Reykjavík ein af 9 borgum með geggjað kaffi

Kaffið á Íslandi er með því besta í heimi.
Kaffið á Íslandi er með því besta í heimi. mbl.is/Styrmir Kári

Það getur verið erfitt að finna gott kaffi á ferðalögum en í sumum borgum er hægt að finna frábæra kaffimenningu. Á ferðavef CNN eru taldar upp níu borgir sem þykja skara fram úr þegar kaffi er annars vegar. Reykjavík er í hópi þessara borga. 

Um kaffimenninguna á Íslandi segir að minni kaffihús blómstri í höfuðborginni. Kaffitár er nefnt á nafn sem það sem kemst næst því að vera kaffihúsakeðja. 

Hér eru hinar borgirnar sem einnig má finna góð kaffihús í:

Melbourne, Ástralíu. Kaffimenningin er rótgróin í Melbourne. Í mörgum borgum er hægt að fara í matargöngur en í Melbourne er einnig boðið upp á sérstakar göngur tileinkaðar kaffimenningu. 

Róm, Ítalíu. Talað er um að Rómarbúar hafi neitað að nýta sér nýja tækni þegar kemur að kaffimenningu. Samt sem áður er talað um að besta kaffið á Ítalíu sé í Róm. 

Singapore. Eitt af einkennismerkjum kaffimenningarinnar í Singapore eru fallega gerðir latte-kaffibollar. 

Kaffihús í VÍnarborg.
Kaffihús í VÍnarborg. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vín, Austurríki. Hefðbundin Vínarkaffihús komust á lista UNESCO árið 2011. Þrátt fyrir það eru espressókaffihús að sækja í sig veðrið. 

London, Englandi. Bretar eru þekktir fyrir tedrykkju en þó má finna ágætiskaffihús í stórborginni sem leggja áherslu á espressó. 

Wellington, Nýja-Sjálandi. Heimamenn vilja meina að kaffidrykkurinn „flat white“ hafi verið fullkomnaður í höfuðborg Nýja-Sjálands. 

Kaffigerð getur verið mikil listgrein.
Kaffigerð getur verið mikil listgrein. mbl.is/Ómar Óskarsson

Seattle, Bandaríkjunum. Það er mikil kaffimenning í Seattle en keðjukaffihúsamenningin varð til í borginni. Keðjukaffihús eru þó bara hluti af kaffihúsamenningunni í Seattle.

Hanoi, Víetnam. Mælt er með uppáhellingu Víetnama. Annaðhvort svart eða með sætri mjólk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert