„Ekkert hefðbundið við hefðbundinn dag“

Borghildur býr i Árósum með fjölskyldu sinni og kann að …
Borghildur býr i Árósum með fjölskyldu sinni og kann að meta marga hluti við borgina. mbl.is/Aðsend

Borghildur Sölvey Sturludóttir, arkitekt og embættismaður, starfar á skipulagssviði í Árósum við þróun og innleiðingar ramma- og deiliskipulagsáætlana. Hún segir borgina áhugaverða
og hvetur fólk til að kaupa sér upplifun, góðan mat og skoða sig um á staðnum.

Borghildur Sölvey býr með eiginmanni sínum, Anders Nielsen, og þremur börnum þeirra í Árósum. Þau eiga fjögur börn, þau Kára, Önnu, Per Lúkas og Unu og segir Borghildur að hún sé límið og slaufan alla daga í uppeldi þeirra á milli landa og í verkefnum þeirra hverju
sinni. Þau búa í miðborg Árósa – við Söndre Ringgade á 5. og 6. hæð, í lyftulausu húsi.

Með margt á sinni könnu

Hefðbundinn dagur í lífi hennar er eftirfarandi:

„Orðið hefðbundið er kannski besta orðið hérna, en það er lítið hefðbundið á hverjum degi. Ég sit með fjórar til fimm áætlanir hverju sinni sem eru á misjöfnum stað tímalega, dreifðar um alla borg. Vinnan felst í að þróa þær með hliðsjón af aðalskipulagi og áætlunum hverju
sinni. Það er mikið um fundarhöld og samskipti við allar hliðar samfélagsins.“

En hvernig er heimilislífið?

„Það sama á við um heimilislífið hér – þar sem lítið er um hefðbundið heimilislíf. Við fluttum með 3 af 4 börnunum til Danmerkur fyrir rúmu ári. Síðasti vetur hefur farið í það að koma þeim fyrir á nýjum básum, kynna þau betur föðurlandi sínu, en áður fyrr var Danmörk land jóla og sumarfría. Að koma okkur upp nýjum „hversdegi“ ef svo mætti að orði komast hefur verið erfitt en um leið trúum við að þetta auki enn á víðsýni þeirra og hæfileika til að gera tvö tungumál að móðurmálum.“

Fredriksen hverfið er rómantískur staður.
Fredriksen hverfið er rómantískur staður. Ljósmynd/Aðsend


Lifandi götuhliðar allsráðandi

Hvað er skemmtilegast að gera í borginni þinni?

„Ég bjó hér áður á árunum 1997-2004, sem nemandi í Arkitektaskóla Árósa.
Við fluttum síðan aftur út í ágúst 2018 og það er skemmst frá því að segja að þessi borg stendur í því sama og Reykjavík – bara ögn á undan. Hér er þétting byggðar, áhersla á almenningssamgöngur og lifandi götuhliðar allsráðandi. Ný iðnaðar- og hafnarhverfi eru að
ganga í endurnýjun lífdaga og það er sjúklega skemmtilegt að fylgjast með því og taka þátt í því líka.

Þegar ég var nemandi hér var það það skemmtilegasta sem ég gerði að fara á markaðinn á miðvikudags- eða laugardagsmorgni, annað hvort niður í bæ – eða á Ingerslevs Boulevard og kaupa inn grænmeti, blóm, kaffi, hnetur, epli, kartöflur, fisk, kjöt og jólatré! Þetta er ennþá það sem mér finnst skemmtilegast að gera og það er alveg sama hvaða veður er – þetta er best í heimi.“

Hvað er það fallegasta við borgina

„Árósar hafa fundið sitt séreinkenni og ræktað það. Dómkirkjan, áin (sem áður var yfirbyggður vegur) sem rennur í gegnum miðborgina, Árósar-listasafnið með regnboganum hans Ólafs Elíassonar, ráðhúsið og strandlínan, með brúnni endalausu. Þétt og mikil
borg, með skýra strandlengju og skóg þess á milli þar sem endalaust er hægt að næra höfuð og huga.“

Urmull af góðum veitingahúsum

Hvernig finnst þér borgarskipulagið og hvað er gaman fyrir gesti að hafa í huga?

„Það eru þessi séreinkenni sem ég nefni hér fyrir ofan. Hvernig unnið er markvisst með þau í prófíl borgarinnar svo að þau gefi bæði gestum og borgurum sterka mynd af því hvað Árósar standa fyrir sem borg.“

Áttu þér uppáhaldsveitingahús?

„Hér er urmull af góðum veitingahúsum – en mér finnst samt alltaf jafn mikið stuð að fara í gömlu rútubílastöðina og velja mér bita þar. “

Hvað með uppáhaldsverslunina?

„Ingerslevs Boulevard-markaður er klárlega besta sjoppan sem ég veit um.“

Hvernig myndir þú eyða draumadeginum í borginni?

„Fyrst fengi ég mér stóran kaffibolla á „Street Coffee“ – síðan góðan hjólatúr meðfram strandlengjunni – ferð með borgarlínunni, og síðan hádegismat á Aaros. Þá hjólatúr í
drottingargarðinn (Marsellisborg slot have) og svo væri ég með teppi og nesti niður við strönd (við „Den uendelige bro“). Þá myndi ég klára daginn á útibíói í „Botanisk have“ með teppi og bjór.“

„Den uendelige bro“ er skemmtilegur staður að heimsækja.
„Den uendelige bro“ er skemmtilegur staður að heimsækja. Ljósmynd/Aðsend

Árstíðarbundin hráefni eftirsóknaverð

Hvað einkennir matargerðina á þínu svæði?

„Hér eru norrænar hefðir og árstíðarbundið hráefni.“

Hvað kom á óvart við flutningana út á sínum tíma?

„Ég flutti úr 170 fermetra parhúsi á pöllum í íbúð á 5. hæð. Það er klárlega smá sjokk en stuð líka.“

Hvers saknarðu helst frá Íslandi?

„Samveru með fjölskyldunni minni, vinum mínum og hestunum okkar.“

Hvað er gaman fyrir fjölskyldufólk að gera í borginni?

„Dokk 1 er nauðsynleg heimsókn, að sjá bókasafn, borgarskrifstofu, leiksvæði, staðsetninguna og borgarlínuna rúlla undir er hrein skemmtun. Það er líka mjög gaman að skoða tölvuvædda bílakjallarana í húsinu.“

Hvað ættu allir að kaupa í heimsókn til borgarinnar?

„Upplifun, fara á safn, kaupa góðan mat – og ef veðrið er gott, sitja við höfnina og horfa á gosbrunninn við hliðina á Dokk 1 eða fara jafnvel á brúna endalausu og dingla fót
unum. Að leyfa sér að taka inn allt það sem borgin hefur að bjóða og pakka því niður og koma með til Reykjavíkur – hvað við getum gert á Íslandi líka!“

Hvað er eftirsóknavert við staðinn sem þú býrð á?

„Við erum vel staðsett út af markaði en líka út af skólanum sem krakkarnir mínir eru í – Fredriksberg Skole.“

Borg með höfn og fallega náttúru

Er náttúran áhugaverð?

„Hér er það helst nálægðin við náttúruna, í stórri og þéttri borg sem er áhugaverð. Það er mikið um stór tré, skóg en á sama tíma liggja Árósar (líkt og Reykjavík) við strandlengjuna sem verið er að móta upp á nýtt, breyta um hlutverk og gera aðgengilegri, bæði sem hafnarböð og allskonar afþreyingu. En líka sem gámahöfn og með harða atvinnustarfsemi.“

Að komast á milli staða er einfalt fyrir ferðamenn ef …
Að komast á milli staða er einfalt fyrir ferðamenn ef þeir nota lestakerfið að mati margra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is