Elín og Hafþór stungu af til Spánar

Öll fjölskyldan í fjallaþorpinu Frigiliana um páskana, en eldri dætur …
Öll fjölskyldan í fjallaþorpinu Frigiliana um páskana, en eldri dætur þeirra tvær voru duglegar að heimsækja þau. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Hjónin Elín Sigurðardóttir og Hafþór Hreiðarsson hafði lengi dreymt um að eyða lengri tíma á Spáni. Þau hafa ferðast oft til landsins og eytt nokkrum vikum hér og þar víðs vegar um landið. Í febrúar á þessu ári ákváðu þau að láta draum sinn rætast og fluttu til Spánar í sex mánuði. 

Þau söfnuðu sér pening, leigðu út húsið sitt og Elín, sem er hárgreiðslumeistari, lokaði stofunni sinni tímabundið. Yngsta dóttir þeirra, sem er 17 ára, kom með en tók áfanga í skólanum heima í fjarnámi á meðan. Þær mæðgur lögðu svo einnig stund á spænsku þar ytra sem kom sér vel þegar á dvölina leið. 

Þau dvöldu fyrri hluta tímans í bænum Nerja á Suður-Spáni. Síðari hluta ferðarinnar var eytt í bænum Chapela í Galisíu. Þau ferðuðust þó nokkuð um landið á meðan dvöl þeirra stóð og fóru einnig yfir til Portúgal. Fjölskylda þeirra og vinir nýttu að sjálfsögðu tækifærið á meðan þau dvöldu þar ytra og heimsóttu margir fjölskylduna, bæði til Nerja og Chapela.

Af hverju ákváðuð þið að drífa ykkur til Spánar?

Við erum búin að vera með frekar mikla Spánarsýki í mörg ár og líkar óskaplega vel veðurfarið þar. Okkur var lengi búið að dreyma um það að fara og vera á Spáni um lengri tíma og núna fannst mér bara rétti tíminn vera kominn að brjóta aðeins upp þetta daglega líf. Orðin fimmtug og búin að vera að vinna sömu vinnuna í 30 ár. Og yngsta dóttir okkar, sem er 17 ára, var meira en til í að koma með okkur í þetta ævintýri.

Calahonda-ströndin var ein af þeirra uppáhalds í Nerja.
Calahonda-ströndin var ein af þeirra uppáhalds í Nerja. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Hvað heillaði ykkur við Spán?

Við erum búin að heimsækja landið margoft síðustu 30 ár. Einnig hef ég farið tvisvar í hjólaferð til Spánar. Fyrst hjólaði ég Jakobsveginn með vinkonu minni og nokkrum árum seinna tókum við mennina okkar með og hjóluðum pílagrímaleið frá Portó sem líka endar í Santiago de Compostela en í þeim ferðum heillaðist við verulega af norðanverðum Spáni. En það sem ég sæki fyrst og síðast í á Spáni er veðrið, góður tapas og rauðvín. Þá hefur mig einnig langað til þess að læra svolítið í spænsku og drifum við mæðgur okkur í sex vikna spænskunám í Nerja, þar sem við dvöldum fyrst um sinn. Spænskuskólinn heitir Escuela de Idiomas Nerja fyrir áhugasama.

Ströndin sem þau heimsóttu oft í Chapela.
Ströndin sem þau heimsóttu oft í Chapela. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Hvernig völduð þið hvar þið vilduð vera og hvernig leigðuð þið íbúðir?

Fyrst hugsuðum við okkur að vera á Norður-Spáni en svo þegar kom að tímasetningunni að fara í byrjun mars þá vissi ég að það væri heldur rigningarsamt þar á þeim tíma. Því ákváðum við velja okkur stað suður í Andalúsíu fyrstu þrjá mánuðina og fara svo norður í Galisíu yfir sumarmánuðina. Bærinn Nerja í Andalúsíu varð fyrir valinu en vinkona mín hafði farið þangað í áður nefndan spænskuskóla og líkað mjög vel þar. Við settum okkur einfaldlega í samband við fasteignaleigu/sölu og fundum þar íbúð sem við gátum leigt þessa þrjá mánuði.

