Bara einhverjir að skoða flugið

AFP

Margir kannast við stressið sem fylgir því að panta flugmiða frá erlendum ferðaskrifstofum og sjá að slegist sé um miðann. Fjöldi annarra notenda sé með vefsíðuna opna og í þann mund að fara að tryggja sér miðann, sem maður ætlaði sjálfum sér.

Markmiðið með slíkum tilkynningum er vitaskuld að fá kaupendur til að flýta sér og láta verða af kaupunum án þess að tími gefist til að skipta um skoðun. Það þarf því ekki að koma á óvart að einhverjir kunni að efast um sannleiksgildi fullyrðinga á borð við „38 aðrir eru að skoða þetta flug“.

view_notification_random() er kannski ekki heppilegasta nafnið sé markmiðið að breiða …
view_notification_random() er kannski ekki heppilegasta nafnið sé markmiðið að breiða yfir svindlið. Skjáskot/Twitter

Einn Twitter-notandi, Ophir Harpaz, kom á dögunum upp um svindl ferðaskrifstofunnar One Travel. Sýndi hún fram á að heiltalan, um fjölda þeirra sem áttu að vera að skoða tiltekið flug, byggði ekki á neinu heldur var einfaldlega valin af handahófi, á lokaða bilinu milli 28 og 44.

Ekki þurfti neina sérstaka rannsóknarvinnu til að afhjúpa fyrirtækið. Hver sem er getur skoðað HTML-kóðann bak við heimasíðu með því að hægrismella og velja Inspect Element. Í kóðanum mátti sjá klasann view_notification_random(), en líkt og fyrr segir skilar hann tölu af handahófi milli 28 og 44.

32 aðrir voru sagðir hafa hug á að kaupa sama …
32 aðrir voru sagðir hafa hug á að kaupa sama miða og blaðamaður leitaði að, milli Keflavíkur og Madrídar. Skjáskot/One Travel
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert