Sakar flugfélag um druslusmánun

Serah Nathan sakar Jetstar um druslusmánun.
Serah Nathan sakar Jetstar um druslusmánun. skjáskot/Twitter

Kona sakar ástralska flugfélagið Jetstar um að að hafa druslusmánað hana eftir að starfsmaður félagsins gagnrýndi klæðaburð hennar og sagði henni að sitja annarsstaðar í flugstöðinni á meðan hún beið eftir flugi á flugvellinum í Sydney.

Konan, hin 33 ára gamla Serah Nathan, var á leið til heimaborgar sinnar Melbourne með Tigerair þegar atvikið átti sér stað. Hún greindi frá atburðarrásinni í þræði á Twitter. Hún segir að hún hafi setið í fangi kærasta síns þegar starfsmaður Jetstar kom að máli við hana.

Nathan og kærasti hennar eru í fjarsambandi og biðu saman eftir flugi hennar til Melbourne. Hún segir að starfsmaðurinn hafi beðið hana um að setjast í annað sæti og haga sér ekki svona fyrir framan börn í flugstöðinni.

Nathan segist hafa setið í fangi hans og snúið að honum. Hún segir að það hafi ekki verið börn nálægt þeim og að þau hafi bæði verið mjög hissa á athugasemd starfsmannsins.

„Ég lét ekki eins og ég væri á strippklúbbi,“ skrifar Nathan í færslu sinni á Twitter. Nokkrum mínútum síðar kom starfsmaðurinn aftur með vaktstjóra á vegum Jetstar sem sagði þeim að hegðun þeirra væri óvirðing og bað þau að færa sig. Nathan segir að starfsmaðurinn hafi bætt við að hún fengi svo áreiðanlega ekki að fara svona klædd um borð.

Nathan birti svo mynd af því sem hún var í, sem voru íþróttabuxur og magabolur. Hún bætir einnig við að hún hafi fundið fyrir rasískum undirtón í orðræðu starfsmannsins. Nathan er frá Sri Lanka og sagði að hvít kona stutt frá henni hafi verið í stuttum kjól, en starfsmaðurinn hafði ekki gert athugasemd við það.

Nathan sendi inn formlega kvörtun til Jetstar á netinu og fékk þau svör að hún væri falleg og að kærastinn hennar væri heppinn að vera með henni. Þjónustufulltrúi Jetstar bætti við að flugvallarstarfsmaðurinn væri líklega umhugað um öryggi annarra á vellinum því hafi hann beðið hana um að setjast í annað sæti.

Í tilkynningu frá Jetstar segir að þau séu að rannsaka málið nánar til að skilja atburðarrásina betur frá sjónarhorni flugvallarstarfsmannanna. „Við viljum biðja Serah afsökunar á skilaboðunum sem þjónustufulltrúi sendi henni í kjölfar kvörtunarinnar, þetta eru ekki mannasiðir sem við ætlumst til af starfsfólki okkar,“ segir í tilkynningu Jetstar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert