Langaði að breyta til og upplifa aðra menningu

Sara Snædís er ánægð með lífið í Stokkhólmi.
Sara Snædís er ánægð með lífið í Stokkhólmi. Ljósmynd/Aðsend

Sara Snædís Ólafsdóttir hefur búið í tvö ár í Stokkhólmi ásamt manni sínum og tveimur ungum dætrum. Sara Snædís, sem starfar sem bæði jóga- og barre-kennari í Stokkhólmi, er ánægð með bíllausa lífsstílinn en saknar þó sundlauganna á Íslandi. 

„Okkur langaði aðallega til þess að breyta aðeins til, upplifa aðra menningu og víkka sjóndeildarhringinn. Maðurinn minn komst inn í mastersnám við KTH í Stokkhólmi og vorum við síðan flutt út nokkrum mánuðum síðar. Stokkhólmur varð fyrir valinu því að okkur fannst borgin fjölbreytt, aðlaðandi, snyrtileg og barnvæn,“ segir Sara Snædís um ástæðu þess að þau fluttu til Stokkhólms. 

Er eitthvað við sænska menningu sem þú hefur tekið ástfóstri við? ​

„Í raun eru Svíar og Íslendingar mjög svipaðir á margan hátt nema þeir eru ekki mikið fyrir frasann „þetta reddast“. Þeir vilja yfirleitt hafa allt á hreinu og eru skipulagðir. Til dæmis biður þú ekki Svía um að hitta þig í kaffi samdægurs eða býður ekki í kvöldmat með stuttum fyrirvara, það setur þá alveg út af laginu (ég lærði það fljótt). Svíar mæta líka alltaf á réttum tíma sem mér finnst frábært. Við erum einnig hrifin af þessu bíllausa lífi sem einkennir Stokkhólm. Hér ferðast flestir um annaðhvort á hjóli eða fótgangandi eða nota samgöngur. Það skapar minni þeyting og stress og maður losnar algjörlega við það að sitja í umferðarteppu.“

Fjölskyldan í Stokkhólmi.
Fjölskyldan í Stokkhólmi. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi að sjá og gera í Stokkhólmi?​

„Stokkhólmur er falleg borg og hefur upp á svo margt að bjóða. Á sumrin finnst mér æðislegt að heimsækja eitthvað af hinum fallegu görðum. Í þeim flestum er að finna stóra og flotta rólóa fyrir krakka til að leika sér og jafnvel buslulaugar til að kæla sig niður á heitum dögum. Það eru einnig margar fallegar strendur í Stokkhólmi og nágrenni sem er einstaklega gaman að fara á líka. Á veturna er sniðugt að skoða öll þau frábæru söfn sem er að finna í borginni, fara að versla og svo er líka alltaf huggulegt að setjast niður á kaffihús í „fika“ með góðum vinum.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?​

„Það er nóg úr að velja þegar kemur að veitingastöðum í Stokkhólmi en mínir uppáhaldsstaðir þessa stundina eru YUC sem er mexíkóskur staður með æðislegum smáréttum, Kale and Grave og Holy Green en þar getur þú fengið svakalega gott salat, Hawaii Poke fyrir bestu poke-skálarnar og Shanti ef maður er í indversku stuði, mæli með Palak Paneer!“

Það er oft gott veður í Stokkhólmi á sumrin.
Það er oft gott veður í Stokkhólmi á sumrin. Ljósmynd/Aðsend

En kaffihús?​

„Það er mikil kaffihúsamenning hér og mikið úrval af góðum kaffihúsum úti um alla borg en þeir staðir sem ég fer oftast á eru Pom och Flora sem býður upp á hollan og einstaklega fallegan morgunverð/brunch allan daginn, Systrarna Andersson er kaffihús þar sem er gott að setjast niður með kaffibolla og vinna og Kafe Rang býður upp á frábæran og hollan hádegismat.“

Hvernig er draumadagurinn í Stokkhólmi?​

„Draumadagur væri að byrja daginn í jóga í uppáhaldsstudíóinu mínu, Altromondo Yoga, fara svo út í piknikk og setjast í einhvern fallegan garð eins og Haga Parken eða Humlagården og leyfa stelpunum að leika sér. Síðan myndum við fara og fá okkur einhvern góðan brunch, t.d. á Greasy spoon eða rölta um í Södermalm og kíkja í búðir og kaffihús. Við færum svo í siglingu um Skerjagarðinn og myndum enda á ströndinni og leyfa stelpunum aðeins að busla í sjónum. Um kvöldið myndum við hitta góða vini á roof top-barnum Tak eða bjóða heim í mat til okkar.“

Stokkhólmur er barnvæn borg.
Stokkhólmur er barnvæn borg. Ljósmynd/Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera með börnunum í Stokkhólmi?

„Það er rosalega mikið af góðum og skemmtilegum leikvöllum í görðunum hér í Stokkhólmi og við höfum verið dugleg að fara á ólíka staði og eigum okkur nokkra uppáhaldsleikvelli núna. Það er líka æðislegt að fara á ströndina á sumrin og svo eru mörg söfn mjög barnvæn. Dýragarðurinn Skansen, sem er einhvers konar sambland af Árbæjarsafninu og Húsdýragarðinum, er æðislegur staður fyrir börn og Junibacken, sem er hálfgert ferðalag í gegnum bækurnar hennar Astrid Lindgren, slær líka alltaf gegn bæði fyrir börn sem fullorðna.“ 

Mikið er um fallega garða í Stokkhólmi.
Mikið er um fallega garða í Stokkhólmi. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sem þú saknar frá Íslandi?

„Fjölskyldu og vina saknar maður alltaf mest þegar maður býr erlendis. Við höfum samt verið dugleg að fara til Íslands í heimsókn og okkar nánasta fólk er duglegt að koma yfir til okkar líka. Við söknum reyndar líka íslensku sundlauganna þar sem hér eru nánast eingöngu óupphitaðar innisundlaugar.“

Hvenær er best að heimsækja Stokkhólm? ​

„Borgin er æðisleg á sumrin! Þannig að ég myndi segja að frá byrjun maí fram í miðjan september væri besti tíminn. En hér getur orðið mjög heitt þannig að ef fólk vill slá tvær flugur í einu höggi og fara í sólríka borgarferð þá er besti tíminn væntanlega júlí og ágúst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert