Portúgal að hætti Villa Neto

Villa Neto finnst gott að vera í Portúgal.
Villa Neto finnst gott að vera í Portúgal. Ljósmynd/Þórhildur Kristjánsdóttir

Leikarinn Vilhelm Neto er hálfur Portúgali og hálfur Íslendingur. Faðir hans er frá Portúgal en móðir Vilhelms eða Villa eins og hann er kallaður kynntist föður hans í bænum Coimbra í Portúgal. Villi ólst upp í litla bænum Figueira da Foz áður en hann fluttist til Íslands. 

„Ég reyni að kíkja á veislur hjá fjölskylduvinum og ættingjum. Auk þess að fá magnaðan mat er stemningin alltaf einstök. Ég reyni einnig að kíkja á markaði, maður finnur svo ótrúlega margt og heyrir svo ótrúlegar sögur frá fólkinu sem vinnur þar,“ segir Villi þegar hann er spurður að því hvað hann geri þegar hann bregður sér í heimsókn heim til Portúgal. 

Markaðurinn í Figueira da Foz en þar ólst Vilhelm Neto …
Markaðurinn í Figueira da Foz en þar ólst Vilhelm Neto upp. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsborg í Portúgal? 

„Porto er uppáhaldsborgin mín en auk þess að vera einstaklega falleg býður hún upp á magnaða matarmenningu. Ég mæli þá sérstaklega með samlokunni francesinha sem á rætur að rekja þangað. Hún er algjört hjartaáfall en mögnuð samloka samt sem áður. Svo má ekki gleyma að drekka eins mikið porto (púrtvín) og maður getur á meðan maður heimsækir landið. Lello-bókasafnið heillar fólk alltaf upp úr skónum vegna arkitektúrsins en ég er alltaf sérstaklega heillaður af Carmo-kirkjunni.“

Eru einhverjar leyndar perlur í Portúgal? 

„Ég myndi segja að allir þessir litlu bæir sem eru úti um allt séu miklar perlur, það er alltaf eitthvað við hvern bæ. Ef ég ætti að nefna eitthvað þá er Monsaraz-bærinn algjör draumur upp á rólegheitin að gera og að njóta þess að sjá þessi týpísku portúgölsku hvítu hús með appelsínugulu þökunum. Joanina-bókasafnið í Coimbra-háskólanum er líka ótrúleg bygging með mikla sögu sem ég mæli með að fólki kynni sér, allt mjög heilagt þarna inni en mjög róandi um leið.“

Gatan er í Figueira da Foz.
Gatan er í Figueira da Foz. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi að borða og drekka í Portúgal?

„Eins og ég nefndi áður þá er porto og francesinha ómissandi. Í Porto er einnig hægt að finna svínasamlokur í Casa Guedes sem eru eins og úr öðrum heimi. Hins vegar fyrir fólk sem er á grænmetisfæðu er algjört möst að reyna að finna ekta portúgalska ólívuolíu, bara það með brauði getur verið algjör draumur, annar réttur er baunaréttur sem heitir favas guisadas sem ég sakna alveg gríðarlega mikið. Í eftirrétt á alltaf að muna að hann á að vera einfaldur. Einn espressó og ein pastel de nata, lítil vanilluterta sem Portúgalar hafa gjörsamlega fullkomnað.“

Er eitthvað í menningu Portúgala sem þú saknar þegar þú ert á Íslandi? 

„Ég sakna stemmningarinnar, hún er öðruvísi. Í Portúgal er auðveldara að fá sér kannski lítinn bjór, sitja úti og tala endalaust. Svo kannski pantar maður einn og einn bjór, eða einn og einn kaffibolla. Ég sakna einnig markaðs- og prúttmenningarinnar sem er erfiðara að finna á Íslandi. Ég hef farið að versla með pabba og lært endalaust um líf fólks sem einhvern veginn tengir mann og hjálpar manni að verða meðvitaðri um fjölbreytt líferni og vandamál fólks.“

Flestir heimsækja Portúgal á sumrin en hvernig er landið á veturna?

„Kannski svona eins og Ísland í maí? Fer samt eftir hvar maður er í Portúgal, veðrið getur verið mjög mismunandi eftir borgum.“

Hér sést maður rista kastaníuhnetur sem er jólamatur í Portúgal.
Hér sést maður rista kastaníuhnetur sem er jólamatur í Portúgal. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert