Heimurinn ekki eins óhugnanlegur og í fréttum

Ragnheiður Kristín í ævintýralegu landslagi í Wadi Rum í Jórdaníu.
Ragnheiður Kristín í ævintýralegu landslagi í Wadi Rum í Jórdaníu. Ljósmynd/Aðsend

Ragnheiður Kristín Finnbogadóttir lögfræðingur er með ferðabakteríu á háu stigi. Ragnheiður Kristín var skiptinemi á menntaskólaárunum í Japan en var í Ísrael þegar blaðamaður mbl.is náði í hana til að forvitnast um ævintýraleg ferðalög hennar.  

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Ég held ég verði að nefna fyrstu utanlandsferðina sem var heldur óvenjuleg. Þegar ég var sjö ára fór ég með foreldrum mínum til Kúbu sem var ævintýri líkast. Ég held að það að fyrsta utanlandsferðin hafi verið svona framandi hafi átt sinn þátt í að kveikja í ferðabakteríunni sem hefur fylgt mér síðan,“ segir Ragnheiður Kristín. 

Í Guanabo á Kúbu en Ragnheiður fór fyrst til Kúbu …
Í Guanabo á Kúbu en Ragnheiður fór fyrst til Kúbu aðeins sjö ára gömul. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„París. Ég hef komið þangað fimm sinnum en það er alltaf eitthvað nýtt til að uppgötva og skoða. Þar eru auðvitað þessi helstu kennileiti, Sacré Coeur, Notre-Dame, Sigurboginn, Louvre-safnið og fleira en borgin hefur upp á svo margt annað að bjóða. Það er oft gaman bara að týnast inni í einhverju hverfi sem maður hefur ekki skoðað áður til að uppgötva eitthvað nýtt, hvort sem það er veitingastaður, almenningsgarður, list eða annað. Svo eru mörg skemmtileg hverfi aðeins utan við miðbæinn þar sem margir menningarheimar blandast saman við þann franska. Þar að auki skemmir ekki fyrir að góður matur, ostar og vín eru á hverju strái.“

Ragnheiður Kristín er hrifin af París.
Ragnheiður Kristín er hrifin af París. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Vestfirðir. Báðir foreldrar mínir ólust upp þar svo þar er ákveðin tenging en einnig er þar mikil náttúrufegurð, lítið af öðrum ferðamönnum og maður upplifir oft svolítið eins og maður sé einn í heiminum með náttúrunni sem er mjög góð jarðtenging.“

Besti maturinn á ferðalagi?

„Það er svo mikið til af góðum mat út um allt. Mig langar helst að nefna japanska matargerð, en ég var í skiptinámi í Japan í eitt ár í gegnum AFS-samtökin þar sem ég bjó hjá japanskri fjölskyldu. Japanskur matur er svo miklu meira en bara sushi. Það eru líka meðal annars alls konar núðluréttir, ýmist í súpum eða steiktar. Eitt sem var í uppáhaldi hjá mér og er algert sælgæti er réttur sem heitir yakiniku sem þýðir einfaldlega steikt kjöt en oftast er um að ræða lungamjúka bita sem hafa verið skornir í litla strimla. Ef maður fer á yakiniku veitingastað þá er sérstök rafmagnshella á miðju borðinu þar sem þú situr til að geta steikt kjötið sjálfur og með því er hægt að stjórna hvort maður vilji mikið eða lítið steikt.

Annar uppáhaldsréttur var okonomiyaki, sem er svolítið erfitt að þýða en „steikt uppáhald“ kemst kannski næst því. Réttinum svipar svolítið til pönnuköku, en uppistaðan er egg og hveiti. Síðan er hægt að velja hvað sem manni langar í til setja inn í kökuna og þaðan kemur nafnið, þ.e. maður velur sín uppáhaldshráefni. Á hefðbundnum stöðum sem bjóða upp á þennan rétt situr maður við e.k. barborð á háum stól og fylgist með kokkinum steikja kökuna fyrir framan mann, sem er mjög áhugavert.“

Ragnheiður Kristín var skiptinemi í Japan.
Ragnheiður Kristín var skiptinemi í Japan. Ljósmynd/Aðsend

Mesta menningarsjokkið?

