Suðupotturinn San Francisco

Horft yfir borgina inn eftir San Francisco flóa.
Horft yfir borgina inn eftir San Francisco flóa. mbl.is/Pexels

San Francisco er blómleg borg á vesturströnd Bandaríkjanna. Saga hennar er löng og merkileg og einkennist af hippum, hinsegin samfélaginu og blómum. Það er hægt að dunda sér við ýmislegt þar í borg; fara á góð kaffihús, borða á framandi veitingastöðum og heimsækja hið alræmda Alcatraz. 

Hafnarsvæðið

Hafnarsvæðið eða Pier 41 er einstaklega skemmtilegt þótt það geti oft verið troðið af ferðamönnum. Það er þó gaman að ganga þar í gegn og berja sæljónin sem búa þar augum. Þaðan er hægt að fara í ferðir yfir í Alcatraz-fangelsið.

Japantown og Chinatown

Menning innflytjenda blómstrar í borginni og má finna bæði japanskt hverfi og kínverskt hverfi í borginni. Kínahverfið er það fyrsta sem myndaðist í Bandaríkjunum og er gaman að rölta þar í gegn. Japanska hverfið er líka ofboðslega skemmtilegt en það einkennist af verslunarmiðstöð í tveimur húsum. Þar má finna ekta japanska staði og frábærar búðir þar sem hægt er að kaupa allt til japanskrar matargerðar. Fyrir þá sem eru heillaðir af japanskri menningu er dásamleg upplifun að fara í japanska tegarðinn, Japanese Tea Garden.

Það er gaman að fara í nestisferð á ströndina.
Það er gaman að fara í nestisferð á ströndina. Ljósmynd/Sonja Sif Þórólfsdóttir

Nestisferð á ströndina

Flóamegin við borgina er skemmtileg strönd. Það er gaman að fara þangað á góðum degi og sóla sig lítillega og borða nestið. Golden Gate-brúin sést frá ströndinni, sem og Alcatraz-fangelsið. Hafið þó í huga að ef þið viljið sjá í brúna má ekki vera þoka en mikil þoka einkennir veðrið í San Francisco, sérstaklega yfir sumarið.       

Hjóla yfir Golden Gate

Það er gríðarlega vinsælt að leigja sér hjól til þess að hjóla yfir djásn borgarinnar, Golden Gate-brúna. Bæði er hægt að fara í skipulögðum hóp og gera það sjálfur.

View this post on Instagram

Streets Of SF Feature! Photo by: @joey_zeyu . . Selection By: @the_lost_coast

A post shared by ᴛʜᴇ sᴛʀᴇᴇᴛs ᴏғ sғ (@streetsofsf) on Jul 16, 2019 at 1:56pm PDT

Flóasvæðið

Svæðið í kringum San Francisco er ekki síður áhugavert og skemmtilegt en borgin sjálf.

Taka ferju yfir til Vallejo

Það er einstaklega fallegt að taka ferju frá borginni yfir í smábæ innar í flóanum. Þá getur maður séð borgina í öllum sínum skrúða utan af hafi og nýtt tækifærið og skoðað ekta smábæ í Norður-Kaliforníu. Bærinn lýsti yfir gjaldþroti árið 2008 en líf hefur verið að færast í hann á síðustu árum. Það er einnig gaman að taka bílaleigubíl þaðan og keyra aftur til baka til borgarinnar og koma við í smábæjum meðfram flóanum. Í flestöllum bæjunum má finna bændamarkaði af einhverri sort þar sem hægt er að kaupa háklassa grænmeti og ávexti beint af bónda.

Berkeley og Oakland

Berkeley er dásamlegur bær handan flóans við San Francisco. Þangað er frekar auðvelt að komast en lestin gengur beint yfir. Lestin stoppar fyrst í Oakland, sem er einstaklega skemmtileg borg líka. Þar búa margir sem vinna í San Francisco þar sem húsnæði er af skornum skammti í San Francisco og leiguverðið getur verið svimandi hátt.

Berkeley er þó mun áhugaverðari bær en hjarta hans er án efa svæðið í kringum University of California. Beint út frá háskólasvæðinu er skemmtileg gata þar sem meðal annars má finna dásamlega plötubúð.

Muir Woods

Norðan við San Francisco er gríðarlega fallegur og gamall skógur. Í skóginum eru stærstu og hæstu tré í heimi, Sequoioideae eða rauðviður. Það getur verið skemmtileg dagsferð að leigja bílaleigubíl og fara að skoða skóginn. Hægt er að pakka nesti og eyða stórum hluta úr deginum í skóginum sem býður upp á fallegar gönguleiðir. Einnig er hægt að skrá sig í dagsferð þangað.

Borgin og nærumhverfi hennar býður upp á gríðarlega mikla afþreyingu og ef stefnan er sett á San Francisco er um að gera að skoða hinar ýmsu ferðir sem boðið er upp á inni á TripAdvisor.

Þokan getur oft strítt mannni. Þarna má sjá glytta í …
Þokan getur oft strítt mannni. Þarna má sjá glytta í Golden Gate-brúnna en þokar hylur hana oft á sumrin. Ljósmynd/Sonja Sif Þórólfsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert