Fetaðu í fótspor Svals og Vals í Brussel

Teiknimyndasöguskrúðgangan í Brussel.
Teiknimyndasöguskrúðgangan í Brussel. Ljósmynd/Aðsend

Teiknimyndasögur eru ekki síður belgískar en bjórinn og súkkulaðið sem landið er svo vel þekkt fyrir, enda eigum við öll Belgíu að þakka meðal annars Strumpana, Lukku-Láka sem ávallt skartar belgísku fánalitunum, Sval og Val, að ógleymdum einum af frægustu vinum Akureyrar, honum Tinna.

Veggmyndin er úr bókinni Leynivopnið sem kom út árið 1956.
Veggmyndin er úr bókinni Leynivopnið sem kom út árið 1956. Ljósmynd/Aðsend

Belgískar teiknimyndasögur eru sérstakur flokkur innan teiknimyndasöguhefðarinnar og því stór hluti af menningu Belga. Frá Belgíu koma yfir 700 teiknimyndasöguhöfundar, eða flestir höfundar á ferkílómetra í heiminum. Já, við Íslendingar miðum kannski við höfðatölu en Belgar miða við ferkílómetra. Teiknimyndasöguunnendur allir ættu að sjálfsögðu að leggja leið sína til Brussel þar sem hægt er að fara í sérstakar teiknimyndasögugöngur með leiðsögn, heimsækja teiknimyndasögusöfn og gleyma sér í safnarabúðum.

Úr bókinni Dularfulla stjarnan þar sem Tinni og Kolbeinn kafteinn …
Úr bókinni Dularfulla stjarnan þar sem Tinni og Kolbeinn kafteinn komu til Akureyrar. Ljósmynd/Aðsend
Blondin og Cirage, teiknimyndasaga sem gefin var út á árunum …
Blondin og Cirage, teiknimyndasaga sem gefin var út á árunum 1939-1963. Ljósmynd/Aðsend

En af hverju lifa teiknimyndasögur svona góðu lífi í Belgíu? Ein kenningin er sú að þar sem Belgar skiptast í tvo ólíka tungumálahópa, frönsku- og flæmskumælandi, sé teiknimyndasöguformið góð leið til að miðla sögum án þess að tungumálið sé fyrirstaða. Myndræn miðlun er einfaldlega heppilegri og auðveldari. Teiknimyndasögur komu upphaflega frá New York um aldamótin 1900, þar sem fjölmargir innflytjendur bjuggu og töluðu litla ensku, en margir gátu þó lesið einfaldan texta og stuðst við myndir.

Teiknimyndasöguskrúðgangan í Brussel.
Teiknimyndasöguskrúðgangan í Brussel. Ljósmynd/Aðsend

Í Brussel eru yfir 60 litrík og lífleg vegglistaverk með þekktum belgískum teiknimyndasögupersónum en í upphafi tíunda áratugarins gerði borgin átak í að lífga upp á ljóta og leiðinlega húsgafla í borginni með þessum stórskemmtilega árangri. Teiknimyndasöguganga er öðruvísi og skemmtileg leið til að upplifa borgina hvort sem þú ert með Tinna húðflúraðan á brjóstkassann eða tókst eina bók um Sval og Val á bókasafninu sem krakki einhvern tímann á síðustu öld.

Safnið samanstendur af teiknimyndafígúrum í öllum stærðum og gerðum, eins …
Safnið samanstendur af teiknimyndafígúrum í öllum stærðum og gerðum, eins konar strumpapáskaeggjasafn á sterum. Fígúrurnar eru allt frá því að vera belgískar yfir í Manga og amerískar ofurhetjur. Ljósmynd/Aðsend

Teiknimyndaskrúðgangan er stóra áramótasprengjan en hún fer fram í september ár hvert. Skrúðgangan er lokaviðburður vikulangrar teiknimyndahátíðar í Brussel fyrir leikmenn og lærða. Þessi stórskemmtilega og skrautlega skrúðganga með risavöxnum uppblásnum teiknimyndapersónum hlykkjast um borgina við mikinn fögnuð almennings. Ef þú sérð fyrir þér núna hina frægu þakkargjörðarskrúðgöngu Macy's í New York ertu nokkuð nærri lagi.

Snemma morguns byrja yfir 200 sjálfboðaliðar að fylla risavaxnar blöðrurnar og hægt og rólega rétta fígúrurnar úr sér eins og háskólanemar daginn eftir vísindaferð. Uppblásturinn er ekki síður skemmtilegur og vinsæll liður í skrúðgöngunni, en hann stendur yfir í fimm æsispennandi klukkustundir. Þegar allir karakterarnir eru loks orðnir vel belgingslegir hefst skrúðgangan með pompi og prakt.

Þess má geta að Stella býður upp á leiðsögu­ferðir um borg­ina á ís­lensku, sænsku og ensku. Einnig má fylgj­ast með Stellu á In­sta­gram-síðu henn­ar.

Marc Sleen-safnið er tileinkað þessum eina höfundi en hann er …
Marc Sleen-safnið er tileinkað þessum eina höfundi en hann er talinn vera faðir flæmsku teiknimyndahefðarinnar sem einkennist af mikilli háðsádeilu og skopskyni. Ljósmynd/Aðsend
Teiknimyndasögusafnið (Comic Strip Museum) er alfarið tileinkað belgískum teiknimyndum og …
Teiknimyndasögusafnið (Comic Strip Museum) er alfarið tileinkað belgískum teiknimyndum og býður upp á bókasafn með lesherbergi þar sem hægt er að sitja og lesa bækurnar. Ekki skemmir byggingin fyrir upplifuninni en húsið var teiknað af Victor Horta, frægum belgískum art nouveau-arkitekt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert