Stuð hjá Íslendingum á Spáni

Félagsheimili Íslendinga á Spáni hýsir fjölbreytta starfsemi á borð við …
Félagsheimili Íslendinga á Spáni hýsir fjölbreytta starfsemi á borð við línudans, jóga og spilakvöld. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar hafa loksins eignast eigið athvarf á Spáni. Félagsheimilið, sem hefur fengið nafnið Setrið, opnaði í Orihuela Costa í haust og þar er fjölbreytta starfsemi að finna.

„Að fá fastan samastað breytir öllu varðandi félagsstarf Íslendinga hér á svæðinu. Við höfum verið á vergangi á milli mismunandi staða en getum nú loks hýst alla þá fjölbreyttu starfsemi sem Íslendingar eru með í gangi á einum stað,“ segir Guðmundur Þór Sigurbjörnsson, formaður Íslendingafélagsins á Spáni.

Íslendingar hafa loksins eignast fastan samastað á Spáni en félagsheimilið …
Íslendingar hafa loksins eignast fastan samastað á Spáni en félagsheimilið Setrið opnaði í Orihuela Costa í haust. Um 1.800-2.000 Íslendingar dvelja á Costa Blanca-svæðinu yfir vetrartímann. Ljósmynd/Aðsend

Jóga, bridds og línudans

Setrið er til húsa í útjaðri Orihuela Costa, nánar tiltekið við Calle Isla Formentera 4. Kosturinn við þessa staðsetningu er, að sögn Guðmundar, sá að leiguverð þar er mun lægra heldur en til að mynda á Zenia-svæðinu eða í miðbæ Torrevieja. Strætó keyrir þar fram hjá og næg bílastæði eru við húsið. Húsnæðið, sem Íslendingafélagið leigir undir starfsemina, er 170 fm að stærð og þar er pláss fyrir um 80 manns í sæti. Félagsheimilið er með fastan afgreiðslutíma kl. 13-16 alla virka daga en þá er hægt að koma þar við í kaffi, spjall og grípa í spil. Utan þessa fasta afgreiðslutíma er boðið upp á alls konar viðburði, tónleika og uppákomur á vegum Íslendingafélagsins en eins geta Íslendingar fengið afnot af húsnæðinu undir ýmiss konar starfssemi. Þar eru t.d. jógatímar, briddsdagar, landsleikir sýndir, hljómsveitaræfingar, línudans og söngtímar, svo fátt eitt sé nefnt. Reglulega eru sölutorg haldin þar sem Íslendingar í rekstri geta komið og kynnt þjónustu sína eða selt handverk sitt og listmuni.

Íslendingafélagið á Spáni var stofnað árið 2017 en meginmarkmið þess …
Íslendingafélagið á Spáni var stofnað árið 2017 en meginmarkmið þess er að standa fyrir menningartengdum viðburðum og ferðalögum. Þessi mynd er frá Setrinu þar sem tónlistaruppákomur eru reglulega haldnar. Ljósmynd/Aðsend

Allir Íslendingar velkomnir

Íslendingafélagið á Spáni var stofnað árið 2017 en markmið þess er að bjóða upp á menningartengda  starfsemi í formi skemmtana og ferðalaga fyrir Íslendinga á Spáni.  Guðmundur segir mikinn áhuga vera fyrir starfseminni, sem öll er unnin í sjálfboðavinnu, en 660 manns eru í félaginu. Meðalaldur félagsmanna er 65 ár. Guðmundur ítrekar að ekki er nauðsynlegt að vera félagsmaður í Íslendingafélaginu til þess að taka þátt í því sem boðið er upp á í Setrinu, félagsheimilið er opið öllum Íslendingum hvort sem þeir búa á Spáni eða eru þar á ferðalagi. „Viðtökurnar við félagsheimilinu hafa verið framar vonum og fólk bíður í ofvæni eftir næstu viðburðum,“ segir Guðmundur en auk þorrablóts, árshátíðar og annarra stórra árlegra viðburða eru ýmsar nýjungar á döfinni eins og trúbadorakvöld o.fl.

Lífið byrjar fyrst á Spáni

Að sögn Guðmundar fer þeim Íslendingum fjölgandi sem kjósa að búa alfarið eða meirihluta ársins á Spáni og hafa margar barnafjölskyldur bæst í hópinn. Ástæðurnar segir hann vera mismunandi en vissulega séu lífsgæðin önnur á Spáni en á Íslandi og tækifærin ótalmörg fyrir hreyfingu og skemmtun. „Ég reikna með að um 1.800 — 2.000 manns séu hér á Costa Blanca svæðinu yfir vetrartímann, enda byrjar lífið fyrst fyrir alvöru á Spáni. Ég var allt of lengi að uppgötva það að lífið snýst um svo margt annað en vinnu.“

Landsleikir eru sýndir í Setrinu, félagsheimili Íslendinga á Spáni.
Landsleikir eru sýndir í Setrinu, félagsheimili Íslendinga á Spáni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert