Aprílgabb göngufólks varð að sið

Hvað segir húfan þín um hjúskaparstöðu þína?
Hvað segir húfan þín um hjúskaparstöðu þína? mbl.is/Colourbox.dk

Á vef norska ferðafélagsins, Den Norske Turistforening, má finna forvitnilegar upplýsingar um hvernig einhleypt fólk í Noregi gefur merki um að það sé á lausu. Einhleypir göngugarpar ganga um með grænar húfur en siðurinn byrjaði sem aprílgabb. 

Siðurinn byrjaði 1. apríl 2014 þegar ferðafélagið birti í gríni grein um nýja reglu á fjöllum. Greinin fór á Facebook og hefur ekkert hjá ferðafélaginu vakið jafnmikla lukku á samfélagsmiðlinum. Margrethe Assev hjá ferðafélaginu segir á vef ferðafélagsins að fólki hafi fundist þetta góð hugmynd og úr því varð að aprílgabb varð að sið. 

Á vef ferðafélagsins er því haldið fram að félagið hafi lengi átt þátt í því að hjálpa fólki að finna ástina. Í dag býður ferðafélagið meðal annars upp á stefnumótasíðu fyrir göngufólk. Þar getur útivistarfólk fundið göngufélaga og mögulega ástina á sama tíma. Einnig hefur verið boðið upp á sérstakar göngur fyrir einhleypt fólk í meira en 30 ár. Hafa fjölmargir fundið ástina í ferðum félagsins og að lokum gift sig og eignast börn. 

Það er ekki endilega verra að reyna að finna maka á fjalli en á barnum. Norskur sálfræðingur segir það geta verið erfitt að vita hver er á lausu og hver ekki og þá sé alveg eins gott að merkja sig með því að klæðast grænu. 

Grænu húfurnar hafa reynst vel í Noregi og því um að gera fyrir einhleypt fólk á Íslandi að skella sér í næsta göngu með græna húfu. Að minnsta kosti ef fólk hefur áhuga á að verða ástfangið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert