Ódýrara að ferðast frá laugardegi til mánudags

Sunnudagsnætur-reglan á ekki við í Las Vegas.
Sunnudagsnætur-reglan á ekki við í Las Vegas. Ljósmynd/WikiCommons

Verðsamanburður á bæði á hótelherbergjum og flugfargjöldum gefur til kynna að mun hagstæðara er að fara í helgarferð frá laugardegi til mánudags. 

Eðli málsins samkvæmt eru helgarferðir vanalega frá fimmtudegi eða föstudegi og fram á sunnudag. Ferðavefur hins virta New York Times dregur það hinsvegar í fram að töluvert hagstæðara getur verið að fara í helgarferð frá laugardegi og fram á mánudag. 

Föstudags og laugardagskvöld eru þau kvöld vikunnar sem mest er að gera á hótelum. Sunnudagsnætur eru svo þær nætur sem minnst er bókað. Þeir sem fóru í helgarferð fara heim á sunnudögum og þeir sem fara í vinnuferð mæta ekki fyrr en á mánudag. Þar af leiðandi er sunnudagsnótt að meðaltali 30% ódýrari en aðrar nætur. 

Laugardagar eru svo ekki mjög vinsælir ferðadagar, því eru færri á ferðinni og fargjaldið getur einnig verið lægra. Samkvæmt New York Times er ferð farin frá laugardegi fram á mánudag að meðaltali 10% ódýrari en ferð frá föstudegi til sunnudags, innan Bandaríkjanna.

Þegar flug er bókað á mánudegi þarf þó að passa tímasetninguna. Þeir sem eru á leið í vinnuferð fara vanalega með morgunflugi. Því er morgunflug mun dýrara heldur en flug um miðjan dag. 

Þessar reglur eru þó ekki alveg algildar og þarf að taka tillit til stórhátíðadaga og eðli áfangastaðarins. Til dæmis á þessi regla ekki við um borgina Las Vegas í Bandaríkjunum þar sem iðulega eru haldnar stórar ráðstefnur. 

mbl.is