Þú þarft ekki að fara til LA til að skoða tökustaði

Skipulagðar ferðir um New York geta verið vænlegur kostur.
Skipulagðar ferðir um New York geta verið vænlegur kostur. mbl.is/Pexels

New York-borg í Bandaríkjunum er ein af þeim borgum í heiminum sem hafa oftast komið fyrir í kvikmyndum. Fyrir þá sem fylgjast vel með kvikmyndum og þáttum er því skemmtilegt að skella sér í ferðir til að skoða fræga tökustaði. Mikið af afþreyingarefni er tekið upp í Los Angeles, en þó alls ekki allt og því engin þörf að gera sér ferð yfir á vesturströndina.

Þættir á borð við Sex and The City, Friends, Gossip Girl, Glee og Modern Family eiga það allir sameiginlegt að gerast í borginni. Þá er einnig hægt að finna ferðir sem skoða tökustaði ofurhetjumynda og nýrri þátta á borð við The Marvelous Mrs. Maisel og Younger.

Það getur verið góð skemmtun að ráfa stefnulaust um New York, sérstaklega þar sem auðvelt er að rata þar. Hún er samt geysistór og í einum göngutúr er erfitt að komast yfir allt það sem mann langar til að sjá. Því geta skipulagðar ferðir verið frábær valkostur fyrir þá sem hafa ekki langan tíma og vilja sjá sem mest. Hægt er að finna skipulagðar ferðir um borgina, ásamt leiðsögumanni, sem sýnir manni og segir frá helstu tökustöðunum. 

When Harry Met Seinfeld

Ferð um borgina þar sem helstu staðir úr rómantísku gamanmyndinni When Harry Met Sally og gamanþáttunum Seinfeld eru heimsóttir. Fyrir dygga aðdáendur er þessi ferð afbragðskostur. Ferðin tekur um tvo tíma og er í boði klukkan tvö á fimmtudögum og laugardögum. Hún kostar 48 bandaríkjadali fyrir einn fullorðinn og 32 dali fyrir börn.

Sex & the City hotspots

Fetaðu í fótspor vinkvennanna Carrie, Samönthu, Charlotte og Miröndu og fáðu þér kokteila á helstu börum borgarinnar. Þú getur drukkið kokteila þar sem þær drukku kokteila, verslað þar sem þær versluðu og slúðrað þar sem þær slúðruðu í þessari ferð. Ferðin tekur um þrjá og hálfan tíma og hefst klukkan 11 alla daga en er einnig í boði klukkan þrjú á laugardögum. Ferðin kostar 56 bandaríkjadali fyrir einn fullorðinn.

Gossip Girl

Upper East Side-hverfið er vettvangur ferðarinnar sem fylgir eftir ríku unglingunum í Gossip Girl-þáttunum. Taktu mynd af þér á tröppum Met-safnsins. Síðar í ferðinni er farið neðar á Manhattan og Grand Central Station skoðuð, þar sem Serena van der Woodsen sást í fyrsta þættinum. Ferðin tekur um þrjá tíma og er í boði alla daga klukkan 10. Ferðin kostar litla 56 bandaríkjadali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert