Viltu fá borgað fyrir að búa á Ítalíu?

Það væri ekki leiðinlegt að flytja til Ítalíu.
Það væri ekki leiðinlegt að flytja til Ítalíu. ljósmynd/Colourbox.dk

Dreymir þig um að flytja til Ítalíu? Og fá borgað fyrir að búa þar? Molisehéraðið á Ítalíu auglýsir nú eftir fólki til að setjast að í héraðinu og er tilbúið að borga því 700 evrur á mánuði í allt að þrjú ár að því er fram kemur á vef CNN. 

Molisehéraðið á Ítalíu er austur af Róm og liggur að austurströnd landsins en stór hluti þess er einnig inni í landi. Er í boði að setjast að í 106 bæjum þar sem ekki búa nógu margir.

Fólk getur því miður ekki bara borðað pasta, flatmagað í sólinni og skroppið á skíði á veturna og fengið borgað fyrir það. Laununum fylgir sú skylda að byrja með lítið fyrirtæki til þess að bæta efnahaginn. 

Hægt verður að sækja um að komast að á næstu dögum en ungt fólk og barnafólk er sérstaklega hvatt til að sækja um. 
Hér má sjá hvar Molise er á Ítalíu.
Hér má sjá hvar Molise er á Ítalíu. skjáskot/Google Maps
mbl.is