Ragnhildur býr beint á móti Warner Bros

Ragnhildur er hrifin af fjölbreytileika Los Angeles og mælir með …
Ragnhildur er hrifin af fjölbreytileika Los Angeles og mælir með borginni fyrir alla. Ljósmynd/Aðsend

Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson, fyrrum dagskrárgerðarkona, hefur búið í Los Angeles í tæpan áratug. Hún býr beint á móti Warner Bros kvikmyndaverinu og segir að allir ættu að finna eitthvað áhugavert að gera í heimsókn til borgarinnar. 

Ragnhildur stýrir teymi sem leitar að nemendum í  ArtCenter College of Design ásamt því að sinna verkefnum í kvikmyndaframleiðslu og ráðgjöf á því sviði. Þó hún hafi sótt alla menntun sína og alist upp frá níu ára aldri í Bandaríkjunum þá ber hún sterkar taugar til Íslands ennþá.

Hvað ertu að fást við núna?

„Móðurhlutverkið er helst á dagskrá alla daga. Ég er í fullu starfi og tek að mér eitt og eitt framleiðsluverkefni aukalega. Síðan nýt ég þess að ganga á fjöll hér í suður Kaliforníu og svo er ég að stunda lyftingar í ræktinni.“ 

Hvernig er heimilislífið?

„Heimilislífið snýst um okkur mæðgurnar. Dóttir mín heitir Stella Lúna og er fimm ára. Hún stjórnar heimilinu að vissu leyti. Stella er orkubolti og eldhress þannig að við erum oftast úti í sundlaug, eitthvað á ferðinni, að teikna, mála, eða lesa saman. Við erum svona röð og reglu píur. Vöknum eldsnemma til að koma Stellu í skólann sem hún var að byrja í.“

Móðurhlutverkið á hug Ragnildar allan þessa dagana.
Móðurhlutverkið á hug Ragnildar allan þessa dagana. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er skemmtilegast að gera í borginni þinni?

„Það er frekar erfitt að velja. Los Angeles er mikil listaborg. Hér eru söfn víða, mikil framleiðsla, tónlist og viðburðir sem áhugavert er að sækja. Eins er mikið að gerast á sviði heilsu og íþrótta í borginni. 

Náttúran hér allt í kring er stórbrotin. Hæðirnar fallegar, strendur og garðar einnig. Los Angeles er stórborg, þannig að umhverfið er fjölbreytt og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi hér.“ 

Áttu þér uppáhaldsveitingahús?

„Ég er mikil „búllu“ manneskja og hef alltaf verið hrifin af amerískum „diners“. Ég mæli með Swinger´s sem er skemmtilegur gamaldags staður með góðum mexíkóskum mat og steikurnar á staðnum er góðar. Góður mexíkóskur matur er fáanlegur víða um borgina.“

Áttu þér uppáhaldsverslun?

„Ég er hrifin af plötubúðum. Fatbeats plötubúðin í Los Angeles er klassísk vínylbúð sem vekur upp gamlar minningar, kannski því að pabbi minn heitinn var plötusnúður og bróðir minn er það líka og við ólumst upp við vínyl. Zamba er einnig skemmtileg búð sem selur húsgögn, lampa, skart og ýmislegt smádót fyrir Stellu. Svolítil „kitch“ búð sem við kunnum að meta.“

Hvernig mynd­ir þú eyða drauma­deg­in­um í borg­inni?

„Ég myndi gera eitthvað skemmtilegt með Stellu. Til dæmis fara í litla fjallgöngu, bjóða okkur upp á amerískan morgunverð og finna góðan garð að vera í. Ef ég væri í borginni með vinkonum mínum þá myndi ég mæla með að fara á tónleika eða íþróttaviðburð á borð við NBA svo dæmi sé tekið. Síðan mæli ég með að skoða uppistand, sem mér finnst alltaf skemmtilegt að horfa á í þessari borg.“

Ragnhildur mælir með að fólk fari á NBA leiki í …
Ragnhildur mælir með að fólk fari á NBA leiki í Los Angeles. Ljósmynd/Aðsend

Hvað ein­kenn­ir mat­ar­gerðina á þínu svæði?

„Los Angeles býður upp á mikla fjölbreytni þegar kemur að matargerð. En það er mikil hefð hér fyrir mexíkóskum mat og hefðbundnum amerískum veitingum. Eins mæli ég með víetnamskri matagerð hér.“ 

Hvað kom á óvart við flutn­ing­ana út á sínum tíma?

„Ég er alin upp í þessari borg, svo þannig séð var lítið sem kom mér raunverulega á óvart. Ég þekkti menninguna áður en ég flutti út. Menningin hér er öðruvísi en á Íslandi, einnig samfélagsgerðin. Samspil einstaklingsins við samfélagið og þess háttar. Þetta myndar stundum togstreitu, en ég er íhaldssöm en samt með viss skandínavísk viðhorf til samfélagsins.“ 

Ragnhildur er með meistaragráðu í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu. Hún hefur …
Ragnhildur er með meistaragráðu í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu. Hún hefur starfað innan þeirrar greinar í árabil en stýrir nú teymi sem finnur hæfileikaríka nemendur fyrir listaháskóla í borginni. Ljósmynd/Aðsend

Hvers sakn­arðu helst frá Íslandi?

„Ég sakna náttúrunnar, fjölskyldunnar og vinkvenna minna. Eins sakna ég Stykkishólms.“

Hvað mæl­ir þú með fyr­ir ung­ar kon­ur að gera í borginni þinni?

„Það fer eftir því hvort þær vilja „djamma“ í borginni eða hugleiða, sem er eiginlega bara hin hliðin af sama peningnum að mínu mati. En hér er allt til alls. Alltaf hægt að finna eitthvað skemmtilegt að gera. Ferð á ströndina svíkur engan. Hér er nóg til af líflegum veitingastöðum og endalaust af viðburðum, svo sem tónleikum svo eitthvað sé nefnt.“ 

Hvað er gam­an fyr­ir fjöl­skyldu­fólk að gera í borginni?

„Universal kvikmyndverið er í næstu götu við mig. Hér eru garðar víða, strönd, dýragarður og íþróttaviðburðir svo eitthvað sé nefnt. Það er einnig mikið af svokölluðum úthverfum eins og þar sem við Stella erum og það er mikið fjölskyldulíf.“ 

Hvað ættu all­ir að kaupa í heim­sókn til borg­ar­inn­ar?

„Sólarvörn og vatn að mínu mati.“

Hvað ættu ferðamenn að var­ast?

„Umferðina. Að sem á að vera 20 mínútur í bíl, getur tekið tvo klukkutíma á röngum tíma dagsins.“

Hvað er eftirsóknarvert í við staðinn sem þú býrð á?

„Veðrið, listalífið og fjölbreytileiki. Svo á ég besta herbergis og heimilisfélaga í veröldinni, hana Stellu.“

Stella Lúna dóttir Ragnhildar er fimm ára stúlka sem gerir …
Stella Lúna dóttir Ragnhildar er fimm ára stúlka sem gerir falleg listaverk. Ljósmynd/Aðsend
Ragnhildur mælir með því að fara á ströndina.
Ragnhildur mælir með því að fara á ströndina. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is