Engir tveir dagar eins hjá Björk í Nýju-Delí

Björk og Giorgos fluttu til Nýju-Delí vegna starfs Giorgos.
Björk og Giorgos fluttu til Nýju-Delí vegna starfs Giorgos. Ljósmynd/Aðsend

Björk Óskarsdóttir fiðluleikari býr í Nýju-Delí, höfuðborg Indlands, ásamt fjölskyldu sinni. Björk segir að engir tveir dagar séu eins á Indlandi en tveggja ára gamalli dóttur hennar finnst til dæmis mjög eðlilegt að sjá apa og kýr úti á götu. 

„Ég hef búið í Nýju-Delí í tæpt ár ásamt manninum mínum, Giorgos, sem starfar sem konsúll í gríska sendiráðinu og tveggja ára stelpunni okkar, Ariadni Marín,“ segir Björk um ástæðu þess að hún flutti alla leið til Indlands.  

Voru mikil viðbrigði að flytja til Indlands? Hvernig gekk til dæmis að aðlagast menningunni?

„Það voru talsverð viðbrigði að flytjast hingað. Við völdum ekki staðinn, heldur vorum við send hingað á vegum grísku utanríkisþjónustunnar. Það í sjálfu sér setti svolítið tóninn fyrir flutningana svo við lögðum okkur fram frá byrjun um að horfa á það jákvæða við Indland, sem er mjög margt. Þetta er ótrúlega spennandi land sem býr yfir mikilli sögu, hefðum og ótrúlegu landslagi. Hér eru engir tveir dagar eins. Auðvitað kemur margt óvænt upp á í borg eins og Delí og við eigum margar furðusögur en fæstar af þeim eru prenthæfar. Það sem er kannski erfiðast og ómögulegt að venjast er hversu stórt bilið er á milli ríkra og fátækra og vanmáttarkenndin gagnvart fátæktinni sem maður sér dagsdaglega. Veðráttan er svo kafli út af fyrir sig en það er mjög heitt á sumrin og andrúmsloftið mjög mengað á veturna. Þar af leiðandi er frekar takmarkaður tíminn sem hægt er að verja utandyra. Það er samt ótrúlegt hverju maður venst og hversu fljótt. Ariadni Marín finnst til dæmis mjög eðlilegt að sjá apa og kýr úti á götu og fannst vera skortur á þeim á Íslandi í sumar,“ segir Björk. 

Api úti á götu.
Api úti á götu. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það besta við að búa á Indlandi?

„Delí er stór og fjölmenn og hér er hægt að finna flestallt sem maður getur ímyndað sér. Miðað við evrópskar stórborgir kostar ekki svo mikið til dæmis að fara út að borða, og maður getur í raun notið alls þess sem stórborg hefur upp á að bjóða fyrir verð sem maður byggist frekar við á smærri stöðum. Leiguverðið er samt ekki mjög lágt, en íbúðirnar eru almennt stórar og stelpan okkar hefur mikið pláss heima við til að hlaupa um og leika sér. Að sama skapi er ekki dýrt að ráða aðstoðarfólk á þeim launum sem það setur upp og við erum þakklát fyrir að hafa manneskju til dæmis sem hjálpar til heima og með stelpuna okkar. Hér tala langflestir ensku, svo það er ekki mikið um tungumálaerfiðleika. Hér er mikið af trjám og gróðri og mér finnst muna mikið um það. Eins er maturinn alveg frábær, auðvelt að nálgast góð hráefni í matargerð og auðvelt að sækja sér holla hreyfingu, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á jóga.“

Björk í miðjunni ásamt Kristínu vinkonu sinni og Giorgos manni …
Björk í miðjunni ásamt Kristínu vinkonu sinni og Giorgos manni sínum þegar þau heimsóttu Gurudwara, bænahús Sikh-fólksins. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi að sjá og gera í Nýju-Delí?

„Þegar við fáum gesti byrjum við yfirleitt á að fara með þá til Gömlu-Delí, sem er norðurhluti borgarinnar og talsvert ólíkur þeim syðri. Þar er hægt að heimsækja fræga krydd- og silfurmarkaðinn og mjög áhugaverða staði eins og til dæmis eitt af bænahúsum síka, Gurudwara Sis Ganj Sahib, sem flestum finnst stórmerkileg upplifun. Þar eru líka moskan Jama Masjid, Jain-hofið Sri Digambar Jain Lal Mandir og fræga kennileitið Red Fort meðal annars. Humayun's Tomb er risastórt grafhýsi sem er magnað að sjá og svo get ég auðvitað ekki annað en mælt með dagsferð til Agra til að skoða Taj Mahal. Svo er gaman að versla á Dilli Haat-markaðnum og rölta „Laugaveginn“, Khan Market. Þegar illa viðrar sökum hita, monsúnrigninga eða mengunar er ágætt að fara í verslunarmiðstöðvarnar, en þær eru margar og gríðarstórar.“

Teppi á Indlandi.
Teppi á Indlandi. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsveitingastað eða -mat? Hvernig er matarmenningin?

„Matarmenningin er mjög skemmtileg, sérstaklega fyrir þá sem eru fyrir indverskan/sterkan mat. Hér bjóða allir staðir upp á valkosti fyrir grænkera, enda eru þeir margir hér og meðal annars af trúarástæðum. Uppáhalds indversku staðirnir okkar eru án efa Chor Bizarre í Bikaner House og Haveli Dharampura í Gömlu Delí. Við förum líka stundum á Sly Granny eða Foxtrot. Ef ég fer út í hádegismat eða kaffi fer ég yfirleitt á Perch, Fabcafe eða Greenr.“

Hádegismatur á Greenr.
Hádegismatur á Greenr. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er draumadagurinn í Nýju-Delí?

„Draumadagurinn í Nýju-Delí væri klárlega frídagur hjá manninum mínum, en þá reynum við að gera eitthvað með stelpunni okkar. Fabcafe í Vasant Kunj býður til dæmis upp á frábært leikrými fyrir börn og ef vel viðrar förum við kannski í Lodhi Gardens eða einhvern annan almenningsgarð. Þegar við erum með pössun finnst okkur gaman að rölta um Khan Market, skoða bókabúðirnar (Faqir Chand & Sons er í uppáhaldi), setjast svo inn á kaffihús og lesa. Stundum skellum við okkur í nudd, en það eru margir staðir sem bjóða upp á indverskar ayurvedískar meðferðir á viðráðanlegu verði. Ef við eigum fríkvöld og erum með pössun finnst okkur gaman að fara út að borða í góðra vina hópi, heimsækja vini eða bjóða fólki heim í mat. Það er líka í miklu uppáhaldi að sækja tónleika á djassklúbbnum Piano Man, það er staður sem á engan sinn líka hérna.“

Björk finnst gaman að fara í almenningsgarða með dóttur sinni …
Björk finnst gaman að fara í almenningsgarða með dóttur sinni og manni. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sem ferðamenn þurfa að passa sig á í borginni?

„Fyrir ferðamenn í Delí eins og annars staðar er mjög mikilvægt að skoða árstímann og veðurfarið og hafa varann á samkvæmt því. Núna er til dæmis monsúntími og mikið af moskítóflugum sem bera með sér skæða sjúkdóma og því mikilvægt að gera ráðstafanir, sérstaklega ef maður er að ferðast með börn. Sumrin hérna eru líka mjög heit svo fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir hita myndi ég ekki mæla með því að koma í maí, júní eða júlí. Það er allt í lagi að drekka filterað kranavatn hér, en kannski ekki frá fyrsta degi heldur er betra að leyfa líkamanum aðeins að aðlagast í nokkra daga. Það er mjög algengt að ferðamenn fái í magann hér, og þótt það geti í raun gerst af hvaða mat sem er er gott að hafa í huga að panta sér mat sem er fulleldaður en ekki til dæmis ferskt salat sem maður veit ekki hvernig hefur verið þvegið og auðvitað að fara varlega í að prófa götufæði. Já og það er algjör óþarfi að borga fullt verð á mörkuðum eins og Dilli Haat, það er í góðu lagi að prútta.“

Hefurðu ferðast mikið um Indland? 

„Við höfum ekki ferðast mjög mikið ennþá vegna tímaskorts, en höfum samt farið til Agra að sjá Taj Mahal, Jaipur, Neemrana Fort og til Rishikesh. Allt mjög áhugaverðir staðir hver á sinn hátt.“

Gamla-Delí.
Gamla-Delí. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert