chinqe Terre á Ítalíu eitt af mínum uppáhaldsfríum sem og klassísk ferð til Spánar eða Tenerife með fjölskyldu eða vinum í golf og slökun. Sigling á skútu um Scoresbysund á Grænlandi stendur líka upp úr sem eitt af mínum bestu fríum, en þar var ég viku með dásamlegu fólki, í óendanlegri fegurð Grænlands, kyrrð og engu símasambandi sem var viss áskorun og erfitt til að byrja með. Slökun, kyrrð og ró er minn lykill að góðu fríi.“

Hvað einkennir gott ferðalag?

„Góður félagsskapur, gott veður, rólegheit og skemmtileg afþreying í bland er besta ferðalagið.“

Hver er þín flugrútína?

„Það er mjög einfalt að fljúga innanlands svo þá er rútínan einföld. Mæting 45 mínútum fyrir brottför, helst bara handfarangur og ég er komin austur, vestur eða norður á innan við klukkutíma.

Millilanda er rútínan kannski aðeins flóknari en samt reyni ég að hafa hana einfalda. Tékka mig alltaf inn fyrir fram og vel helst að sitja framarlega í vélinni. Ég reyni að ferðast bara með handfarangur ef hægt er, ferðast í þægilegum klæðnaði og strigaskóm og hef með mér góða bók og nóg af vatni.“

Kanntu að pakka létt?

„Já og ég er að alltaf að verða betri og betri í því.  Það er þvííkur munur að ferðast bara með handfarangur.“ 

Hvert dreymir þig um að fara?

„Ég elska að ferðast og skoða nýja staði.  Ég hef farið víða en til dæmis aldrei farið í skíðafrí erlendis. Þótt ég kunni ekki mikið á skíðum þá er það draumur að komast í svoleiðis frí. Borgirnar Prag og Budapest eru líka ofarlega á „bucket-listanum“ sem og margir aðrir staðir. Sem betur fer á ég eftir að upplifa og ferðast til nýrra áfangastaða.“

Hér er Gróa á Grænlandi.
Hér er Gróa á Grænlandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert