Margrét Björnsdóttir flutt í höfuðborg vellystinganna

Atli og Margrét á leiðinni í brúðkaup.
Atli og Margrét á leiðinni í brúðkaup. Ljósmynd/Instagram

Að sögn Margrétar Björnsdóttur sem býr í Brussel, höfuðborg Belgíu, er ýmislegt hægt að gera áhugavert í borginni. Hún mælir með bjórnum, súkkulaðinu og búðunum svo eitthvað sé nefnt. Hún á von á öðru barni sínu sem hún hlakkar til að fæða í Brussel. 

Hún er á lokametrunum að útskrifast með MSc-gráðu í markaðsfræðum frá London South Bank University og veit töluvert um borgina sem hún býr í, þar sem hún hefur farið  leiðsögutúra á vegum Stellar Walks að undanförnu. Hún býr í borginni með eiginmanni sínum Atla Má Sigurðssyni og dóttur þeirra. 

„Stellar Walks - er fyrirtæki Stellu vinkonu minnar sem býður upp á fræðandi og skemmtilegar ferðir um Brussel. En það besta af öllu sem er að frétta af mér þessa dagana er að ég er ólétt að mínu öðru barni og því spennandi tímar framundan. Sóley dóttir mín fæddist í London og næsta barn fæðist hér - því má segja að ég sé í rannsóknarverkefni um fæðingardeildir í Evrópu þegar kemur að barneignum.“

View this post on Instagram

Here we go again! 💚 #pregnant #newyork

A post shared by Margrét Björns (@margretbjorns) on Sep 28, 2019 at 3:18pm PDT

Hvernig er heimilislífið?

„Það snýst ansi mikið um snillinginn hana dóttur mína sem er búin í skólanum klukkan tólf þrjá daga vikunnar. Svo við mæðgur höfum verið duglegar að þræða leikvelli bæjarins, fara á söfn og hafa það notalegt. Sem betur fer er hún til þrjú í skólanum tvo daga vikunnar svo ég næ aðeins að sinna fleiri hlutum líka. Annars reynum við fjölskyldan að nýta helgarnar og skoða nærliggjandi bæi og lönd sem er eitt af því besta við að búa í Brussel – stutt í allar áttir.“

Hvað er skemmtilegast að gera í Brussel?

„Brussel er mjög hverfaskipt og það er mjög gaman að uppgötva hin ýmsu hverfi borgarinnar; Châtelain, Marolles, Ixelles, St. Gilles og fleiri. Svo er auðvitað meiriháttar að nýta sér alla viðburðina. Ég sá sem dæmi Louis CK uppáhaldsuppistandarann minn um daginn. Næst ætla ég á Nick Cave-tónleikana 30. janúar næstkomandi. Ég er sett 1. febrúar svo það er ekki boði fyrir barnið að koma fyrr en eftir tónleikana.“

Áttu þér uppáhaldsveitingahús?

„Ég er alltaf að kynnast fleiri góðum stöðum í Brussel. Mér dettur í hug að nefna Toukoul sem er eþíópískur veitingastaður í St. Catherine. Það er mikil stemning að fara þangað. Vismet er líka frábær sjávarréttastaður – Ég mæli með að fólk fái sér smjörsteikta skötu og hvítvínsglas þar. En ég hlakka mikið til að fá mér boeuf tartare á Les Brigittines eftir að barnið fæðist.“

Áttu þér uppáhaldsverslun?

„Ég var að uppgötva geggjað merki sem heitir Essential Antwerp sem ég er mjög hrifin af. Þar er boðið upp á litríkar og öðruvísi flíkur. Ég er líka hrifin af Dille&Kamille sem er algjör krúttbúð sem selur plöntur, potta, viðarleikföng, heimilisvörur og fleira skemmtilegt. Annars er mjög gaman að þræða göturnar í Sablon-hverfinu, þar leynast margar antikbúðir og flottar sérverslanir.“ 

Hvernig myndir þú eyða draumadeginum í borginni?

„Ég myndi rölta um Sablon og fá mér pönnukökur á Crème-kaffihúsinu. Svo héldi röltið áfram í Marolles-hverfið þar sem er skylda að koma við á Jeu de Balle-antikmarkaðnum. Marolles-hverfið er mjög lifandi og huggulegt hverfi og alls ekki mikið af túristum. Hádegisverðurinn yrði svo tekinn á Atelier-kaffihúsinu – þar eru í boði beyglur og huggulegt umhverfi.“

Hvað einkennir matargerðina á þínu svæði?

„Belginn eru ansi flinkur í matargerð. Allt frá frábærum kræklingi, tvídjúpsteiktum meinhollum frönskum yfir í dásamlegar vöfflur.“

Hvað kom á óvart við flutningana út?

„London og Brussel eru svakalega ólíkar borgir. Hin belgíska þjónustulund er oft alveg hlægilega léleg, sérstaklega þegar kona var orðin ansi vön breskri toppþjónustu. Það hjálpar alltaf að tala frönsku og blessunarlega er ég með BA í frönskum fræðum svo ég stend mig vel í frönskunni. Það sem kom mér einna mest á óvart var hversu rosalega lítið Sóley fór út að leika á leikskólanum. Á hverjum degi spurði íslenska móðirin hvort hún hefði farið út og þá heyrðust skrítnar ástæður eins og að það væri rakt úti eða vegna þess að það væri svo mikil vinna að klæða börnin í útifötin. Fyrir veðurbarinn Hafnfirðing er þetta ansi sérstakt en þetta er önnur menning.“

Hvað saknarðu helst frá Íslandi?

„Á daginn sakna ég sundlauganna og heitu pottanna og á kvöldin sakna ég Stjörnu-snakksins og Voga-ídýfunnar. Ég vildi líka gjarnan hafa fjölskyldu og vini nær mér.“

Hvað mælir þú með fyrir ungar konur að gera í Brussel?

„Að njóta þess að drekka góðan bjór og borða gómsætt súkkulaði. Um helgar eru stórskemmtilegar ókeypis drag-cabaret-sýningar á Cabaret Mademoiselle – það er æðislegt að fara og sjá sýningu og fá sér drykk. Eitt sem ég á eftir að gera er að fara í Tram Experience þar sem gestir sitja í sporvagni frá sjötta áratugnum og borða glæsilega rétti á meðan sporvagninn keyrir um Brussel.“ 

Hvað er gaman fyrir fjölskyldufólk að gera í Brussel?

„Það er tilvalið að kíkja í fallegu garðana í borginni, á söfnin og leikvellina. Við fjölskyldan förum oft í Parc Cinquantenaire, fáum okkur vöfflu og njótum lífsins. Brussel er mjög lifandi borg þannig að það er alltaf eitthvað um að vera. Um daginn fórum við sem dæmi í Comic Strip-skrúðgöngu undir forystu lúðrasveita þar sem við sáum meðal annars stórar uppblásnar Tinna- og Strumpafígúrur.“

View this post on Instagram

☀️Little Miss Sunshine☀️#2yearsold #birthdaygirl

A post shared by Margrét Björns (@margretbjorns) on Aug 13, 2018 at 7:11am PDT

Hvað ættu allir að kaupa í heimsókn til borgarinnar?

„Það er algjör skylda að kaupa belgískt súkkulaði í Brussel – uppáhaldstegundirnar mínar eru Neuhaus, Pierre Marcolini og Mary.“

Hvað ættu ferðamenn að varast?

„Ætli ég myndi ekki vara fólk við þjónustulundinni hér – best er að búast við lélegri þjónustu og verða frekar hissa ef maður fær góða þjónustu.“

Hvað er eftirsóknavert í Brussel?

„Á þessu rúma ári sem ég hef búið í Brussel hef ég svo sannarlega komist að því að borgin leynir á sér. Í borginni eru margar alþjóðastofnanir og íbúar sem koma hvaðanæva úr heiminum og er hún þar af leiðandi afar fjölbreytileg og býður upp á litríkan menningarkokteil.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert