Ódýrast að bóka hótel samdægurs

Þú getur sparað 10-20% með því að bóka hótel samdægurs.
Þú getur sparað 10-20% með því að bóka hótel samdægurs.

Skipulögðustu ferðamennirnir vilja helst bóka hótel á sama tíma og þeir bóka flug. Þessir skipulögðustu reyna eflaust líka að spara þegar þeir bóka sér flug og fylgjast vel með verði hjá helstu flugfélögum áður en þeir halda í frí. 

Ekki gildir þó sama lögmál um flugmiða og hótelherbergi. Verðkannanir sýna nefnilega að hótel eru ódýrust séu þau bókuð samdægurs. Flugmiðar verða yfirleitt dýrari því nær sem dregur brottfarardegi og hækkar verðmiðinn á þeim sætum sem eftir eru í vélinni hratt. Það er öfugt með hótelherbergi, því þeir sem reka hótel vilja frekar fá minna fyrir herbergin heldur en ekkert. 

Hótelherbergi eru að meðaltali 10% ódýrari samdægurs, en þau voru daginn áður. Ef þú bókar eftir klukkan fjögur síðdegis geturðu svo jafnvel bætt 5—10% ofan á það. 

Það er ýmislegt sem hangir þó á spýtunni. Þetta hentar ekki þeim sem vilja vera algjörlega pottþéttir með ferðalagið sitt eða fyrir þá sem eru að ferðast margir saman. Að bóka hótel samdægurs krefst ákveðins sveigjanleika og áhættu. Ef þú vilt vera alveg öruggur um að fá herbergi á góðum stað í borg skaltu ekki nýta þér þetta ráð. Þetta ráð er heldur ekki gott ef þú ert að fara á fjölmennan viðburð í borginni, til dæmis íþróttaviðburð eða tónleika. 

Þetta hentar hins vegar þeim sem eru sveigjanlegir, ekki alveg búnir að negla niður ferðalagið og opnir fyrir fjölbreyttum stöðum. Það eru nokkrar síður sem sérhæfa sig í sölu á hótelherbergjum samdægurs, t.d. Lastminute.com og HotelTonight.

Þeir sem treysta sér ekki í að bóka hótelið samdægurs ættu hins vegar að skoða hvaða daga er ódýrast að bóka hótel. Verðkannanir sýna að lægsta verð á hótelherbergjum fæst þegar bókað er á sunnudögum eða mánudögum. Þar er lögmálið líka öfugt miðað við flugin, en dýrast er að bóka flug á sunnudögum. 

Til þess að gera ferðina svo sem ódýrasta er líka gott að huga að því hvaða dögum vikunnar þú ætlar að ferðast á. Í stað þess að fara í helgarferð frá föstudegi til sunnudags ættirðu að reyna að fara frekar frá laugardegi til mánudags. Dýrustu næturnar á hótelum eru yfirleitt föstudags- og laugardagsnætur. Sunnudagsnætur eru að meðaltali 30% ódýrari. Þannig gætir þú sparað í bæði flug og hótel, þar sem þú sleppur við að bóka föstudagsnótt á hóteli og bóka flug á sunnudegi. 

mbl.is