Svali segir bara bull að það sé allt ódýrara á Spáni

Jóhanna og Svali búa á Tenerife.
Jóhanna og Svali búa á Tenerife.

Sigvaldi Kaldalóns eða Svali eins og hann er kallaður er búinn að búa á Tenerife í tæplega tvö ár. Hann segir að það sé ekki eins ódýrt að búa á Tenerife eins og fólk heldur. 

„Tvö sent í umræðuna um hvað allt sé ódýrt annarstaðar en á Íslandi. Ef við skoðum kaupmátt á Tenerife vs Ísland að þá kemur í ljós að ótrúlega margt er mikið, mikið, mikið, mikið dýrara hér fyrir Tenerife búa á Tenerife heldur en fyrir Íslendinga á Íslandi.
Hefðbundin vinna á Tenerife 1000 til 1200 evrur á mánuði miða við 8 tíma vinnudag. Hér er leigan á ódýru svæði fyrir fjölskyldu kannski 500 evrur til 600 evrur á mánuði. Bensín líter kostar um evruna (137kr). Það er mikið dýrara fyrir heimamanninn hér en Íslendinginn á Íslandi að kaupa bensín. Hér kostar t.d nýr iPhone 11 pro (dýrasta týpa) 1640 evrur. Töluvert meira en mánaðarlaun hjá meðallauna manneskju. Veit ekki til þess að þú borgir meira en 550 þúsund (sem eru meðallaun á klakanum) fyrir iPhone. Það sem er hinsvegar ódýrara er t.d að kaupa í matinn, vín, fara út að borða, fara í ferðalög og þess háttar,“ segir Svali á Facebook-síðu sinni.

Hann bendir á að fólk hafi það mjög gott á Íslandi. 


„Við erum velmegunar þjóð á ótrúlega margan hátt. Helsti kosturinn finnst mér vera hvað við erum fá, við ættum að vera frakkari í prófa og máta hlutina og notfæra okkur það hvað við erum fá. Það er flóknara að vera í margra milljónamanna samfélagi og ætla breyta einhverju. Auðvitað margt að sem má laga, en lífið er ekki alltaf betra annarstaðar það er alveg ljóst. Það er gott að vera Íslendingur í útlöndum hvað varðar verðlag, gott að njóta þess á meðan krónan er sterk.

mbl.is