Reglur sem konungsfjölskyldan fylgir á ferðalagi

Katrín og Vilhjálmur við komu í Pakistan.
Katrín og Vilhjálmur við komu í Pakistan. AFP

Breska konungsfjölskyldan fer reglulega í opinberar heimsóknir víða um heim. Nú í haust fóru Meghan og Harry til Suður-Afríku og Katrín og Vilhjálmur eru nýkomin heim til Bretlands frá Pakistan.

Það er að ýmsu að huga þegar ættmenni fjölskyldunnar leggja upp í langferð og geta þau ekki bara stokkið upp í næstu flugvél án þess að vera búin að undirbúa neitt. Þetta eru reglurnar sem breska konungsfjölskyldan fylgir þegar hún fer í opinberar heimsóknir til annarra landa, sem og í einkaferðir.

Þau eiga að fljúga með British Airways ef þau geta

Verandi breska konungsfjölskyldan eiga þau að reyna sem þau geta að fljúga með breska flugfélaginu British Airways þegar þau taka venjulegt flug. Meghan, Harry og Archie litli flugu til Suður-Afríku með British Airways. Katrín og Vilhjálmur fóru hins vegar með einkaþotu breska ríkisins til Pakistan vegna öryggisráðstafana.

Harry og Meghan í nýafstaðinni ferð sinni til Afríku.
Harry og Meghan í nýafstaðinni ferð sinni til Afríku. AFP

Þau eiga að taka svört föt með sér í hverja ferð

Í hvert skipti sem einhver í fjölskyldunni ferðast utanlands verða þau að hafa meðferðis fín svört föt ef vera kynni að einhver heima dæi meðan á ferðinni stendur. Þessari reglu var komið á árið 1952 þegar Elísabet drottning var í heimsókn í Kenía ásamt Filippusi. Georg faðir hennar, sem þá var konungur Bretlands, lést á meðan Elísabet var í Kenía. Þá var hún ekki með svört föt meðferðis og beið inni í flugvélinni á flugvellinum á meðan henni voru færð svört föt. 

Þau þurfa að læra grunnatriði í tungumáli hverrar þjóðar sem þau heimsækja

Konungsfjölskyldan, verandi konungborin, þarf að koma vel fyrir hvert sem hún fer. Því fylgir að kunna einföld orð og kveðjur í tungumáli hverrar þjóðar sem þau heimsækja. Katrín ávarpaði til dæmis börn á barnaheimili í Pakistan á tungumálinu urdu sem er opinbert tungumál landsins.

Klæðnaður þeirra þarf að virða menningu hverrar þjóðar

Opinberar heimsóknir fela í sér að styrkja samband Bretlands við hvert land sem heimsótt er. Þar af leiðandi þurfa þau að sýna virðingu við menningu hverrar þjóðar og klæða sig í samræmi við hana. Þetta er sérstaklega mikilvægt í þeim löndum sem drottningin sjálf heimsækir. 

Þetta mátti greinilega koma auga á í nýafstaðinni ferð Katrínar og Vilhjálms til Pakistan þegar Vilhjálmur klæddi sig að sið heimamanna í „sherwani“.

Vilhjálmur og Katrín í heimsókn í Badshahi-moskunni í Lahore.
Vilhjálmur og Katrín í heimsókn í Badshahi-moskunni í Lahore. AFP

Þau skipta um föt á síðustu stundu í flugvélinni

Það er mikið lagt upp úr því að fjölskyldan sé vel til fara á ferðalögum og að góðar myndir séu teknar af henni, sérstaklega þegar hún gengur frá borði í nýja landinu. Þar af leiðandi klæðir hún sig í fínu fötin á síðustu stundu í vélinni til að minnka hættuna á því að sullist á fötin eða þau séu krumpuð. 

Eldri ættmenni ferðast með blóð í sínum blóðflokki

Drottningin og hennar fjölskylda er verðmætur farangur og því eru mörg skref tekin til þess að tryggja öryggi þeirra. Læknir ferðast alltaf með drottningunni og Karli Bretaprinsi í opinberar heimsóknir. Hann tekur með blóð í þeirra blóðflokki, sérstaklega til landa þar sem blóð gæti verið af skornum skammti. 

Heilt fylgdarlið fer með þeim

Konungsfjölskyldan er sjaldan ein á ferli, sérstaklega ekki í opinberum heimsóknum þar sem dagskráin er stíf. Heilt fylgdarlið kemur með til að tryggja að allt gangi vel. Í Pakistanferðinni voru 14 manns í för með Vilhjálmi og Katrínu, þar af einkaritarar þeirra, fjölmiðlafulltrúar, hárgreiðslumaður og læknir. Sambærilegur fjöldi fólks fylgdi Meghan og Harry til Afríku. 

Meghan og Harry í Suður-Afríku.
Meghan og Harry í Suður-Afríku. AFP

Þau ættu ekki að ferðast saman, en gera það samt

Þetta er gömul regla en hefur verið hunsuð síðustu ár þar sem flugsamgöngur hafa orðið traustari. Reglan var sú að tveir erfingjar krúnunnar mættu ekki að ferðast í sama flugi ef slys yrði, til að forðast að fleiri en einn erfingi krúnunnar dæi í einu. Það þýðir að tæknilega séð má Vilhjálmur ekki ferðast með börnum sínum.

Heimsóknir mega ekki vera lengri en tvær vikur

Þrátt fyrir að ferðast stundum til fjarlægra landa hinum megin á hnettinum mega opinberar heimsóknir ekki taka meira en tvær vikur. Hér áður fyrr tóku opinberar heimsóknir oft marga mánuði, núna þykir það skilvirkara að hafa dagskránna stífari svo aðilar konungsfjölskyldunnar séu aldrei lengur en tvær vikur í burtu. Að meðaltali eru fjórir viðburðir á hverjum degi í opinberum heimsóknum. 

Elísabet er hætt að fljúga en keyrir enn þá. Þessi …
Elísabet er hætt að fljúga en keyrir enn þá. Þessi mynd er síðan 10. maí síðastliðinn. AFP
mbl.is