Heiðu dreymir um að synda með svínum

Heiða fór til Dúbaí og Abú Dabí með kærasta sínum …
Heiða fór til Dúbaí og Abú Dabí með kærasta sínum og syni þegar sonur hennar var sjö mánaða. Ljósmynd/Aðsend

Aðal­heiði Ýr Ólafs­dótt­ur einkaþjálf­ari, eða Heiðu Óla eins og hún er oftast kölluð, dreymir um að synda með svínum og gista á fimm stjörnu hóteli. Ferðalög á framandi slóðir eru lítið mál fyrir Heiðu svo lengi sem hún er með hárblásarann með sér. 

Þú færð einn flugmiða, hvert sem er í heiminum. Hvert er ferðinni heitið?

„Ef það væri flogið beint á eyju sem heitir Exuma sem er eyja við Bahama þá væri það æði. Það er því miður ekki beint flug þangað og smá bras að komast þangað en ætli ég myndi ekki fljúga til Bahama-eyja og koma mér svo með lítilli flugvél þangað yfir. Það er búið að vera draumur lengi að fara á þessa eyju en hún einnig kölluð Svínaeyjan en þar búa bara svín. Þvílíkt krúttlegt og þau synda. Það er sem sagt draumur að synda með svínum.“ 

Hvar langar þig að gista? 

„Ég gæti ekki gist á Svínaeyjunni þar sem það eru ekki hótel á eyjunni og ekkert þar nema svín. Ég myndi sennilega gista á Nassau sem er önnur eyja á Bahama. Ég myndi bóka fimm stjörnu hótel þar en það eru nokkur frekar flott hótel á Nassau. Ég er mikil hótelmanneskja og elska að gista á fínum hótelum þar sem búið er um rúmin á hverjum degi og vil helst hafa morgunmat innifalinn. Mér finnst svo gaman að geta farið út að borða á kvöldin og prófað alls konar nýja staði.“

Fjölskyldan í eyðimörkinni.
Fjölskyldan í eyðimörkinni. Ljósmynd/Aðsend

Hver er besta ferðaminningin þín?

„Ég verð að segja fríið sem ég fór í með kærastunum mínum og litla pollanum okkar þegar hann var sjö mánaða til Abú Dabí og Dúbaí. Við vorum eina viku á hóteli í Abú Dabí og eina viku í Dúbaí. Þetta var alveg dásamlegt frí, mikil upplifun að koma á þessa staði, algjört ævintýri, allt svo hreint og fallegt þar. Eitthvað sem ég mun aldrei gleyma.“

Skothelt ráð fyrir ferðalagið?

„Ég mæli með því ef þið eruð að ferðast með ungabörn að eiga burðarrúmið Sleep Carrier frá Najell sem fæst til dæmis í Petit. Við tókum það með í flugvélina. Við lögðum borðin fyrir framan okkur niður og létum son okkar sofa í burðarrúminu. Það er einnig hægt að nota það í öðrum rúmum eða til dæmis taka með á ströndina.

Burðarrúmið kom sér vel í flugvélinni.
Burðarrúmið kom sér vel í flugvélinni. Ljósmynd/Aðsend

Ég mæli svo með að pakka vel, ég elska lítil ferðaílát fyrir til dæmis sjampó og svoleiðis. Ég mæli líka með að reyna að hafa eins lítinn handfarangur og hægt er, ferðast alltaf þægilega, helst í íþróttagalla og léttum strigaskóm. Ég elska svo að ferðapungar séu í tísku núna en ég er búin að ferðast með þannig veski í nokkur ár, nenni ekki að vera með þungt veski.“

Hvaða fimm hlutum má alls ekki gleyma að pakka?

„Hárblásaranum mínum því ég treysti aldrei á að hárþurrkur á hótelum ráði við hárið á mér. Heyrnartólum og einhverju góðu til að horfa á ef það er ekki sjónvarp í flugvélinni, handspritt, sólarvörn og blettahreinsipenna ef ferðast er með barn.“

Heiða Óla.
Heiða Óla. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is