Snákaplága á Kanarí

Ekki er líklegt að ferðamenn rekist á snákana á ferðum …
Ekki er líklegt að ferðamenn rekist á snákana á ferðum sínum um Gran Canaria þar sem þeir halda sig að mestu neðanjarðar. Þeir eru hvorki eitraðir né hættulegir mönnum. Ljósmynd/Dreamstime.com_Erllre

Undanfarin ár hafa yfirvöld á Gran Canaria staðið fyrir aðgerðum til að hefta útbreiðslu á Kaliforníu konungssnáknum (Lampropeltis californiae) á eyjunni. Þrátt fyrir að þessi snákategund sé hvorki eitruð né hættuleg fólki geta snákarnir hinsvegar haft mikil áhrif á lífríki eyjunnar, sérstaklega á smáfugla og eðlur.

Fjölga sér hratt

Kaliforníu konungssnákurinn hefur verið vinsælt gæludýr víða um heim, líka á Kanaríeyjum. Snákar af þessari tegund hafa sloppið frá eigendum sínum eða eigendur þeirra hafa losað sig viljandi við þá með því að hleypa þeim út í náttúruna. Þar sem veðurfarið á Kanarí er mjög líkt veðurfarinu í þeirra náttúrulegu heimkynni þrífast þeir vel villtir.  Á Kanaríeyjum eiga snákarnir sér enga náttúrulega óvini og hafa því náð að fjölga sér hratt og er nú talið að þeir telji þúsundum.  Hafa yfirvöld áhyggjur af þessu þar sem stór hætta er talin á því að snákarnir nái að útrýma litlum eðlum sem lifa villtar í náttúru Kanaríeyja. Snákarnir hafa því verið bannaðir á eyjunni síðan 2011. 

Dýraathvarfið Cocodrilo Park hefur tekið eitthvað af þeim snákum sem …
Dýraathvarfið Cocodrilo Park hefur tekið eitthvað af þeim snákum sem fundist hafa á eyjunni að sér. Gestir geta fengið að virða suma þeirra fyrir sér í nágvígi. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Lifa neðanjarðar

Snákarnir hafa fundist víða á Gran Canaria en einnig á Tenerife. Samkvæmt Canarynews hafa yfirvöld fangað um þúsund snáka það sem af er þessu ári á Gran Canaria en aðgerðir hafa aðallega beinst að svæðinu á milli  La Solada (Telde) og San Roque (Valsequillo),  Montaña de Amagro (Gáldar), Montaña La Data (San Bartolomé de Tirajana) og Barranco de Guiniguada (Las Palmas de G.C). Þó vel hafi veiðst af snákum í ár er  talið að það sé bara toppurinn á ísjakanum. Talið er að fjöldi þeirra sé gríðarlegur enda lifa þeir að miklu leyti neðanjarðar og því ekki svo auðvelt að finna þá. 

mbl.is