Íbúðin var miðsvæðis og gátum við labbað í allt sem við þurftum en við vorum bíllaus allan tímann á Spáni og notuðum eingöngu almenningssamgöngur og hjól. Nerja er virkilega vinalegur og fallegur bær, andrúmsloftið afslappað og margar litlar dásamlegar strendur, en auðvitað vorum við þarna ekki á háannatíma.

Heitu náttúrulaugarnar í útjaðri Ourense í Galisíu.
Heitu náttúrulaugarnar í útjaðri Ourense í Galisíu. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Nerja tilheyrir Costa de Sol-svæðinu en liggur þó 50 kílómetrum austan við Malaga. Í Nerja búa um 22.000 manns en bærinn margfaldast yfir hásumarið. Seinni hluta tímans dvöldum við í þorpinu Chapela sem er í úthverfi borgarinnar Vigó sem telur tæplega 300.000 íbúa. Þorpið varð nú bara fyrir valinu því við fundum þar ágætisíbúð á Airbnb en við höfðum leitað íbúða á þessu svæði og vildum vera við sjóinn.

Chapela er lítið þorp en þó með alla helstu þjónustu og auðvelt var að taka strætó til Vigó sem tók aðeins 15-20 mínútur. Okkur líkaði mjög vel á báðum þessum stöðum en þeir voru þó ólíkir þar sem Nerja er töluverður ferðamannabær en í Chapela bjuggum við meðal innfæddra.

Þessi gamla kona skenkti þeim kirsuberjavín á hverju kvöldi í …
Þessi gamla kona skenkti þeim kirsuberjavín á hverju kvöldi í Alfama-hverfinu í Lissabon. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Ferðuðust þið eitthvað á meðan dvöl ykkar á Spáni stóð?

Já, við ferðuðumst þó nokkuð. Á meðan við dvöldum í Nerja fórum við meðal annars til Malaga og Sevilla, en Malaga kom okkur skemmtilega á óvart. Einnig fórum við nokkrum sinnum upp í lítið fjallaþorp sem heitir Frigiliana og er örstutt fyrir ofan Nerja en þangað er gaman að koma og útsýnið fallegt. Í Sevilla lentum við í miðri borgarhátíðinni Feria de Abrilsem var mjög skemmtileg. Konurnar voru uppáklæddar í flamingo-kjólum og borgin iðaði af lífi en Sevilla er virkilega litrík, afslöppuð og skemmtileg borg.

Þegar dvölinni í Nerja lauk ákváðum við að fara í svolítið borgarhopp þar sem við flugum fyrst til Portó í Portúgal og vorum þar í nokkra daga. Frá Portó fórum við í dagsferð um Duorodalinn sem er mikið vínræktarhérað í Portúgal. Svo lá leiðin með rútu til Lissabon þar sem við vorum í heila viku en við dvöldum í hverfinu Alfama sem er elsta hverfi borgarinnar. Þar var í gangi hátíð sem stendur allan júnímánuð þar sem sungið er og dansað, og grillaðar sardínur öll kvöld. Frá Lissabon flugum við til Madrídar og dvöldum þar á hosteli í miðborginni í þrjá daga og skoðuðum það helsta sem þar er að sjá. Dvölin á hostelinu reyndist hin mesta skemmtun og kynntumst við fólki alls staðar að úr heiminum á þessum dögum.

Útsýnið af svölunum á gististað þeirra við Douro-ána í Portó.
Útsýnið af svölunum á gististað þeirra við Douro-ána í Portó. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Og þá var komið að því að halda norður til Galisíu og koma okkur fyrir í Chapela þar sem við ætluðum að dvelja næstu tvo mánuði. Við fórum í nokkrar dagsferðir við Vígóflóann en auðvelt er taka þaðan báta út í eyjar og yfir flóann í nærliggjandi bæi. Upp úr stóð ferð út í Cíes-eyjar sem liggja í minni Vígóflóans en eyjarnar eru þjóðgarður og þangað tekur um 40 mínútur að komast með ferju. Eyjarnar eru virkilega fallegar með hvítum ströndum og fallegum gönguleiðum. Algjör paradís á jörðu.

Þegar komið var að heimferð ákváðum við að taka smá interrail um norðanverðan Spán. Fyrsta stopp var í borginni Ourense og þar heimsóttum við heitar náttúrulaugar við ána Rio Mino. Þaðan lá leið okkar til León en þar skoðuðum við Gaudi-safn en á þessu svæði eru nokkrar byggingar hannaðar af honum.

Gaztelugatxe-klettahöfðinn við Biscay-flóa í Baskalandi.
Gaztelugatxe-klettahöfðinn við Biscay-flóa í Baskalandi. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Frá León lá leiðin til Burgos en þess má geta að Jakobsvegurinn sem svo vinsæll er í dag, liggur í gegnum báðar þessar borgir. Eftir nótt í Burgos héldum við til bæjarins Haro í Rioja héraði en bærinn er kunnastur fyrir mikla víngerð. Þar fórum við í rauðvínssmökkun hjá fyrirtækinu Muga. Þá lá leið okkar til Bilbao sem var síðasti áfangastaðurinn okkar á Spáni. Þar tók á móti okkur enn ein hátíðin sem hét Semana Grande sem er stærsta tónlistarhátíð á Norður-Spáni. Borgin iðaði af lífi og alls kyns tónlist í gangi um alla borg og flugeldasýning á hverju kvöldi. Það er reynsla okkar eftir dvölina á Spáni að Spánverjar, sem og Portúgalar, eru mjög hátíðarglaðir.

Í Bilbao heimsóttum við meðal annars Guggenheim-safnið og fórum í dagsferð út með ströndinni og heimsóttum þar klettahöfðann Gaztelugatxe en hann er orðinn vinsæll viðkomustaður ferðalanga eftir að hann kom fyrir í þáttunum Game of Thrones. Einnig heimsóttum við bæinn Guernica sem er höfuðstaður Biskaya-héraðs í Baskalandi en bær þessi var sprengdur í loft upp 26. apríl 1937 af sprengjuflugsveitum Þjóðverja sem voru að aðstoða fasistann Franco í stríði hans gegn Lýðveldissinnum, en Franco hafði horn í síðu Baska vegna sjálfstæðisbaráttu þeirra. Áður höfðum við séð bíómyndina Guernica um þennan atburð í borgarastríði Spánar. Frá Bilbao flugum við svo áleiðis heim með nokkurra daga stoppi í London.

Uppáklæddir Sevillabúar á leið á Feria de Abril-hátíðina.
Uppáklæddir Sevillabúar á leið á Feria de Abril-hátíðina. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Hvaða staðir voru mest heillandi?

Allar þær borgir sem við heimsóttum hafa sinn sjarma en eru þó um margt ólíkar en Sevilla heillaði mig mest. Ekki get ég sleppt því að nefna Cíes-eyjarnar en þær eru einstakar. Og svo landslagið á norðanverðum Spáni sem er ótrúlega fjölbreytt og fallegt.   

Hvaða ráð mynduð þið gefa þeim sem vilja flytja til Spánar, tímabundið eða alfarið?

Ég get kannski ekki ráðlagt fólki sem vill flytjast til Spánar þar sem ég leit meira á þetta sem langt frí. Við vorum búin að safna okkur pening og gátum leigt húsið okkar með öllu innbúi þennan tíma svo þetta var vel framkvæmanlegt. Ég mæli eindregið með þessu og einhvern veginn verður allt betra í góðu veðri.

Drifhvít strönd við Cíes-eyjar.
Drifhvít strönd við Cíes-eyjar. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is