„Það var einnig í Japan, en fyrirbærið er þó ekki sérjapanskt. Þar notast fólk enn í dag við klósett sem eru eiginlega bara hola í gólfinu. Í Japan er þó búið að nútímavæða þau á þann hátt að hægt er að sturta niður til dæmis og „skálin“ er úr svona hefðbundnu postulíni eins og önnur „venjuleg“ klósett. Það tók smá tíma að venjast þessu, en ég verð að viðurkenna að í dag myndi ég frekar velja slík klósett ef það væri í boði þegar um almenningsklósett er að ræða. Japanir eru mjög þrifin þjóð og helsta ástæða þess að þessi klósett eru enn í notkun er að maður snertir ekki neina setu, og oft er hægt að sturta niður með því að ýta fætinum á þar til gerðan takka frekar en að nota fingurna. Í raun og veru stunda margar íslenskar konur þetta á djamminu á Íslandi, þ.e. að standa aðeins yfir klósettinu, þannig að þetta er kannski ekki eins svakalega framandi og það hljómar í fyrstu.

Annað eftirminnilegt atvik var kofi sem ég gisti í á ferðalagi um Nicaragua. Kofinn var eiginlega vistkerfi út af fyrir sig með alls konar skorkvikindum út um allt, sem ég var ekki mjög spennt fyrir. Einn daginn hafði ég farið á klósettið og þegar ég skrúfaði frá vatninu í vaskinum skreið upp heljarinnar margfætla. Ég gafst upp á handþvottinum og ákvað að fara í sturtu en þá vildi ekki betur til en að stór grænn froskur hafði tekið sjampóið mitt traustataki með því að vefja öllum fjórum fótum utan um brúsann. Ég varð hálfsmeyk þar sem ég vissi ekki hvort hann var eitraður þannig að ég náði í starfsmann á svæðinu og fleiri komu með. Þau fóru svo bara að skellihlæja þegar þau sáu þetta og náðu að fjarlægja froskinn með því að pota varlega í hann með priki. Þannig að eftir á að hyggja var þetta bara frekar fyndið.“

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?

„Þannig séð ekki, það hefur kannski komið mér helst á óvart á flakki mínu um heiminn að heimurinn er ekki eins óhugnanlegur og hann kann að virðast í fréttum og fólk er almennt mjög hjálplegt. Það sem var kannski óhugnanlegast var að þegar ég var á Ometepe, sem er eldfjallaeyja í Nicaragua-vatni, varð oft rafmagnslaust. Ég hafði farið að borða kvöldmat ekki svo langt frá fyrrnefndum skordýrakofa, en samt kannski um það bil tíu mínútna labb. Eftir matinn kom þrumuveður og rafmagnið sló út þannig að ég þurfti að labba í kolniðamyrkri eftir malarstíg meðfram hálfgerðum frumskógi og reyna að finna leiðina til baka meðan öskurapar öskruðu sig hása óþægilega nálægt. Þeir eru ekki hættulegir og hljóma stærri en þeir eru, en þetta var samt ekki til að bæta stemninguna. Það var bókstaflega svo mikið myrkur að þegar ég lyfti hendinni fyrir framan andlitið á mér þá sá ég hana ekki. Á miðri leið var vörubíll sem bauðst til að setja á háu ljósin svo ég sæi um það bil hvert stígurinn lá. Mér stóð alls ekki á sama meðan á þessari göngu stóð, sérstaklega þar sem það kemur fyrir að túristar týnist í óbyggðum í Nicaragua, en þetta reddaðist allt saman á endanum.“

Ragnheiður Kristín í Ometepe í Nicaragua.
Ragnheiður Kristín í Ometepe í Nicaragua. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Eyrnatappar og heyrnartól. Jafnvel þótt ég ætli mér ekki að leggja mig í vélinni þá munar rosalega að hafa eyrnatappa því það takmarkar hávaðann frá hreyflunum, til dæmis ef maður ætlar að slaka á eða lesa. Heyrnartólin gegna svo lykilhlutverki varðandi afþreyingu í vélinni, hvort sem flugfélagið býður upp á afþreyingu eða maður er bara sjálfur með bíómynd í símanum eða tölvunni.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Það er svo margt enn hægt að skoða en ég held að næst þegar ég fer í lengri gerðina af ferðalagi langi mig helst í bakpokaferðalag um Suður-Ameríku eða Suðaustur-Asíu.“

Hvaða ferðalög eru á dagskrá?

„Ég er stödd núna í Ísrael. Það er ekkert niðurneglt með framhaldið en planið er að fara til Palestínu og mögulega til Egyptalands meðan ég er á þessum slóðum.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert