Gaf farþegum eyrnatappa vegna hrotanna í pabba

Alan kallinn hrýtur heldur hátt.
Alan kallinn hrýtur heldur hátt. Ljósmynd/Colourbox

Ung kona í Ástralíu hafði miklar áhyggjur af því að farþegar myndu verða pirraðir á stjúppabba hennar í flugvél, en hann hrýtur að hennar sögn mjög hátt. Kvöldið áður en fjölskyldan ferðaðist frá Ástralíu til Houston í Bandaríkjunum tók hún málin í sínar eigin hendur.

Hin 17 ára Grace Smith undirbjó litla pakka, með eyrnatöppum og skilaboðum til að gefa farþegum í flugvélinni. Á miðanum í pakkanum stóð „Hæ. Njóttu ferðar þinnar í dag. Okkur datt í hug að þig vantaði hjálp ef Alan sofnar — svo vonandi hjálpar þessi litli pakki. Ást — Ros og Grace.“

Þær mæðgur höfðu heyrt um það að foreldrar með ung börn á ferðalagi gerðu þetta stundum, bæðust afsökunar á gráti barnanna með litlum gjöfum. Það veitti þeim innblástur til að gera pakkana. Þær létu svo Alan hafa pakkana á flugvellinum og báðu hann um að gefa fólki í næstu sætum þá. 

Hann sagði að það erfiðasta við þetta væri að ná athygli hinna farþeganna. „Þegar fólk sest í flugvélar nú til dags er það strax byrjað að horfa á kvikmynd og er með heyrnartól hvort sem er,“ sagði Alan. 

Ros, eiginkona hans, sagði að þau hafi fengið mjög misjöfn viðbrögð frá fólki, ein kona hafi verið mjög þakklát og opnað pakkann strax. Öðrum fannst þetta heldur skrítið og vissu ekki hvað þeir áttu að segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert