Hversu hrein eru baðker á hótelum?

Er óhætt að baða sig á hótelinu?
Er óhætt að baða sig á hótelinu? mbl.is/Colourbox.dk

Að láta renna í bað og kippa með sér drykk úr míníbarnum getur verið ómissandi hluti af ferðalaginu eða að minnsta kosti tilhugsunin um það. Það eru líklega ófáir ókunnugir ferðamenn sem hafa notað baðkerið á undan þér. Er hægt að treysta á það að baðkerið inni á hótelherberginu sé hreint?

Á vef Smarter Travel er reynt að svara því hvort óhætt sé að láta líða úr sér eftir langan dag í baðkeri á hótelherbergi. 

Samkvæmt tveimur prófessorum við virta háskóla í Bandaríkjunum ætti að vera í nokkuð góðu lagi að skella sér í bað á hótelum. Vilja þeir meina að fólk eigi fremur á hættu að sýkjast með því að taka í höndina á öðrum einstaklingi en að fara í bað á hótelherbergi. Jafnvel þótt það sé eitthvað gruggugt í baðinu ætti það ekki að vera vandamál fyrir heilsuhrausta manneskju. Annar sérfræðinganna vill auk þess meina að vandamálið ætti frekar að vera að finna í sturtuhausnum jafnvel þó að annað fólk hafi legið bert á sama stað og þú í baðinu. 

Ef fólk er sýklahrætt ætti það frekar að þvo sér um hendurnar með sápu og vatni eftir að hafa snert aðra manneskju en að sleppa því að baða sig. 

mbl.is