Örlögin leiddu Höllu til Kaupmannahafnar

Halla Marín hefur búið í Kaupmannahöfn í 7 ár.
Halla Marín hefur búið í Kaupmannahöfn í 7 ár. Ljósmynd/Aðsend

Halla Marín Hafþórsdóttir hefur búið í Kaupmannahöfn í Danmörku í sjö ár. Hún flutti upphaflega til borgarinnar til að læra leiklist, sem hún gerði fyrsta árið. Lífið hefur hins vegar leitt hana á aðrar slóðir og starfar hún nú sem veitingastjóri Gló í Danmörku. Hún hefur einnig unnið sem vínþjónn lengi og stundaði nám í Asíufræðum og indónesísku um tíma. Þá fór hún í eitt ár til Balí í skiptinám. Halla hefur unnið hjá Gló frá því að veitingastaðurinn var fyrst opnaður í Danmörku, fyrst sem aðstoðarmaður í eldhúsi, síðar aðstoðarkokkur og nú sem veitingastjóri.

Halla hefur komið víða við í heiminum. Hún er fædd og uppalin á Húsavík, en fór sem skiptinemi til Ítalíu á unglingsárunum. Síðar fór hún aftur til landsins en þá sem au pair. Hún hefur einnig búið um tíma í Ástralíu og farið í heimsreisu um Suðaustur-Asíu. Halla trúir því að örlögin hafi leitt hana til Kaupmannahafnar og vill hún nú hvergi annars staðar vera.

Hvað heillaði þig við Kaupmannahöfn þegar þú fluttir þangað?

Það verður að segjast að ég ætlaði mér aldrei að flytja til Skandinavíu. Ég leitaði alltaf lengra, bjó m.a. á Ítalíu í tvö ár, ferðaðist mikið og langt í burtu og bjó líka um tíma í Ástralíu. Svo hugmyndin um Danmörku var mjög fjarlæg og mér fannst það einhvern veginn alltof nálægt og líkt Íslandi. En ég trúi því að örlögin hafi leitt mig hingað til Köben því ég hef aldrei litið til baka og vil hvergi annars staðar vera. Það eru einhverjir töfrar við Kaupmannahöfn sem er erfitt að útskýra. Það sem kannski heillaði mig allra mest við fyrstu kynni var hjólamenningin. Ég hafði hjólað í vinnu og skóla í Reykjavík við það sem verður að kalla afar léleg skilyrði, svo að upplifa hvernig hjólið kemur þér í raun fljótar á milli staða en annar fararmáti fannst mér magnað.
Fyrir utan það hvað borgin er einstaklega falleg, og hæfilega stór að mínu mati, þá elska ég líka hversu auðvelt það er að komast út í náttúruna. Sem ekta landsbyggðarpía er það mjög mikilvægt fyrir mig að hafa auðvelt aðgengi að hafinu.

Hjólamenningin heillaði Höllu.
Hjólamenningin heillaði Höllu. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða hverfi eru í uppáhaldi hjá þér?
Ég bý sjálf í hjarta Nørrebro og hef gert alveg síðan ég flutti hingað og Nørrebro er í mestu uppáhaldi. Vesterbro og Christianshavn eru einnig í miklu uppáhaldi, sem og Refshaleøen sem er í hraðri uppbyggingu, en það er iðnaðarhverfi, svo umhverfið er hrátt en virkilega heillandi á sama tíma. Þar eru komin gallerí, barir og veitingastaðir, og „Reffen“, Copenhagen Street Food, er þar líka. Á sumrin er Refshaleøen líka geggjaður staður til að sóla sig og synda í sjónum. Sumstaðar á eyjunni líður manni eins og maður sé staddur úti á landi, alls ekki í miðri borg.

Áttu þér uppáhaldsveitingastað eða -bar?
Ó, svo marga! Malbeck, Pompette, La Banchina og Sabotøren fyrir gott vín og huggulegheit.
Brus, Warpigs, Mikkeller Baghaven og Kølsters Tolv Haner fyrir góðan bjór.  
Osborne, Cafe Nick, Bo-Bi Bar og Mc.Kluud eru uppáhaldsölstofurnar mínar (bodega) og að fara á eina slíka er alveg ekta danskt.
Kaf (100% vegan kaffihús), Bevars, Stefanos mad & kaffe, og Gavlen fyrir bröns og kaffi.
Veitingastaðir sem ég fer alltaf aftur og aftur á eru m.a. Atlas Bar, Mahalle og Ma'ed Ethiopian Restaurant.

Bestu pítsur Kaupmannahafnar finnurðu hjá Nino á Guldbergsgade á Nørrebro. Fyrir fínni stað og geggjaða matarupplifun mæli ég algjörlega með Restaurant Mastek i Nordhavn.

Halla vill helst hvergi annarsstaðar búa en í Kaupmannahöfn.
Halla vill helst hvergi annarsstaðar búa en í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er skemmtanalífið í Kaupmannahöfn?

Skemmtanalífið er mjög fjölbreytt og alltaf hægt að finna eitthvað við allra hæfi. Persónulega er ég mest fyrir vínbari og ölstofur og minna fyrir klúbba. Á sama tíma elska ég að dansa við elektróníska tónlist, svo að á góðum degi geturðu alveg fundið mig á sveittum stað i Kødbyen. Það eru alltaf einhver „festivöl“ í gangi hérna og hægt að finna góð partí úti um alla borg, á hvaða árstíma sem er. Seinni part föstudags er einhver óútskýranleg og rafmögnuð stemning yfir Kaupmannahöfn, sérstaklega í góðu veðri, en það er rosalega sterk hefð hér fyrir að kíkja út í bjór eða kokteil með vinnufélögunum eða vinahópnum eftir vinnu á föstudögum. Ég elska það!

Hvað er ómissandi að sjá?

Mér finnst ómissandi fyrir fólk að sjá borgina annars vegar frá höfninni og hins vegar ofan frá.

Ég fer með alla mína gesti í „kanalrundfart“ sem er sigling um höfnina og gefur að mínu mati einstaka upplifun af borginni. Farið er frá Nyhavn, ferðin tekur klukkutíma og er meðal annars siglt framhjá Óperuhúsinu, litlu hafmeyjunni og eftir kanalnum sem liggur í gegnum Christianshavn. Einnig er GoBoat algjör snilld, en þar leigirðu lítinn bát í nokkra tíma, hann rúmar átta farþega og er vinsælt að taka með sér nesti og síðan sigla um höfnina og kanalana á eigin vegum.
Það eru margir möguleikar í boði þegar kemur að því að fá gott útsýni yfir borgina. Mínir uppáhaldsstaðir til þess eru Vor Frelsers Kirke, turninn í Christiansborg og Himmelskibet í Tívolí, sem er róla sem snýst í hringi hátt uppi, nánar tiltekið 80 metra hátt uppi.
Annars mæli ég sterklega með því að kikja á óperusýningu í Óperuhúsinu eða ballettsýningu í Det Kongelige Teater, upplifunin ein að koma í byggingarnar er þess virði. Það er alltaf eitthvað áhugavert í sýningu hérna og að mínu mati er einn af stærstu kostum Kaupmannahafnar einmitt mjög ríkt menningarlíf.

Halla hvetur alla til að leita lengra en Strikið og …
Halla hvetur alla til að leita lengra en Strikið og Nyhavn. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er draumadagurinn þinn í Kaupmannahöfn?

Drauma (frí)dagurinn byrjar á því að ég sef út, fer í jógatíma og borða hádegismat á uppáhaldskaffihúsinu mínu, Kaf, sem ég er svo heppin að hafa rétt fyrir utan dyrnar hjá mér.
Þar á eftir fer ég í fjársjóðsleit á „loppemarked“ og jafnvel hoppa í sjóinn einhvers staðar. Um kvöldið býð ég vinum heim í garðinn í mat og vín og svo færum við okkur á einhvern bar eða ölstofu seinna meir.

Eru einhverjar túristagildrur sem ber að varast?

Veit ekki hvort þetta flokkast sem túristagildra, en ég vil hvetja fólk sem heimsækir Kaupmannahöfn til að leita aðeins út fyrir Strikið og Nýhöfn. Kaupmannahöfn er svo miklu, miklu meira en bara miðborgin, sem að mínu mati gefur ekki rétta mynd af því hvað borgin er í rauninni ótrúlega fjölbreytileg og skemmtileg.

Hægt er að sóla sig og skella sér í sjóinn …
Hægt er að sóla sig og skella sér í sjóinn á hinum ýmsu bryggjum Kaupmannahafnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert