Hefur heimsótt 15 þúsund Starbucks-staði á 22 árum

Það heimsækja margri Starbucks-kaffihús á ferðalögum sínum.
Það heimsækja margri Starbucks-kaffihús á ferðalögum sínum. mbl.is/AFP

Fólk er með mismunandi áhugamál. Maður að nafni Winter hefur síðastliðin 22 ár eytt frítíma og peningum í það að reyna að heimsækja öll Starbucks-kaffihús í heiminum. Hann er ekki hættur þótt honum finnist kaffið á Starbucks ekki einu sinni það gott. 

„Ég kalla þetta öfgafullt áhugamál,“ segir Winter í viðtali við CNN á dögunum en áhugmál hans hefur vakið mikla athygli síðustu vikur. 

Þegar Winter hóf að vinna að markmiði sínu árið 1997 voru aðeins um 1.500 staðir í Bandaríkjunum og hann hélt að hann gæti náð markmiðinu og heimsótt alla staðina. Tuttugu og tveimur árum síðar er hann búinn að heimsækja yfir 15 þúsund staði og markmiðið verður erfiðara með hverjum deginum þar sem staður númer 30 þúsund var opnaður í Shenzhen í Kína fyrr á þessu ári. Winter skráir niður heimsóknir sínar á heimasíðu sinni. 

Starbucks-kaffihús.
Starbucks-kaffihús. mbl.is/AFP

Áður fyrr eyddi hann öllum helgum í að keyra fleiri hundruð kílómetra til þess að heimsækja nýtt Starbucks-kaffihús. Hann hefur líka farið út um allan heim sömu erinda, þar á meðal til Danmerkur og Katar. Ferðalögum hans hefur þó fækkað þar sem peningar hans fara nú í að sinna veikri móður hans. 

Þrátt fyrir allar ferðirnar á Starbucks hefur Winter ekki smakkað allt á matseðlinum og finnst kaffið á kaffihúsakeðjunni ekki svo gott lengur. „Það er annaðhvort þolanlegt eða allt í lagi en það er aldrei gott eða frábært kaffi,“ segir Winter í viðtalinu en hann fær sér annaðhvort uppáhellt kaffi eða espressó.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert