Láta drauminn rætast á landskika í Portúgal

Kristrún Ýr, Aldís Eyja, Axel og Ylfa Lotta.
Kristrún Ýr, Aldís Eyja, Axel og Ylfa Lotta. Ljósmynd/Aðsend

Kristrún Ýr Óskarsdóttir og Axel Árnason festu kaup á landareign í Algarve í Portúgal í lok árs 2017 og stefna á að flytja þangað alfarið á næstu árum. 

Þau hafa búið í Berlín síðan 2015 þar sem Kristrún leggur stund á vöruhönnun við Berlin International University. Þau eiga saman dótturina Ylfu Lottu sem er eins árs og fyrir á Axel dótturina Aldísi Eyju sem er 19 ára. 

Af hverju ákváðu þið að kaupa landskika í Portúgal?

Okkur fannst vera réttur tími til að selja íbúðina okkar í Reykjavík í lok árs 2017 þar sem við höfum búið í Berlín síðan 2015 og sjáum ekki fyrir okkur að flytja aftur til Íslands í bráð. Þegar kom að því að ákveða hvað skyldi gera við peningana var þetta möguleiki sem okkur þótti spennandi, að fjárfesta í framtíðarheimili í sveitinni í Algarve. Við heimsóttum vin okkar þarna á svæðinu og ákváðum að koma fljótlega aftur að skoða eignir og fundum þessa eftir þó nokkra leit. Það var alveg ómögulegt að standast þetta land, uppi í fjallshlíðinni, með öllum fallega gróðrinum og öllu því sem landið hafði upp á að bjóða. Þarna erum við með fjöldann allan af ólífu-, möndlu-, karob- og fíkjutrjám. Vínviður á víð og dreif, nokkur ávaxtatré og villta kryddjurtarunna úti um allt. Fersk sjávargolan gengur yfir landið og á góðum stað á eigninni sér maður út að sjó. Betra gerist það ekki.

Húsin á landinu.
Húsin á landinu. Ljósmynd/Aðsend

Við höfum oft spurt okkur þessarar spurningar sjálf, hvernig þetta gerðist eiginlega, en þetta gerðist bara frekar áreynslulaust þannig séð. Okkur hefur báðum dreymt um að búa í sveit og í hlýrra loftslagi og þetta bara kom til okkar svo fallega einhvern veginn.  Við erum bæði miklir hippar í hjartanu og viljum frekar að yngri dóttir okkar alist upp með molduga fingurgóma en á götum stórborgar. Þó svo að við kunnum vel við okkur hér í Berlín hafa árin okkar hér kennt okkur það að við þurfum að vera nær náttúrunni og við viljum ekki láta streitu nútímasamfélags stjórna framtíðinni okkar. 

Af hverju völduð þið þennan stað fram yfir einhverja aðra?

Algarve-héraðið er einstaklega fallegt svæði, með ægifögrum náttúruperlum, þar á meðal fallegum ströndum, klettum og skógarsvæðum. Loftslagið er frábært, um sumartímann sólríkt en ekki of heitt og um hávetur er í versta lagi 10-15 gráðu hiti og rigning á köflum, sem er jú nauðsynlegt fyrir gróðurinn. 

Húsið til vinstri er stóra einbýlið á landinu. Til hægri …
Húsið til vinstri er stóra einbýlið á landinu. Til hægri má sjá þar sem svínastían og hænsnakofinn stóð. Nú hafa þau reist litla húsið sitt þar. Ljósmynd/Aðsend

Það er allt til alls, stutt í alla þjónustu og þess háttar. Við erum eingöngu 15 mínútur að keyra á flugvöllinn í Faro og bara fimm mínútur í næsta smábæ. En við erum samt vel út úr öllum ys og þys. Við fengum eignina á góðu verði og hún býður upp á mikla möguleika. Þar sem það er ekki frjálst leyfi að byggja hvar sem er á eigninni þótti okkur eignin góður valkostur þar sem þrjár byggingar voru nú þegar til staðar, sem við munum svo gera upp í fyllingu tímans. 

Hvað eruð þið búin að gera?

Við erum búin að gera alls konar, en það sér varla högg á vatni því verkefnin eru svo mörg. En brýnast þótti okkur að gera stað sem við gátum sofið á sem allra fyrst til að geta sinnt öllu því sem þarf að gera. Svo fyrsta verkefnið var að breyta gamalli svínastíu og hænsnakofa í lítið „gestahús“ þar sem fer ansi vel um okkur. Til að hita upp húsið á veturna erum við með huggulegan arin og til að nýta plássið sem allra best gerðum við svefnloft. Það rúmar okkur hjónin, barnið og hundinn mjög vel. Húsið er að hluta til hlaðið úr náttúrusteini og málað með lífrænni kalkmálningu. Þar af leiðandi andar það mjög vel og loftgæðin eru einstaklega mikil inni. Það sér líka sjálft um að halda köldu inni þegar heitt er úti og öfugt. Það er mikill skóli að læra hvernig hlutirnir virka í öðru landi, en við höfum fengið frábæra hjálp frá heimamönnum. Þar næst þurfti að huga að klósettaðstöðu en við fórum þá leið að byggja þurrklósett, þar sem úrgangurinn verður nýttur sem áburður seinna meir, vistvænna verður það ekki. Við erum að hugsa þetta allt sama á eins umhverfisvænan hátt og mögulegt er. Einnig erum við aðeins byrjuð að vinna í útisvæðinu þar sem planið er að vera með útieldhús.

Kristrún við óklárað gestahúsið.
Kristrún við óklárað gestahúsið. Ljósmynd/Aðsend

Hver eru skammtímaplönin og hver eru langtímaplönin?

Skammtímaplönin eru að flytja alfarið suður eftir þegar Kristrún hefur lokið námi sínu eftir rúmt ár, vonandi. Þá stefnum við á að halda áfram að gera útisvæðið huggulegt og safna svo fyrir uppbyggingunni á aðalhúsinu. Inni í skammtímaplönum og líklega það fyrsta sem við þurfum að gera næst þegar við förum yfir er að koma rennandi vatni í gang á eigninni. Það er vatn á landinu, en það þarf að gera borholu til að sækja það sem kostar sitt. Svo við þurfum að bíða með það og græja einhverja skammtíma lausn til að byrja með. 

Langtímaplönin eru að gera upp aðalhúsið og byrja að rækta lífræna ávexti og grænmeti og verða sem mest sjálfbær með slíkt og svo bara að njóta lífsins. Við ákváðum þegar við keyptum eignina að til að uppfylla þessa lífsýn sem við höfum varðandi framtíðina okkar þarna, þyrfti þetta allt að gerast fallega, náttúrulega og stresslaust. Þess vegna gáfum við okkur mjög svo raunsæjan tíma, og sögðum að langtímaplanið væri 10 ár. Það þýðir að gestahús, einbýlishús, hljóðver fyrir Axel, vinnustofa fyrir Kristrúnu og verkstæði fyrir okkur bæði yrðu tilbúin. 

Axel og Ylfa í garðinum.
Axel og Ylfa í garðinum. Ljósmynd/Aðsend

Það er í nógu að snúast á eigninni og gríðarmörg verkefni sem bíða okkar, en við erum bara spennt fyrir þeim og erum staðföst í þeirri lífspeki að njóta ferðalagsins frekar en að stefna á einhvern fastan endapunkt. Það er lífstíðarverkefni að hlúa að landinu og tengjast því, enda erum við með einn og hálfan hektara af landi sem þarfnast mikillar ástar. 

Hvernig er að standa í svona framkvæmdum í framandi landi?

Það getur verið erfitt á köflum þar sem við þekkjum ekki vel til stjórnsýslumála og þess háttar og tölum ekki portúgölsku, en við erum með yndislegan lögfræðing sem hjálpar okkur með slíkt, og áðurnefndur vinur okkar býr í 5 mínútna fjarlægð og hann hefur einnig reynst okkur mjög vel. Foreldrar hans hófu sama ferli og við erum að gera núna fyrir tuttugu árum og eiga núna algjörlega glæsilega eign á besta stað. Það var vissulega mikill innblástur að heimsækja þau þegar við fórum fyrst á svæðið og þau sýndu okkur heilu myndaalbúmin með ferlinu sínu, allt frá rústum og hrjóstrugu landi í glæsilegt heimili með vel hirtu landi. Þar sem þau þekkja nú vel til eftir sín tuttugu ár á svæðinu eru þau búin að kynnast ýmsu fólki sem þau kynntu okkur fyrir og margir hverjir hafa hjálpað okkur með okkar byggingu. Algjörlega ómetanlegt. Við sjáum ekki fyrir okkur að allt hefði gengið svona snurðulaust og hratt fyrir sig án þeirra hjálpar. 

Útsýnið til sjávar.
Útsýnið til sjávar. Ljósmynd/Aðsend
Í gestahúsinu þar sem þau hönnuðu svefnloft og stiga en …
Í gestahúsinu þar sem þau hönnuðu svefnloft og stiga en undir þrepunum í stiganum má geyma ýmislegt. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er nágrennið og hvernig hafa heimamenn tekið nýju nágrönnum sínum?

Við erum bara í 5 mínútna fjarlægð frá bæ sem heitir Sao Bras de Alportel, og þar er allt sem hugurinn girnist, allir mjög vinalegir og hjálpsamir. Við höfum einungis einn nágranna, en hann er mjög vinalegur. Axel náði meira að segja á einhvern ótrúlegan hátt að fá hann til þess að steypa í innkeyrsluna hjá okkur þó að hann tali mjög takmarkaða portúgölsku, þannig að það er óhætt að segja að okkur hafi verið tekið opnum örmum! Yfir það heila þykir okkur Portúgalar alveg einstaklega vinalegt fólk og það er svo aðdáunarvert hvað það er gott andrúmsloft alls staðar þar sem maður fer. Það er einhvern veginn ekkert stress og við kunnum svo sannarlega vel að meta það, enda sjáum við fyrir okkur að vera þarna saman í ellinni, gömul og sólbrún hjónin, Kristrún í garðinum að rækta dýrindismat og Axel að smíða og dytta að hlutunum. Það er draumurinn. 

Axel mallar saman steypu á gamla mátann.
Axel mallar saman steypu á gamla mátann. Ljósmynd/Aðsend
Landið er gjöfult. Hér eru möndlur sem Kristrún tíndi.
Landið er gjöfult. Hér eru möndlur sem Kristrún tíndi. Ljósmynd/Aðsend
Og lítil pera.
Og lítil pera. Ljósmynd/Aðsend
Það hafa allir sín verkefni í Portúgal.
Það hafa allir sín verkefni í Portúgal. Ljósmynd/Aðsend
Ylfa Lotta tekur síestu að hætti heimamanna.
Ylfa Lotta tekur síestu að hætti heimamanna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is