Viltu eignast hús á Ítalíu ókeypis?

Bærinn Cammarata er afskaplega fallegur.
Bærinn Cammarata er afskaplega fallegur. skjáskot/Instagram

Ítalski bærinn Cammarata á Skiley reynir nú að laða til sín fólk með því að bjóða upp gömul hús í bænum án endurgjalds. 

Yfir 100 hús í gamla bænum í Cammarata standa nú auð og hefur bæjarstjórinn, Vincenzo Giambrone, sannfært fyrrum eigendur sem fluttir eru í burtu að gefa húsin sín til nýrra eigenda. 

Nú þegar eru 12 hús í boði en sagði Giambrone í viðtali við CNN að hann vonaðist til þess að fleiri hús verði í boði í náinni framtíð. 

Með því að taka við húsunum án endurgjalds skuldbinda nýjir eigendur sig til þess að endurbæta húsin innan þriggja ára. Einnig þurfa þeir að greiða 5 þúsund evrur í tryggingu, sem fæst endurgreidd þegar húsið hefur verið endurbætt. 

Allir geta sótt um hús í bænum, en ungar barnafjölskyldur ganga fyrir. Þær barnafjölskyldur sem ákveða að flytja í bæinn fá svo 1000 evrur í bónus. 

mbl.is