Óprúttnir Íslendingar í Texas

Að því hlaut að koma að hraðasekt yrði blákaldur veruleiki …
Að því hlaut að koma að hraðasekt yrði blákaldur veruleiki ferðalanganna, 251 dollari þar. Hinn geðþekki lögregluþjónn G... reyndist eiga sama afmælisdag og ökuþórinn sem hann stöðvaði á þjóðvegi 40 skammt frá Amarillo í Texas. Mynd/Rósa Lind Björnsdóttir

Framhald af greininni Í kompaníi við malbikið sem birtist hér á Ferðavefnum í gær.

Frá Oklahoma liggur leiðin í vestur, rúma 400 kílómetra til Amarillo í Texas þar sem finna má hið annálaða steikhús The Big Texan Steak Ranch & Brewery en einhverjir hafa vafalítið heyrt af áskorun hússins sem felst í því að hesthúsa tveggja kílógramma nautasteik sem er á kostnað staðarins takist það á klukkustund. Hvorugum greinarhöfunda hugnaðist sú hólmganga.

Af þeim átta ríkjum sem Route 66 liggur um eru blóðböndin kannski sterkust í Texas, 91 prósent af því sem var hin upprunalega Route 66 er enn í notkun þar í ríkinu. Margt má skoða á leiðinni til Amarillo og má þar nefna Route 66-safnið í Elk City í Oklahoma, en er nær dregur Amarillo birtist Cadillac Ranch á vinstri hönd við þjóðveg 40, ákaflega myndrænt listaverk hóps sem kallaði sig Ant Farm og gróf árið 1974 tíu Cadillac-bifreiðar af árgerðum 1949 til 1963 í jörðu með afturendann upp. Boðskapur verksins er á huldu en víða vísað til þess í poppmenningu og má til dæmis sjá því bregða fyrir í myndbandinu við lag James Brown, Living in America.

Listaverkið Cadillac Ranch frá 1974 blasir við af þjóðvegi 40 …
Listaverkið Cadillac Ranch frá 1974 blasir við af þjóðvegi 40 ekki löngu áður en komið er til Amarillo í Texas. Ákaflega myndrænt enda yfirleitt hópar af ferðalöngum á staðnum að taka myndir af þessum gömlu niðurgröfnu Cadillac-bifreiðum. Mynd/Atli Steinn Guðmundsson

Fátt er auðveldara á þjóðvegi 40 í vesturátt en að láta hraðatakmarkanir sem vind um eyru þjóta, í bókstaflegri merkingu sé ferðast með blæjubifreið. Að frátöldum 18 hjóla vöruflutningabifreiðum er félagsskapurinn á veginum nær allur af séra Guðmundarkyninu, Ford Mustang, Dodge Charger, Chevrolet Camaro eða Corvette og einstaka Dodge Viper að ógleymdum hópum samferðamanna á Harley Davidson-vélfákum. Þegar komið er yfir ríkjamörkin til Texas tekur hið sanna hjarta Route 66 að slá. Hér ráða hestöflin og háværir hreyflar knúnir jarðefnaeldsneyti, við sáum enga bifreið að nafni Tesla eftir að komið var yfir til Texas.

Auðvitað fór þá sem fór, blá og rauð ljós í baksýnisspeglinum við borgarmörk Amarillo og skömmu síðar hallaði sólglereygður lögregluþjónn með barðastóran hatt að hætti Texas-búa höfði sínu inn um hliðargluggann og bað um ökuskírteini og tryggingagögn, hraðinn mældur 106 mílur á 75 svæði. Laganna vörður kættist þó nokkuð þegar hann leit á ökuskírteinið og sá að þeir ökuþórinn áttu sama afmælisdag, 30. mars. Léttist þá brúnin þegar tveir hrútar, annar úr Garðabæ, hinn frá Texas, heilsuðust af innileika í vegkantinum og ekki var annað hægt en að smella af mynd til minningar um augnablikið. Öllu ískyggilegra þótti ferðalöngunum íslensku að þjónn réttvísinnar var einn á ferð á bifreið sinni og án upptökubúnaðarins Eyewitness sem hann kvað lögreglu í Texas ekki nota, ríki þar sem sjálfsagðara þykir að eiga skotvopn en sokka.

„Nú, það er ég!“

Saga út af fyrir sig er að ökumanninum seka var gert að mæta fyrir friðdómarann (e. Justice of the Peace) Jean Hardman í Carson-sýslu 30. september klukkan 10:00, einmitt daginn sem ráðgert var að lenda heima í Ósló á ný eftir fríið. Ferðamenn geta þó leyst sig undan slíkri kvöð með því að hringja í símanúmer sem lögregluþjónninn afhenti í langri skýrslu um brotið og ganga þar til sátta með loforði um greiðslu sektar.

The Big Texan Steak Ranch & Brewery í Amarillo. Þeir …
The Big Texan Steak Ranch & Brewery í Amarillo. Þeir sem hafa áhuga og eru glorsoltnir geta reynt sig við áskorun hússins, að klára tveggja kílógramma nautasteik á innan við klukkustund og fá hana að launum á kostnað staðarins. Greinarhöfundur pantaði sér bara hefðbundna steik og var þó langt frá að torga henni. Mynd/ASG

Á ákaflega notalegu Holiday Inn-hóteli í Amarillo, sem nánast er næsta hús við Big Texan-steikhúsið og alveg óhætt að mæla með, ákvað ökufanturinn sakbitni að ljúka málinu hið fyrsta og sló símanúmerið skjálfandi á herbergissímann með volgt Jim Beam í kók innan seilingar skyldu veður gerast válynd. Í símann svaraði hressileg og viðkunnanleg kvenrödd og hlýddi eigandi hennar á sálumessu syndarans án þess að kippa sér upp hið minnsta.

Þegar konan fékk að heyra að viðmælandi hennar væri frá Íslandi en ekki Kanada („OT“ sem búsetusvæði á amerískum lögregluskýrslum stendur víst ekki fyrir Ontario heldur „Other“) lét hún móðan mása um hve mikið hana lysti að heimsækja land elds og ísa og spannst af nokkurt spjall. Undir lok símtalsins, að öllum formsatriðum og 251 dals sekt frágengnu, afréð Íslendingurinn að biðja að minnsta kosti fyrir kveðju til Hardman friðdómara með skilaboðum um að leitt væri að missa af réttarhöldunum 30. september. „Nú, það er ég!“ sagði Hardman dómari í símann og skellihló. Auk Holiday Inn-hótelsins er því óhætt að mæla með að næla sér í hraðasekt í Texas og kynnast bráðhressum dómurum ríkisins.

Skömmu eftir að ekið er frá Amarillo birtist smábærinn Adrian sem telst heldur betur áfangi á vegferð þessari en þar er leiðin hálfnuð, jafnlangt þaðan til Chicago og Santa Monica eftir Route 66. Þarna er kaffihúsið MidPoint Café þar sem upplagt er að rétta úr skönkum yfir kaffibolla og ræða við aðra ferðalanga. Þarna hittum við stórskemmtilegan hollenskan hóp á Harley Davidson-hjólum sem var að láta margra ára draum rætast með því að aka 66 í samfloti.

Hálfnuð! Bærinn Adrian í Texas situr á Route 66 miðri …
Hálfnuð! Bærinn Adrian í Texas situr á Route 66 miðri og er jafnlangt þaðan til Chicago og Santa Monica. Þar hittist fyrir fjallhress hópur Hollendinga sem létu þann draum sinn rætast að aka Route 66 á Harley Davidson-hjólum. Mynd/Hollenskur vélhjólamaður

Hæsta höfuðborg Bandaríkjanna

Ekki löngu eftir að Adrian er kvaddur tekur New Mexico við af Texas og er nokkuð passlegt að seðja hungrið í Tucumcari, smábæ sem býður upp á fjölda veitingastaða, þar á meðal Godfather's Pizza fyrir flatbökuunnendur en staðurinn Kix on 66 er sígildur amerískur „diner“ sem þó býður einnig mexíkóskan mat. La Cita er einnig eftirtektarverður, einkum fyrir risavaxinn „sombrero“-hatt yfir innganginum. Vert er að geta þess að í Tucumcari er Texaco-bensínstöð sem er eina bensínstöðin við alla Route 66 sem hefur verið starfrækt frá opnun þjóðvegarins árið 1926 og fram á daginn í dag.

Hluti hollenska hópsins. Godverdomme!
Hluti hollenska hópsins. Godverdomme! Mynd/ASG

Nær óumflýjanlegt er að líta örlítið út fyrir sjálfa Route 66 og skoða staði sem eru spölkorn frá veginum en þó fullkomlega þess virði að heimsækja. Má þar nefna Santa Fe, höfuðborg New Mexico sem þó hýsir aðeins rúmlega 70.000 íbúa en liggur rúmlega 2.100 metra yfir sjávarmáli og er þar með hæstliggjandi ríkishöfuðborg allra Bandaríkjanna. Þar tókum við á okkur náðir eftir 450 kílómetra akstur frá Amarillo. Santa Fe er um 100 kílómetra frá þjóðvegi 40 en fáir verða sviknir af ákaflega myndrænu eyðimerkurlandslagi með tilkomumiklum fjöllum og dalverpum á leiðinni.

Quality Inn-mótelið er ágætlega miðsvæðis og kemur lítið við pyngjuna, herbergin búin húsgögnum í anda 7. áratugarins og ævafornum túbusjónvörpum. Í Santa Fe (sem á spænsku þýðir heilög trú) finnast merki um búsetu frá því um 900, skömmu eftir meint landnám Íslands, og hvílir einhver þægileg stóísk ró yfir bænum og íbúum hans. Ekki er hægt að ganga út frá því að fólk tali annað en spænskuna eina í Santa Fe og lenti karlhelmingur greinarhöfunda næstum í ógöngum í hverfisbúðinni við einföld innkaup. Með því að sameina litla spænskukunnáttu og þokukennd minningabrot úr latínutímum hjá Þorbjörgu Kristinsdóttur í Menntaskólanum í Reykjavík fyrir 30 árum tókst með naumindum að eiga tjáskipti við hina innfæddu.

Um 100 kílómetra krókur tekinn frá Route 66 til að …
Um 100 kílómetra krókur tekinn frá Route 66 til að heimsækja Santa Fe, höfuðborg New Mexico, sem er í sömu hæð yfir sjávarmáli og Hvannadalshnjúkur. Landslagið á leið þangað er stórbrotið þótt þessi mynd skili kannski ekki miklu af því. Mynd/ASG

Billy the Kid-safnið í Fort Sumner

Annar bær sem óhætt er að nefna rétt utan við Route 66 á þessum slóðum er Fort Sumner sem áhugafólk um útlagann, sem gekk ýmist undir nöfnunum Henry McCarty, William H. Bonney eða bara Billy the Kid, ætti ekki að láta fram hjá sér fara. Í Fort Sumner skaut Pat Garrett lögreglustjóri Billy the Kid til bana 14. júlí 1881 og þar í bænum er rekið safn um útlagann, Billy the Kid Museum, sem sagt er að standi á sama stað og Garrett skaut the Kid tveimur skotum sem urðu honum að aldurtila þennan örlagaríka sumardag 1881, aðeins tólf dögum eftir að Charles J. Guiteau skaut James Abraham Garfield, 20. forseta Bandaríkjanna, til bana á járnbrautarstöð í Washington.

Eins er ekki langt að skjótast til Las Vegas frá þessum slóðum í New Mexico, greinarhöfundar óku þangað frá San Francisco fyrir fimm árum og nutu stórkostlegra tónleika Aerosmith og Slash auk annars sem spilaborgin litríka býður gestum sínum.

Næsta borg í stærri kantinum sem ekið er í gegnum er Albuquerque, sögusvið Breaking Bad-þáttanna góðkunnu. Borgarbúar kunna sín ferðamannafræði og hægt er að fara og skoða hús efnafræðikennarans og crystal meth-kóngsins Walter White auk þess sem boðið er upp á ferðir tengdar þáttunum, Breaking Bad Tour og meira að segja er sérstök Better Call Saul-ferð í boði fyrir harða aðdáendur aukapersónunnar og lögmannsins sem fékk að lokum sína eigin þætti eftir að hafa slegið í gegn í Breaking Bad. Við brunuðum beint í gegnum borgina en horfðum á þættina á sínum tíma svo við höfum í raun séð megnið af henni.

Ein margra „Route 66 historic sites“, sem athyglisverðir staðir við Route 66 kallast jafnan, í Albuquerque er KiMo-leikhúsið þar í borginni. Sagt er að þar sé reimt og andi sex ára gamals drengs, Bobby Darnall, gangi þar ljósum logum, en Darnall þessi er sagður hafa látist af slysförum þegar gufuketill í leikhúsinu sprakk árið 1951. Sagan hermir að andi hans finni enga eirð en geri leikurum ýmsa skráveifu meðan á sýningum stendur, bregði fyrir þá fæti og hafi uppi skarkala. Til að sefa andann friðlausa skilja leikarar eftir disk með kleinuhringjum baksviðs á kvöldin sem jafnan eru horfnir að morgni.

Þjóðgarðurinn Petrified Forest er alveg við Route 66 og er …
Þjóðgarðurinn Petrified Forest er alveg við Route 66 og er einn þekktasti fundarstaður steingervinga í Bandaríkjunum. Landslagið er einnig stórkostlegt en við mælum ekki með kamrinum sem þar stendur á víðavangi. Mynd/ASG

Route 66, þjóðvegur 40 að þessu sinni, liggur rétt við þjóðgarðinn Petrified Forest, steinrunna skóginn, einn þekktasta fundarstað steingervinga í Bandaríkjunum. Þar hefur töluvert fundist af steingerðum leifum risaeðlna auk þess sem skoða má magnaða steingerða trjáboli ævaforna í Jasper Forest þar sem einnig er útsýnispallur hvaðan horfa má yfir mjög myndrænt landslag, sannkallað gósenland jarðfræðinga.

Aðgangseyrir er 20 dollarar á bifreið og alveg óhætt að mæla með bíltúr um þjóðgarðinn. Þjónustumiðstöð og veitingastaður eru skammt frá innkeyrslu í garðinn, af biturri reynslu mæla greinarhöfundar með salernisferð þar, ekki á kamrinum skammt frá Jasper Forest sem kann að líta snyrtilega út utan frá, en oft er flagð undir fögru skinni.

Apache-dauðahellirinn í Two Guns

Full ástæða er til að koma við í draugabænum Two Guns skömmu eftir að Arizona tekur við af New Mexico. Sú var tíðin að Two Guns iðaði af lífi og var fjölsóttur ferðamannastaður. Í dag er íbúatalan hins vegar núll. Á 19. öld var Two Guns þekktur áningarstaður áður en farið var yfir Djöflagil, Canyon Diablo, fyrst á hestvögnum, síðar á bifreiðum. Seinna komu aðrar samgönguleiðir til og Two Guns tók að glata aðdráttarafli sínu. Áðurnefndur Billy the Kid faldi sig ásamt gengi sínu í húsi á vesturkanti Djöflagils, til móts við Two Guns, veturinn 1879 – '80.

Sú var tíðin að bærinn Two Guns í Arizona iðaði …
Sú var tíðin að bærinn Two Guns í Arizona iðaði af mannlífi og var auk þess fjölsóttur ferðamannastaður. En þá var öldin önnur er Gaukur bjó á Stöng og nú er Two Guns í eyði og rústir gamalla mannabústaða einar til marks um að þarna hafi þrifist blómlegt samfélag á 19. öld. Mynd/ASG

Frægastur er Two Guns þó líklega fyrir Apache-dauðahellinn, The Apache Death Cave. Þar mættu 42 Apache-indíánar örlögum sínum árið 1878 eftir grimmilega árás á fjandmenn sína, Navajo-ættbálkinn, við Little Colorado-ána. Apache-indíánarnir slátruðu þar heilu þorpi Navajo-indíána og lifðu eingöngu þrjár barnungar stúlkur af sem Apache-vígamennirnir rændu og höfðu með sér eftir árásina. Navajo-bálkurinn sendi 25 stríðsmenn á eftir árásarmönnunum en leitarhópurinn hafði ekki erindi sem erfiði, fann hvorki tangur né tetur af árásarmönnum.

Skömmu síðar bárust fréttir af annarri árás á hóp Navajo-indíána nærri Two Guns og sendu Navajo-ar út nýjan leitarhóp. Tveir menn úr þeim hópi fóru um Djöflagil og fundu skyndilega sér til undrunar hitabylgju berast upp um op í jörðinni. Þar undir leyndist hellir í hverjum Apache-indíánar höfðu gert sér bækistöð og kveikt elda. Leitarmennirnir færðu yfirboðurum sínum tíðindin og sendu Navajo-indíánar her manns á staðinn. Nú skyldi hefnt. Og hefndirnar náðust. Lið Navajo-indíána kom að hellismunnanum og gerði þar gríðarmikið bál í runnagróðri.

Two Guns geymir merkilegar sögur og ekki allar fagrar. Útlaginn …
Two Guns geymir merkilegar sögur og ekki allar fagrar. Útlaginn Billy the Kid faldi sig eitt sinn í húsi við Djöflagil ásamt hópi sínum og í Apache-dauðahellinum mættu 42 indíánar örlögum sínum þegar fjendur þeirra náðu fram grimmilegum hefndum. Mynd/ASG

Apache-menn sáu sitt óvænna, skáru alla hesta sína á háls og hlóðu hræjunum upp við hellismunnann til að varna fjendum sínum inngöngu. Einum Apache-indíána tókst að komast út úr hellinum en var þegar gripinn. Bað hann Navajo-menn griða og bauð skaðabætur. Navajo-ar spurðu um stúlkurnar þrjár og kom þá hik á fangann. Sáu hinir þá sem var að þær hefðu verið sendar á vit feðra sinna og brugðust ókvæða við. Var meiri eldsmatur nú borinn að hellismunnanum og kynt undir sem mest mátti vera. Þegar upp var staðið lágu 42 Apache-indíánar í valnum, kafnaðir úr súrefnisskorti vegna loganna við hellismunnann. Apache-indíánar réðust aldrei á Navajo-a aftur eftir þennan atburð árið 1878.

Þórsmörk á sterum

Náttúrulegt stórvirki sem enginn Route 66-ferðalangur ætti að láta fram hjá sér fara er Miklagljúfur, Grand Canyon, sem kostar örlítinn krók út frá 66, þó styttra en útúrdúrinn til Santa Fe. Afleggjarinn að gljúfrinu birtist skömmu eftir að komið er í gegnum bæinn Flagstaff sem er ákjósanlegur til næturgistingar. Full ástæða er til að mæla með mótelinu Aspen Inn and Suites þar í bæ sem býður upp á óaðfinnanleg herbergi fyrir 62 dollara (um 7.700 krónur) á nótt. Skammt þar frá er mexíkóski veitingastaðurinn Agave, frábært starfsfólk, góður matur og óviðjafnanlega listrænar innréttingar.

Að standa á gljúfurbarmi Grand Canyon og horfa yfir hrikalegt …
Að standa á gljúfurbarmi Grand Canyon og horfa yfir hrikalegt fjallalandslagið í kvöldsólinni er reynsla sem fáir gleyma meðan öndin þaktir í vitum þeim. Hér er dýrt að gista en aðstaðan ágæt. Vissara er að panta gistingu fyrir fram, jafnvel þótt vel sé liðið á haust. Við vorum svo stálheppin að fá herbergi eina nótt ópantað en daginn eftir var allt fullt og tíu á biðlista eftir herbergi. Mynd/Rósa Lind Björnsdóttir

Miklagljúfur snertir pyngjuna meira en allir ódýru gististaðirnir síðustu 1.000 kílómetrana á undan. Þar er fyrst rukkað inn í sjálfan þjóðgarðinn, 30 dollara fyrir hverja bifreið, 25 fyrir vélhjól, en eftir það má gera ráð fyrir allt að sexföldu gistináttaverði miðað við það sem á undan er gengið og engin nettenging á herbergjum, hér á náttúran ein að ráða. Óvitlaust sjónarmið svo sem, á miðju stærsta gistisvæðinu er þjónustumiðstöð með þráðlausu neti og séu dyrnar á herbergi í allt að 300 metra fjarlægð hafðar opnar ná öflugir snjallsímar þráðlausa netinu á því færi, annað mál með tölvur. Svæðið ætti þó að freista meira til gönguferða en netráps svo netleysi kom ekki að mikilli sök en ferðalöngum er bent á að leggja leiðina inn á svæðið á minnið til að rata út aftur þar sem ekkert GPS-samband er við Miklagljúfur.

Að standa á gljúfurbarminum og horfa yfir takmarkalausa víðáttuna og fjöll sem hafa vakað í miklu meira en þúsund ár er reynsla sem verður tæplega lýst með orðum. Hönnun lágreistra hótela og veitingastaða við brúnina gerir það að verkum að þessi mannvirki falla nokkurn veginn inn í umhverfið og gróðurinn, naumhyggjuleg fágun sem kallar hinn hreina tón náttúrunnar enn betur fram. 

Þarna var fjöldi ferðalanga á vappi og hittum við meðal annarra hjónin David og Louann frá Norður-Karólínu. Louann er fædd 1958 og af þýsku bergi brotin. Fyrir rúmu ári greindist hún með illkynja heilaæxli, er bundin við hjólastól vegna þess og á örfáa mánuði eftir í þessum heimi. Þau hjónin nota nú tíma sinn til að ferðast um landið, heimsækja ættingja og sjá Grand Canyon í fyrsta sinn, Louann fyrsta og eina ef fer sem horfir. Þrátt fyrir dóm örlaganna hlógu David og Louann með íslensku ferðalöngunum, gerðu að gamni sínu og nutu þess sem þau hafa átt um dagana. Ef til vill þeirra jökull og akursins liljugrös sem séra Jón Prímus var svo þakklátur fyrir.

Nokkrir virðulegir til sýnis við Chevron-bensínstöð á leið frá Grand …
Nokkrir virðulegir til sýnis við Chevron-bensínstöð á leið frá Grand Canyon. Hinum megin vegarins er Flintstones Bedrock City þar sem meðal annars má setjast upp í bifreið Steinaldarmannanna sem voru góðkunningjar Íslendinga á sjónvarpsskjánum á níunda áratugnum. Mynd/ASG

Næst: Eyðimörkin í Arizona, gullnámubærinn Oatman, þar sem tíminn hefur staðið kyrr í 130 ár, Kalifornía og lokapunktur Route 66 í Santa Monica

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert