Jasmín Dúfa Pitt lærir leiklist í Oxford

Jasmín Dúfa Pitt er búsett í Oxford um þessar mundir.
Jasmín Dúfa Pitt er búsett í Oxford um þessar mundir. Ljósmynd/Aðsend

Jasmin Dúfa Pitt er í Oxford School of Drama í Bretlandi að læra leiklist. Hún flutti utan fyrir rúmum tveimur árum, fyrst bjó hún eitt ár í London þar sem hún stundaði nám við LAMDA-leiklistarskólann áður en hún fór í skólann í Oxford sem er mikill námsbær. 

„Borgin er annáluð fyrir Oxford-háskóla, sem er elsti háskólinn í enskumælandi landi. Hér búa 152.527 manns og þar af er talið að yfir 33.000 séu námsmenn, svo borgin er stútfull af lífi. Borgin er einnig þekkt fyrir byggingarlist og áin Thames rennur í gegnum hana þvera.“

Hvernig er heimilislífið?

„Ég bý í mjög krúttlegri íbúð í Summertown sem er hverfi í Oxford. Ég bý með tveimur bekkjarsystrum mínum og er heimilislíf okkar heldur gott. Við erum í skólanum frá rúmlega átta á morgnana til sex alla daga og svo eyðum við yfirleitt bara kvöldunum okkar heima. Við skiptumst á að elda fyrir hver aðra hádegis- og kvöldmat en við pöntum matinn okkar af netinu. Þetta gerum við í stað þess að fara í búð og burðast með fullt af pokum heim. Maður velur bara í körfuna inni á Morrisons og þú færð pokana senda til þín heim að dyrum. Það er voðalega notalegt. Með þessu náum við að spara fullt og þar sem við erum allar grænmetisætur hentar þetta okkur vel. Það er ótrúlega gott að leigja íbúð með góðum vinkonum sem eru að ganga í gegnum það sama og þú hvað varðar námið. Við erum duglegar að passa upp á hver aðra og gera vel við okkur þá daga sem minna er um heimanám og slíkt.“ 

Jasmín Dúfa Pitt er mikið fyrir að fara í langa …
Jasmín Dúfa Pitt er mikið fyrir að fara í langa göngutúra þar sem hún skoðar í verslanir og fær sér gott kaffi, á milli þess sem hún lærir utanbókar efni fyrir leiklistartímana sína. Ljósmynd/Aðsend

Hvað dreymir þig um að gera í framtíðinni?

„Þar sem ég er að klára leiklistargráðuna mína eftir um það bil tvö ár vonast ég til að geta lagt leiklistina fyrir mig að fullu. Ég er mjög meðvituð um að þessi bransi er krefjandi og erfitt að komast að þar sem það er mikið framboð af góðum leikurum. En maður verður að leyfa sér að dreyma stórt. Ég stefni á að halda kyrru fyrir í London eftir að ég útskrifast en draumurinn er að geta tekið að mér íslensk verkefni sem og erlend. Mig dreymir líka um að leikstýra örlítið eftir því sem ég verð eldri en við skulum sjá hvernig það fer. 

Ef ég ætti að nefna eitthvað sem er ekki tengt leiklistinni, þá hefur mig alltaf langað að ferðast og þá sérstaklega um Asíu. Það hefur verið draumur hjá mér að hverfa inn í lítinn bæ einhvers staðar langt í burtu þar sem ég gæti stundað jóga, lesið og skoðað náttúruna. Ég hef hins vegar valið mér feril sem býður ekki endilega upp á það strax.“ 

Hvað er skemmtilegast að gera í borginni þinni?

„Það er nóg að gera í Oxford. Þegar ég heimsótti Oxford fyrst minnti hún mig aðeins á Róm, arkitektúrinn í borginni er ákaflega fagur og frá hinum ýmsu tímabilum í sögu Bretlands. Ég er mikið fyrir fallegt umhverfi og ég held að það sem ég elski mest við Oxford sé hversu fullkomin blanda af stórborg og sveit hún er. Þar sem áin Thames rennur í gegnum hana þykir mér skemmtilegast að fara í langan göngutúr um Oxford. Það eru ótrúlega margar fallegar gönguleiðir sem fara í gegnum græn svæði og votlendi. Aðrar gönguleiðir eru svo meðfram ánni og fallegum trjágörðum. Að stoppa við í kaffihúsi, sem eru fjölmörg á þessu svæði, og fá sér rjúkandi heitan bolla af kaffi og ganga svo eina af þessum gönguleiðum er draumur. Fullkomin leið til að læra línurnar sínar og láta hugann reika í friði.“  

Ferðamenn heimsækja Oxford meðal annars til að skoða Oxford-háskóla sem …
Ferðamenn heimsækja Oxford meðal annars til að skoða Oxford-háskóla sem er í fjölda bygginga á svæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér upp­á­haldsveit­inga­hús?

„Það geri ég svo sannarlega. Það er vert að segja frá því að það eru nokkrir staðir sem koma til greina, en uppáhaldsstaðurinn heitir Gee’s. Hann er staðsettur í Summertown og greip mig fyrst vegna þess að hann er byggður inn í stórt Victorian-gróðurhús sem er lýst upp á kvöldin með ljósaseríum. Ég varð alveg dolfallin af hversu ævintýralegur hann var í vetrarmyrkrinu svo ég fór þangað fyrst á afmælinu mínu í janúar. Maturinn er í anda Miðjarðarhafsins, bæði ítalskur og spænskur og mikið af grænmetinu sem boðið er upp á er ræktað á staðnum.

Það er mikið um góðan mat í Oxford.
Það er mikið um góðan mat í Oxford. Ljósmynd/Aðsend

Matseðillinn breytist svo eftir árstíðum svo þú færð alltaf ferskasta hráefnið. Persónulega finnst mér algjör draumur að sitja inni í gróðurhúsi, sem er stútfullt af plöntum og ólívu-trjám. Ljósin frá ljósaseríum gera stemninguna einstaka, sér í lagi þegar kalt er úti og stjörnurnar áberandi á kvöldin. Á meðan maður borðar gómsætan mat. Ég get hiklaust mælt með þessu fyrir alla.“

Áttu þér upp­á­haldsversl­un?

Oxford er hvað þekktust fyrir mikið af verslunum sem bjóða upp á tímabilsfatnað (e. second hand/vintage/charity shops). Nánast allt sem ég kaupi er þannig fatnaður. Það er ein hrikalega krúttleg góðgerðarverslun, nokkrar mínútur frá íbúðinni minni sem selur hina ýmsu gripi á nánast engan pening og á ég það til að kíkja þar við alla vega einu sinni í viku. 

Annars er mín helsta uppáhaldsverslun staðsett í Cowley sem er eitt af hverfunum í Oxford og heitir hún Reign. Þessi búð selur einvörðungu notaðar ítalskar flíkur. Hún er aðeins dýrari en allar góðgerðarbúðirnar en hún selur algjörar perlur. Ég hef keypt mér allnokkrar flíkur þar sem eru mér mjög kærar. 

Svo er einnig matvöruverslunin Wild Honey sem við vinkonurnar kíkjum oft við í fyrir betra lífrænt súkkulaði og vegan osta og alls konar góðar hreinsivörur.“ 

Hvað ein­kenn­ir mat­ar­gerðina á þínu svæði?

„Þú getur fundið allar gerðir af mat í Oxford. Veitingastaðirnir eru endalausir. Það sem mér dettur þó helst í hug er pöbbamenningin, en hún á ekki bara við um Oxford heldur Bretland almennt. Maður lýsir þessari stemningu helst þar sem fólk mætir í „late sunday roast“ sem þú skolar niður með „pint“ af bjór, eða bara eftir vinnu í spjalli með vinum yfir „pint“ af bjór. „Afternoon high tea“ er líka gömul konungleg bresk hefð og fiskur og franskar, sem er alltaf klassískt og fæst á öllum krám í Oxford.“

Hvað kom á óvart við flutn­ing­ana út á sínum tíma?

„Ef ég á að segja blákaldan sannleikann þá kom mér á óvart hversu lítið ég saknaði Íslands. Ég kunni rosalega vel við að hverfa bara svolítið inn í nýja borg stútfulla af alls konar heimshornum sem og hversu spennt ég var að kynnast breskri menningu. Námið kom aðeins á óvart líka. Ég man að ég var sú eina í bekknum sem hafði varla kynnst Shakespeare að nokkru leyti. Það var því heldur yfirþyrmandi að læra langar Shakespeare-ræður á bresku.  Leiklistarnám er þó nám sem ég held maður verði aldrei almennilega 100% öruggur með, það er alltaf verið að henda manni út fyrir þægindarammann og því er alltaf eitthvað að koma manni á óvart.“ 

Hvers saknarðu helst frá Íslandi?

„Fjölskyldunnar og vina. Ég á alveg frábæra fjölskyldu sem ég er í miklu sambandi við og sakna mikið. Maturinn hans pabba er líka mikill missir þótt ég vilji meina að ég erfi mögulega eitthvað af hans getu í eldhúsinu.

En svo auðvitað náttúrunnar. Ég áttaði mig ekki á því hversu brjálæðislega heppin við erum með náttúruna á Íslandi fyrr en ég flutti út. Að geta keyrt í rúman klukkutíma til þess að ganga upp á nýtt fjall einu sinni í viku er draumur. Ég sakna líka norðurljósanna, ferska vatnsins og hreina loftsins. Vetrarsnjórinn á Íslandi er einnig dásamlegur enda Ísland mikil perla.“ 

Hverju mæl­ir þú með fyr­ir stúlkur á þínum aldri til að gera í borginni þinni?

„Að kaupa sér tímabilsfatnað. Alveg hiklaust. Það er allt fullt af einstökum þannig verslunum. Það er einnig frábær markaður við George Street í miðborginni allar helgar með alls konar mat héðan og þaðan, fötum og húsgögnum sem ég elska og mæli með. Ég mæli með að velja eitt af mörgum sætum kaffihúsum sem þar eru og göngutúr meðfram ánni!“

Hvað er gam­an fyr­ir fjöl­skyldu­fólk að gera í borginni?

„Það er svo margt að gera í Oxford. Það eru mörg skemmtileg söfn, verslanir, leikhús, kvikmyndahús og veitingastaðir. Þegar fjölskyldan mín kíkti til mín fórum við á nokkur skemmtileg söfn, fengum okkur síðdegiste sem er alltaf í uppáhaldi hjá mér. Það er líka hægt að fara á gondóla um Thames sem er mjög rómantísk og viðeigandi á fallegum sumardegi.  Ég myndi svo mæla með að skoða Oxford-háskóla þar sem skólinn er mikið sjónarspil og ekki má gleyma að hluti af Harry Potter-kvikmyndunum var tekinn þar upp sem kann að vera vinsælt.“ 

Dæmigerð gata í Oxford.
Dæmigerð gata í Oxford. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er eft­ir­sókna­vert í við staðinn sem þú býrð á?

„Flestir ferðamenn koma að sjá Oxford-háskóla sem samanstendur af 38 byggingum sem staðsettar eru hér og þar um Oxford. Þar á meðal er Christ Church og Magdalen sem eru flottustu byggingarnar. En svo eru margar minni sjarmerandi byggingar líka. Þegar fólk hefur skoðað háskólann sækir það í söfn, listagallerí og Victorian Covered Market, sem er áhugaverður markaður í miðri Oxford.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert