Fékk ferðabakteríuna seint og er nú óstöðvandi

Gyða Dröfn hefur ferðast vítt og breitt en segist eiga …
Gyða Dröfn hefur ferðast vítt og breitt en segist eiga marga áfangastaði eftir. Ljósmynd/Aðsend

Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir er 27 ára Akureyringur búsett í Garðabæ. Hún er vörumerkjastjóri hjá Danól og opnaði á dögunum barnaleikfanganetverslunina Valhneta.is ásamt Þórunni Ívarsdóttur. Hún hefur verið dugleg að ferðast og deila ferðasögum sínum inni á bloggsíðunni sinni og Instagram.

„Ég fékk ferðabakteríuna frekar seint ef svo má að orði komast. Ég ferðaðist ekki mikið erlendis sem barn eða unglingur, en seinustu ár er hef ég verið haldin óslökkvandi ferðaþrá! Ég hef ferðast mjög mikið í Bandaríkjunum og er svo nýkomin heim úr ferðalagi um SA-Asíu. Ég hef einnig ferðast töluvert um Evrópu en á mikið af spennandi stöðum inni þar,“ segir Gyða.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið?

„Þau eru orðin ansi mörg! En eitt af þeim eftirminnilegri er þegar ég ferðaðist ásamt Þórunni vinkonu minni til Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Tilgangurinn með ferðinni var að heimsækja Amish-þorp í New Wilmington rétt fyrir utan Pittsburgh. Það var ótrúleg upplifun, en við fengum að kynnast daglegu lífi og lifnaðarháttum Amish-fólks. Þetta er samfélag sem er svo ótrúlega ólíkt því sem við þekkjum og eigum að venjast, en mér finnst svo áhugavert að læra um mismunandi lifnaðarhætti fólks í gegnum ferðalög. Ég get mælt með við alla að fara í svona ferð, en ég bæði lærði mikið og fékk nýja sýn á ýmsa þætti daglegs lífs.

Það var líka mjög eftirminnilegt að skoða göngin sem notuð voru í Víetnamstríðinu rétt fyrir utan Ho Chi Minh city í Víetnam. Göngin voru afskaplega þröng, og flestir myndu sennilega fá mikla innilokunarkennd þar inni. En ofan í þessum göngum bjó fólk í fjölda ára meðan á stríðinu stóð, og sinnti öllu daglegu lífi þar inni. Hvort sem það var að elda mat, fæða börn eða sauma föt þá varð það allt að gerast ofan í göngunum. Göngin voru bókstaflega það þröng að maður þurfti að skríða til að komast í gegnum þau, og það er hreinlega ótrúlegt að reyna að gera sér í hugarlund hvernig fólk fór að því að búa þarna.“

Ljósmynd/Aðsend

Hver er uppáhaldsborg þín í Evrópu?

„Ég hugsa að annaðhvort Barcelona eða Róm verði fyrir valinu! Ég hef farið nokkuð oft til Barcelona og finnst það alltaf jafn skemmtilegt. Þar er nóg af menningu og arkítektúr til að skoða, og dásamleg kaffihús og tapas-staðir til að eyða deginum á. Ég eyddi seinustu áramótum í Róm og það var geggjuð upplifun. Borgin er auðvitað stórfengleg, svolítið eins og að vera stödd á listasafni því hvert sem maður horfir er hægt að koma auga á nýtt listaverk. Og svo ég minnist nú ekki á matinn.“

En utan Evrópu?

„Þessi er mjög erfið! Af amerískum borgum eru New York, Chicago og Miami í mestu uppáhaldi. Það er auðvitað engin borg eins og New York, en ég held maður gæti farið þangað í hverjum mánuði og alltaf uppgötvað eitthvað nýtt. Chicago heillaði mig líka alveg upp úr skónum, en þar er svo ótrúlega margt fallegt að sjá og andrúmsloftið í borginni er einstaklega þægilegt. Miami á svo alltaf sérstakan stað í hjarta mínu, en þangað finnst mér langbest að fara til að slappa af. 

Ég verð líka að fá að nefna Hoi An í Víetnam og Singapore. Hoi An er algjörlega dásamleg, en gamli bærinn þar er eitthvað sem allir þurfa að upplifa einhvern tímann! Hann er á heimsminjaskrá Unesco og er sérstaklega vel varðveittur og fallegur. Hann er einungis þrjár götur, en á þessum þrem götum gæti ég eytt mörgum dögum í að skoða og borða! Ég var svo mjög hrifin af Singapore, en hún er mjög nútímaleg og flott. Það er ótrúlega gaman að heimsækja öll mismunandi hverfin þar, og svo eru byggingarnar og garðarnir eins og eitthvað úr framtíðinni.“

Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Mývatn og svæðið þar í kring. Amma mín og afi eiga heima í Reykjahlíð og ég eyddi miklum tíma þar þegar ég var yngri. Mér finnst þetta allra fallegasti staður á landinu, og það er svo mikið af földum perlum þar. Það er sérstaklega fallegt á veturna, en það getur orðið mjög kalt og umhverfið breytist í sannkallaða vetrarparadís.“

Besti maturinn á ferðalagi?

„Ég er mikið fyrir að borða góðan mat þegar ég ferðast og er oftast búin að leita uppi staði fyrir ferðalagið til að fara svo á í ferðinni. Það sem ég leita yfirleitt alltaf uppi í öllum borgum sem ég ferðast til eru ekta indverskir staðir. Þeir bestu eru yfirleitt pínulitlir og reknir af fjölskyldum, og maturinn himneskur! Ég er grænmetisæta og mér finnst indverskir grænmetisréttir það allra besta. Ég panta mér alltaf grænmetis korma og hvítlauks naan-brauð, og ég get eiginlega ekki talið í hversu mörgum löndum ég hef borðað nákvæmlega þann rétt. Mér finnst asískur matur yfir höfuð mjög góður og ég borðaði til dæmis óhóflega mikið af curry í Taílandi, ég held í alvöru að ég hafi borðað tvo curry hvern einasta dag. Þar eru massaman og panang curry í mestu uppáhaldi. 

Svo verð ég auðvitað líka að nefna matinn á ítalíu, og þá sérstaklega pasta. Helst trufflu gnocci - það er réttur sem ég gæti borðað á hverjum degi.  Mér finnst ítalskur matur mjög góður, eins og líklega flestum, en það jafnast ekkert á við að borða hann á Ítalíu.“

Ljósmynd/Aðsend

Mesta menningarsjokkið?

„Það var ákveðið menningarsjokk þegar ég fór í fyrsta skipti til Asíu, en það var ferðalag til Tel Aviv í Ísrael. Menningin í Mið-Austurlöndum er svo ótrúlega ólík því sem við eigum að venjast, og umhverfið allt öðruvísi. Ég hafði líka aldrei upplifað jafn mikinn hita og ég gerði þar. En ég held samt að allra mesta menningarsjokkið hafi verið í heimsókn til Hanoi í Víetnam. Víetnam er oft nefnt „land of motorbikes“, en þar ferðast nánast allir um á vespum. Að stíga út í umferðina þar var mjög mikið sjokk því bæði er gríðarlegur fjöldi af vespum á götunum, og nánast enginn fer eftir þeim fáu umferðarljósum sem eru í umferð. Það eru bókstaflega vespur að keyra alls staðar, í allar áttir, og eftir engum sérstökum reglum að manni finnst sem utanaðkomandi. Til að komast yfir götuna þarf maður bara að láta vaða og æða yfir, og passa sig að hika ekki. Það er hægara sagt en gert get ég sagt ykkur! Fyrir utan allt þetta kaos eru oft 3-5 manns á hverri vespu, og jafnvel með heila búslóð á vespunum líka. Fæstir eru með hjálm, hvort sem það eru fullorðnir eða smábörn, og fyrir okkur virðist þetta auðvita bara stórhættulegt. Það er samt ótrúlegt hvað þetta gekk í raun vel fyrir sig, og hversu fátíð slysin eru miðað við þetta óskipulag.“

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?

„Nei í raun og veru ekki. Ég hef verið mjög heppin með allt slíkt. Auðvitað hefur maður stundum ratað inn í skuggaleg hverfi hér og þar í heiminum, en blessunarlega aldrei lent í neinu þrátt fyrir það.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það fyndnasta sem þú hefur lent í á ferðalagi?

„Ég held ég verði að nefna þegar ég lenti í apa „árás“ á Balí. Ég lenti reyndar í fleiri en einni. En í fyrsta skiptið var ég stödd í Monkey Forest í Ubud, en þar er allt fullt af öpum sem ganga lausir um skóginn. Það var búið að vara okkur við að vera ekki með bakpoka eða lausa muni á okkur, sem við vorum ekki með. En allt í einu stekkur einn apinn á mig, og klifrar upp á höfuðið á mér. Næst byrjar hann að reyna að ná í eitthvað uppi í mér, en ég fattaði síðar að hann hefur komið auga á spangirnar mínar og haldið að þær væru glingur sem hann gæti tekið. Hann reyndi að spenna munninn á mér upp með puttunum sínum, og ég klemmdi hann eins fast saman og ég gat. Þegar hann náði ekki að opna á mér munninn færði hann sig yfir í hárspöngina sem ég var með á hausnum. Þegar ég ætlaði að stöðva það að hann myndi stela henni af mér reyndi hann að bíta mig, og þá varð ég frekar hrædd. Enda eru þeir með mjög beittar tennur og geta borið með sér sjúkdóma. Það endaði svo að hann náði að stela hárspönginni af mér og fór hæstánægður með hana í burtu. Allt atvikið náðist á filmu þar sem tour guide-inn sem fór með okkur í skóginn var akkúrat með símann minn til að taka myndir. Eftir á var þetta mjög fyndið því það sést mjög vel á svipnum á mér hvernig gamanið fer að kárna eftir að hann reynir að bíta mig.“

View this post on Instagram

Balí draumar🌾

A post shared by Gyða Dröfn (@gydadrofn) on Sep 26, 2019 at 12:16pm PDT

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Rakasprey, augndropar og kósý sokkar! Svo að sjálfsögðu heyrnartól, hárteygja, hálskoddi og einhver afþreying eins og góð bók eða bíómynd. Mér finnst flug mjög notaleg, og ég reyni alltaf að koma mér sem allra best fyrir og nýta þau til að slappa af. Ég er svo heppin að „passa“ ágætlega í flugvélar, en ég er lágvaxin og hef því alltaf nóg pláss. Mér finnst notalegast þegar það er smá ókyrrð, þá sef ég best. Ég fer alltaf í sem þægilegustu fötum, og alltaf í inniskóm eða svoleiðis skóm, aldrei lokuðum. Þar sem loftið í flugvélum er mjög þurrt finnst mér ómissandi að vera með rakasprey til að fríska upp á andlitið meðan á fluginu stendur og þar sem ég þorna líka oft í augunum eru augndropar algjör „life-saver“. Svo finnst mér best að fara úr skónum og í þægilega sokka, svo þeir eru nauðsynlegir líka.“ 

Hvað er besta ferðaráðið sem þú getur gefið?

„Fyrst og fremst að láta verða af því að ferðast og ferðast á nýja staði. Það er auðvelt að festast í því að ferðast oft á sömu staðina en það er svo ótrúlega þroskandi og skemmtilegt að koma á nýja staði. Uppáhaldsferðamottóið mitt er: „Travel. Because money returns but time doesn’t“. Það finnst mér svo rétt því að peningar geta alltaf komið aftur, en tíminn fer því miður bara í eina átt. Eitt af því sem hefur þroskað mig mest sem manneskju er að ferðast og upplifa nýja hluti, og læra um hvernig fólk lifir annars staðar í heiminum. 

Annað sem mér finnst mikilvægt er að vera auðmjúkur og sýna virðingu fyrir fólkinu og stöðunum sem maður ferðast á. Þegar maður heimsækir önnur lönd er maður gestur í því landi, og það er svo mikilvægt að sýna fólkinu sem býr þar og þeirra menningu virðingu. Þannig fær maður oft tækifæri til að skyggnast inn í þeirra daglega líf og læra meira um þeirra menningu. Eitt annað ráð sem ég get gefið er einmitt að reyna að hafa sem mest samskipti við heimamenn, því þannig fær maður raunverulegustu reynsluna af landinu, og líka bestu ráðin hvað varðar staði til að heimsækja eða veitingastaði.

Á praktískari nótum þá eyði ég miklum tíma í að rannsaka þá staði sem ég fer á, og reyna að átta mig á hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Að því sögðu þá er ágætt að plana ekki of mikið fyrir fram því oft er bara auðveldara finna út úr hlutunum þegar maður er kominn á staðinn. Við lærðum til dæmis í seinasta ferðalagi okkar um SA-Asíu að samgöngum á milli staða innan landa er mun auðveldara að finna út úr á staðnum, og maður þarf ekki að vera búin að skipuleggja allt nákvæmlega fyrir fram. En það er ágætt að vera með einhverja hugmynd um hvernig maður ætlar að ferðast á milli staða og hvenær, en vera opin fyrir því að það geti breyst.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is