Áhrifavaldar gagnrýndir fyrir ferðalög í Sádi-Arabíu

Áhrifavaldurinn Mick Salas ferðaðist frítt til Sádi-Arabíu.
Áhrifavaldurinn Mick Salas ferðaðist frítt til Sádi-Arabíu. Skjáskot/Instagram

Þó nokkrir áhrifavaldar hvaðanæva úr heiminum hafa verið gagnrýndir á netinu fyrir að fara í boðsferðir til Sádi-Arabíu. 

Ferðamálaráð landsins, Gateway KSA, hefur á síðustu vikum gefið nokkrum áhrifavöldum ferðir um ferðamannastaði landsins í sömu andrá og ríkið býr sig undir að fjölga vegabréfsáritunum inn í landið. Sádi-Arabía tilkynnti um miðjan september að ríkið ætlaði að opna dyr sínar fyrir ferðamönnum frá 49 ríkjum, í tilraun til að skapa fjölbreytileika í viðskiptum og minnka mikilvægi olíuframleiðslunnar.

Í kjölfar tilkynningarinnar byrjuðu ferða-áhrifavaldar að birta myndir af sér í Riyadh og á ýmsum fallegum stöðum í landinu. Áhrifavaldurinn Lana Rose, sem býr í Dúbaí sagði fylgjendum sínum að henni hefði fundist ferð sín til Sádi-Arabíu vera eins og að stíga inn í Disney-myndina Aladdín. Margar færslurnar voru merktar myllumerkinu #ad og @visitsaudi.

Fylgjendum áhrifavaldanna ofbauð mörgum hverjum jákvæða ljósið sem landið var sýnt í á samfélagsmiðlum, sérstaklega í ljósi morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi. „Hefurðu flett upp hversu margir voru afhausaðir árið 2019 í Sádi?“ skrifaði einn fylgjandi áhrifavaldsins Mick Salas. Á einum degi í apríl fyrr á þessu ári tóku stjórnvöld í Sádi-Arabíu 37 manns af lífi. 

Í athugasemd við færslu ferðaáhrifavaldsins Lyss skrifaði einn fylgjandi „Já, gleymum bara misréttinu sem konur eru beittar, skorti á mannréttindum og spillingu. Svo lengi sem það eru fallegir ferðamannastaðir þarna, þá skiptir það ekki máli er það nokkuð?“

Nokkrir af þeim áhrifavöldum sem tekið hafa þátt í herferðinni hafa eytt neikvæðum athugasemdum sem skrifaðar hafa verið við myndirnar þeirra og sumir jafnvel lokað á þá sem skrifa athugasemdirnar. 

Áhrifavaldar sem ekki hafa tekið þátt í herferðinni fyrir Sádi-Arabíu hafa gagnrýnt þá sem birta myndir þaðan. Ferðaáhrifavaldurinn Dianelle Rivers-Mitchell segir áhrifavalda þurfa að læra um staðina sem þeir eru beðnir um að ferðast til án endurgjalds. „Ég hef setið á fundum með ferðamálaráðum víða um heim sem hafa boðið gull og græna skóga fyrir að ferðast til lands þeirra. Ég hef gengið út af nokkrum fundum vegna þeirra mannréttindabrota sem ríkið fremur, það er ekki þess virði að ferðast þangað,“ sagði hún í viðtali við New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert