Knattspyrnuhetjan Hörður Björgvin mælir með Moskvu

Hörður Björgvin Magnússon ásamt Móeiði Lárusdóttur og hundinum Tangó. Ljósmyndin …
Hörður Björgvin Magnússon ásamt Móeiði Lárusdóttur og hundinum Tangó. Ljósmyndin er tekin í Moskvu. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Knattspyrnumaðurinn Hörður Björgvin Magnússon er búsettur í Moskvu, í Rússlandi, þessa dagana þar sem hann spilar með CSKA í borginni. Lífið gengur vel að hans sögn en hann hefur verið að jafna sig af meiðslum að undanförnu. Hann segir að heimilislífið gæti ekki verið betra með kærustu sinni Móeiði Lárusdóttur og hundinum Tangó. 

Hann mælir með matnum, menningunni og fótboltanum í Moskvu sem hann segir þokkalegan. Að enginn verði svikinn af því að kíkja þangað. 

Hvað er skemmtilegast að gera í borginni þinni?

„Moskva er full af menningu. Það er eitthvað fyrir alla hérna. Frábærir veitingastaðir, skemmtigarður, listasöfn og svo stærsti verslunarklasi Evrópu og óhætt að segja að manni leiðist aldrei lífið hér.“

Áttu þér upp­á­haldsveit­inga­hús?

„Já ég verð að nefna Novikov sem er rússneskur veitingastaður sem margir kannast þó við í London. Hann býður upp á ótrúlega fjölbreyttan og góðan mat, sem hentar öllum. Veitingahúsið White Rabbit er einnig á topplistanum en þar getur maður séð yfir borgina og notið stórkostlegs útsýnis á meðan maður borðar góðan mat.“

Áttu þér upp­á­haldsversl­un?

„Aviapark er staður sem ég mæli með fyrir ferðamenn. Það er stærsti verslunarklasi Evrópu eins og ég nefndi. Það er hægt að finna allt milli himins og jarðar þar.“ 

Hvernig mynd­ir þú eyða drauma­deg­in­um í borg­inni?

„Hinn fullkomni dagur byrjar snemma. Við förum með Tangó í garðinn, leyfum honum að fá smá útrás þar áður en við kíkjum í miðborgina í hádegisverð. Dagurinn getur oft breyst, það er enginn eins og ef við erum með fólk hjá okkur þá förum við á staði þar sem útsýnið fær að njóta sín. Annars kíkjum við í verslanir og stundum er eitthvað um að vera eins og körfuboltaleikir, íshokkí, tónleikar eða því um líkt. Það er áhugvert að velja það sem er spennandi hverja stundina og spilum við það svolítið eftir eyranu eftir hádegið. Það er fjölbreytileiki og ýmislegt gert á fullkomnum degi.“

Hvað ein­kenn­ir mat­ar­gerðina á þínu svæði?

„Hún er aðeins öðruvísi. Ég mæli með að fólk kynni sér rússneska matargerð, hún er mjög ólík þeirri sem við höfum heima. Ég hef smakkað fjölmarga rússneska rétti en ég kýs auðvitað það íslenska frekar. Í stórborgum er svo margt í boði, svo ég er ennþá að fikra mig áfram með matinn hér.“

Hvað kom á óvart við flutn­ing­ana út á sínum tíma?

„Það var voðalega lítið sem kom mér á óvart þannig séð. Ég er vanur því að búa erlendis og það er flest hætt að koma manni á óvart þessu tengt. Það er ólík menning hvert sem maður fer. Rússland hentar okkur rosalega vel og mæli ég eindregið með Moskvu.“  

Hvað sakn­arðu helst frá Íslandi?

„Ætli það sé ekki fjölskyldan og vinirnir einna helst. Síðan fylgir íslensk matargerð þar fast á eftir. Ég fæ samt litla sem enga heimþrá, því það er hægt að gera svo margt í Moskvu. Umhverfið hér er rosalega vinalegt.“

Hvað mæl­ir þú með fyr­ir karlmenn á þínum aldri að gera í borginni þinni?

„Karaoke-barir er aðalmálið fyrir góða menn að mínu mati. Það er svakalega vinsælt og næturlífið hér er öflugt. Það er nóg af menningu og list í borginni og sögulegum stöðum sem gaman er að skoða. Ég mæli með Tetyakov safninu sem er mjög vinsælt.“

View this post on Instagram

A post shared by HÖRÐUR BJÖRGVIN MAGNÚSSON (@hordurmagnusson) on Jul 11, 2018 at 11:56am PDT

Hvað er gam­an fyr­ir fjöl­skyldu­fólk að gera í borginni?

„Gorky Park er mjög vinsæll garður fyrir fjölskyldufólk og mikið af leiksvæðum fyrir börn og fullorðna þar. Svo auðvitað Avia-park verslunarklasinn. Það er hægt að skoða allar frægu kirkjurnar eins og St. Basil og svo er gríðarlegt magn af svona látbragðsleikurum á götum Moskvu-borgar.“

View this post on Instagram

Winter is here ❄️🌨

A post shared by HÖRÐUR BJÖRGVIN MAGNÚSSON (@hordurmagnusson) on Nov 21, 2018 at 7:30am PST

Hvað ættu all­ir að kaupa í heim­sókn til borg­ar­inn­ar?

„Er ekki klassískt að kaupa Babushka? Það hafa flestir gaman af því. Síðan má alltaf kaupa pels hér og góða Sovíetríkja-húfu svo mæli ég með jafnvel tandurhreinum vodka fyrir þá allra hörðustu.“  

Hvað ættu ferðamenn að var­ast?

„Það eru strangar reglur á götum Rússlands. Þetta er ekki eins og að vera heima á Íslandi. Þannig ég mæli með því að kynna sér hlutina áður en farið er til Rússlands og að haga sér vel. Þá gengur allt vel hér.“ 

Hvað er eft­ir­sókna­vert í við staðinn sem þú býrð á? 

„Það er svo gríðarlega mikið. Maturinn, menningin og þokkalegur fótbolti ef ég segi sjálfur frá. Skoða Kremlin og njóta bara. Það er ekki erfitt að gera mér til geðs, en Moskva er nú þegar ein uppáhaldsborgin mín og fólk er ekki svikið að kíkja þangað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert