Ebba fékk bónorð í rútu á nýársmorgni

Ebba Sig er flughrædd en róar sig með góðum þáttum.
Ebba Sig er flughrædd en róar sig með góðum þáttum. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Leik­kon­an og uppistandarinn Ebba Sig átti skemmtilega innkomu í Pabbahelgum á sunnudaginn. Ebba er þó líklega þekktari fyrir hressandi uppistandsframkomur þar sem hún segir meðal annars ótrúlegar sögur af sjálfri sér. Næsta uppistand Ebbu verður á Hard Rock með Snjólaugu Lúðvíks og Jono Dufffy. Það er aldrei að vita hvort að ferðasögur Ebbu verða á dagskrá en það er nokkuð ljóst að Ebba hefur lent í ýmsu á ferðalögum sínum og á námsárum sínum erlendis.  

„Ég held að eftirminnilegasta ferðalagið sé þegar ég og Devin vinkona mín, sem er bandarísk, tókum rútu frá New York til Boston nýársmorgni árið 2014 enn í djammgallanum frá gamlárskvöldi og ég var í gervipels. Það kom rússneskur maður úr einu casinoi og bauðst til þess mörgum sinnum að giftast mér, sagðist þekkja John F. Kennedy og gæti keypt marga loðfelda fyrir mig. Hann sýndi mér líka öll kreditkortin sín til að sýna hvað hann væri ríkur en það voru í raun fimm mismunandi hótellyklakort. Við hlógum alveg endalaust að þessum manni og gerum enn í dag,“ segir Ebba þegar hún var spurð. 

Rússneskur maður vildi kaupa alvöruloðfeld fyrir Ebbu.
Rússneskur maður vildi kaupa alvöruloðfeld fyrir Ebbu. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Uppáhaldsborgin er klárlega London. Ég bjó þar í rúm þrjú ár og elskaði að geta farið í alls konar leikhús, Speakeasy og hversu lifandi mannlífið var. Þótt ég hafi eytt flestum virkum dögum heima að læra nýttum við helgarnar mikið í leikhúsferðir og að fara út að borða og tríta okkur svolítið.“

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Ég er svo mikið borgarbarn að ég verð að segja 101 Reykjavík. Ég fer eiginlega aldrei út úr bænum. Ég ætti að skammast mín því ég er svo heimakær. Eftir að ég flutti í miðbæinn fer ég nánast ekkert annað. En svo á Fellahverfið í Breiðholtinu alltaf hjartað mitt.“

Besti maturinn á ferðalagi?

„Þegar ég bjó í Chicago átti ég heima í mexíkósku hverfi sem heitir Pilsen. Þar var fjölskylduveitingastaður sem hét Nuevo Leon og þar var hægt að fá bestu Chimichanga sem til er í heiminum. Þær kostuðu svo lítið og voru svo góðar að við vinkonurnar fórum þangað oft í viku því það var rétt hjá okkur. Allur maturinn í Chicago var reyndar góður og þá sérstaklega Deep dish pizzurnar.“

Ebba fékk góðan mat í Chicago.
Ebba fékk góðan mat í Chicago. Ljósmynd/Aðsend

Mesta menningarsjokkið?

„Mér fannst alveg svakalega hræðilegt þegar ég var að millilenda á leiðinni til Chicago í Minneapolis og sá alla verðina með byssur. Ég fór grátandi í eftirlitið og maðurinn var svo indæll og spurði hvað væri að. Þegar ég sagði honum að byssurnar hræddu mig reyndi hann að róa mig en ég hætti ekki að gráta fyrr en ég var komin í vélina. Mun aldrei venjast því að vera svona umkringd byssum.“

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?

„Kannski ekki hættulegu en ég var mjög hrædd. Ég var að fara í gegnum eftirlitið eftir að ég lenti í Los Angeles og ég átti erfitt með að skanna inn fingrafarið. Maðurinn í eftirlitinu var svo dónalegur, mér blöskraði svo því ég var að reyna að setja það inn og hann skammaði mig sem endaði með því að ég sagði honum að hætta að vera svona dónalegur. Hann tók mig þá afsíðis þar sem ég fór í pínulítið herbergi þar sem ég var yfirheyrð. Ég hef aldrei á ævinni verið eins hrædd og óskaði þess að ég hefði þagað. Ég komst nú sem betur fer út og fékk að skoða Los Angeles.“

Ebba í Chicago.
Ebba í Chicago. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Eitthvað til að horfa á. Ég er mjög flughrædd og verð að hafa eitthvað í eyrunum því ég vil ekki heyra neitt í vélinni. Er yfirleitt búin að „downloada“ af Netflix ef það er ekki net í vélinni og hámhorfi á eitthvað róandi eins og Gilmore Girls eða Brooklyn 99 sem ég hef séð milljón sinnum og get verð róleg yfir.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig langar rosalega til Balí. Alveg þrái að sjá þessa fegurð og njóta þess að slappa af á þessum fallega stað. Svo hef ég aldrei farið til Berlínar og langar alveg ótrúlega að fara þangað og drekka bjór og njóta listarinnar.“

Hvaða ferðalög eru á dagskrá?

„Það eina sem er alveg ákveðið er að fara með einleikinn minn, Guðmóðurina, til Los Angeles og á Edinborgarhátíðina á næsta ári. En svo langar mig rosalega til Poznan í Póllandi aftur þar sem ég get notið mín á torginu með kokteil og í afslöppun.“

Ebba á torgi í Poznan í Póllandi með mömmu sinni.
Ebba á torgi í Poznan í Póllandi með mömmu sinni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert