Bestu ódýru hótelin í Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn er yndisleg borg.
Kaupmannahöfn er yndisleg borg. Ljósmynd/roughguides.com

Það getur verið vandasamt að finna hinn gullna meðalveg hvað varðar verð og gæði þegar kemur að hótelum. Kaupmannahöfn hefur löngum verið vinsæll áfangastaður Íslendinga og margir sem skella sér þangað í stutta helgarferð eða til þess að heimsækja vini og ættingja sem búa í borginni dönsku. 

Breski fjölmiðilinn Independent tók saman nokkur hótel í kóngsins Kaupmannahöfn sem eiga það sameiginlegt að vera nokkuð fín og ekki of dýr. 

A&O Copenhagen Nørrebro

A&O Copenhagen er hluti af stórri hótel keðju. Hér skiptir staðsetningin mestu en líkt og nafnið gefur til kynna er hótelið staðsett í Nørrebro-hverfinu. Á hótelinu eru 270 herbergi, allt frá einstaklingsherbergjum, hjónaherbergjum og fjölskylduherbergjum til svefnálma líkt og á hostelum. Verð á rúmi í svefnálmunum er 93 danskar krónur en frá 462 dönskum krónum fyrir herbergi.

Wakeup Copenhagen Borgergade

Á þessu vinsæla tveggja stjörnu hóteli er hægt að velja um þrjá verðflokka, standard, sky og heaven. Herbergið kostar frá 400 dönskum krónum eða um 7.300 íslenskum krónum nóttin. 

Danhostel Copenhagen City

Hjá Danhostel er bæði hægt að gista á hostel-hlutanum eða bóka herbergi. Rúmföt eru innifalin í verðinu en gestir verða að búa um sig sjálfir. Rúm í svefnálmunni kostar 110 danskar krónur en hótelherbergi 450 danskar krónur. 

Annex Copenhagen

Fjölskyldurekið hótel í Kaupmannahöfn sem er ódýrari kostur miðað við systurhótel þess, Absalon. Það er hins vegar mjög heimilislegt og frábær kostur fyrir þá sem eru einir á ferðalagi. Herbergið kostar frá 450 dönskum krónum. 

Steel House Copenhagen

Steel House er hostel sem opnaði árið 2017 og hefur notið mikillar velgengni. Fjölbreytt gistirými eru í boði, allt frá tveggja manna herbergjum yfir í svefnálmur. Rúm í svefnálmunum er frá 125 dönskum krónum nóttin en tveggja manna herbergi frá 400 dönskum krónum. 

Good Morning Copenhagen Star

Nýlega uppgert hótel í hjarta Kaupmannahafnar, aðeins 5 mínútur frá lestarstöðinni í Vesterbro. Þar finnurðu kynstrin öll af hótelherbergjum, allt frá einstaklingsherbergjum yfir í 5 manna fjölskylduherbergi á góðu verði. Nóttin fyrir tveggja manna herbergi er frá 1.391 danskri krónu. 

mbl.is