Flugmaður í banni vegna gests í flugstjórnarklefanum

Umrædd mynd sem olli flugbanni flugmannsins.
Umrædd mynd sem olli flugbanni flugmannsins. Skjáskot/Weibo

Kínverskur flugmaður hefur verið settur í flugbann eftir að mynd af kvenkyns farþega í flugstjórnarklefanum fór um sem eldur í sinu. BBC greinir frá.

Myndin var tekin í janúar á þessu ári í vél Air Guilin á leið frá Guilin til Yangzhou-borgar samkvæmt kínverskum fjölmiðlum. Henni var deilt á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo en fór ekki á flug um netið fyrr en nú. Því var það ekki fyrr en nú að flugfélagið ákvað að gera eitthvað í málinu. 

Á myndinni sést ung kona stilla sér upp fyrir mynd í flugstjórnarklefanum og fyrir framan hana eru veitingar. Myndin virðist hafa verið tekin í miðju flugi. Í færslunni á Weibo þakkaði konan flugstjóranum fyrir. Henni hefur nú verið eytt út. 

Í tilkynningu frá Air Guilin segir að flugmaðurinn hafi brotið öryggisreglur með því að leyfa konunni að koma inn í flugstjórnarklefann í miðju flugi. Í reglum frá flugmálaráðuneyti Kína kemur fram að óviðeigandi aðgangur sé bannaður að flugstjórnarklefum nema sérstakt leyfi hafi verið gefið eða það sé nauðsynlegt. 

Annað starfsfólk sem var í umræddu flugi hefur verið sett í leyfi frá störfum á meðan málið er í rannsókn. Flugmaðurinn er kominn í lífstíðarflugbann en ekki er ljóst hvort honum hafi verið sagt upp störfum hjá Air Guilin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert