Blómstrar í barrekstri á Tenerife

Fyrir tveimur árum síðan fékk Halla tvö krabbamein á einu …
Fyrir tveimur árum síðan fékk Halla tvö krabbamein á einu ári og var þá minnt á það að lífið er núna. Í kjölfarið lét hún gamlan draum rætast og opnaði sinn eigin bar á Tenerife. Mynd úr einkasafni

Íslenskum börum á Tenerife hefur fjölgað hratt að undanförnu og eru nú fimm talsins. Einn þeirra, Bambú bar og bistro, er rekinn af Höllu Birgisdóttur sem hefur komið nálægt ýmsu um dagana eins og einkaþjálfun og fararstjórn. Barrekstur var henni algjörlega framandi þar til hún lét gamlan draum rætast eftir erfið veikindi og blómstrar nú í nýju hlutverki.

„Þessir staðir eru allir svo ólíkir að það er engin samkeppni á milli okkar,“ segir Halla aðspurð að því hvort það sé ekki að bera í bakkafullan lækinn að opna enn einn íslenska barinn á Tenerife. „Það er svo mikið af Íslendingum hérna. Bæði hefur þeim sem eru búsettir hér fjölgað mikið, en eins er fjöldi íslenskra ferðamanna gríðarlega mikill. Ég var spurð að því um daginn hvað byggju eiginlega margir á Íslandi og hvort það væri einhver eftir á eyjunni því að væru svo margir Íslendingar hér,“ segir Halla og hlær.

Íslenskir ferðamenn á Tenerife hafa tekið Bambú opnum örmum. Svali …
Íslenskir ferðamenn á Tenerife hafa tekið Bambú opnum örmum. Svali og félagar hjá Tenerife-ferðum kom oft þangað með sína hópa og Íslendingar sem búsettir eru á eyjunni mæta þangað einnig reglulega. Mynd úr einkasafni

Tvö krabbamein á einu ári

„Mig hafði lengi langað til þess að vera með minn eigin rekstur og var með allskonar hugmyndir en hafði aldrei gert neitt í því. Fyrir tveimur árum fékk ég tvö krabbamein á einu ári og var þá virkilega minnt á það að lífið er núna. Og þegar tækifærið bauðst greip ég það,“ segir Halla þegar hún er spurð að því hvernig það hafi komið til að hún opnaði Bambú bar og bistro á Tenerife nú í haust. Halla segir að veikindin hafi komið sér algjörlega í opna skjöldu enda fannst henni hún ekki vera týpan til þess að fá krabbamein. Hún segist alltaf hafa verið ofur jákvæð, borðað hollan mat, hreyft sig mikið og aldrei reykt. „Svona er lífið stundum ótrúlegt, við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. En að ég fengi tvö krabbamein á einu ári það var bara eitthvað sem ég hafði ekki hugmyndaflug í og vissulega var það stór skellur.“ Halla greindist fyrst með leghálskrabbamein en um hálfu ári eftir aðgerð greindist hún svo í ofanálag með krabbamein í skjaldkirtli. „Ég var mjög lengi að ná mér eftir fyrri aðgerðina því ég fékk innvortis blæðingar og mér blæddi nánast út. Í seinni aðgerðinni var helmingur skjaldkirtilsins tekinn ásamt 2,3 cm æxli.“

Starfsstúlkurnar á Bambú í landsliðstreyjum enda landsleikir að sjálfsögðu sýndir …
Starfsstúlkurnar á Bambú í landsliðstreyjum enda landsleikir að sjálfsögðu sýndir á barnum. Halla er í miðjunni ásamt Önnu Clöru til hægri og Söru dóttur sinni til vinstri. Mynd úr einkasafni

Lét gamlan draum rætast

Eins og áður sagði sáðu veikindin fræi í huga Höllu og gerðu hana meðvitaðri um það að lífið er núna og að ekki væri eftir neinu að bíða. Einn dag kom svo tækifærið sem hún hafði verið að bíða eftir og hún ákvað að stökkva á það. „Ég var að spjalla við vin minn sem var að spá í fasteignakaup á Tenerife. Ég var að skoða fasteignaauglýsingar fyrir hann þegar ég rakst á auglýsingu um þennan stað. Í fyrstu var ég hikandi því ég hef aldrei komið nálægt rekstri af neinu tagi áður en þar sem þetta hefur verið gamall draumur og við eigum bara þetta eina líf þá ákvað ég að láta slag standa,“ segir Halla sem viðurkennir að reksturinn hafi verið mikil áskorun á svo marga vegu. Hún segist hafa tekið sér góðan tíma í að innrétta staðinn og opnað hann í skrefum. „Fyrst opnaði ég bara barinn og náði tökum á kokteilunum. Síðan opnaði ég eldhúsið. Enn sem komið er útisvæðið bara opið en þar er pláss fyrir um 50-70 manns. Hér fyrir innan er síðan stórt og mikið pláss sem ég hef hugsað mér að innrétta sem koníaksstofu með píanói sem gestir geta gripið í.“ Halla hefur sjálf staðið vaktina á Bambú, bæði á barnum og í eldhúsinu, en hefur fengið hjálp frá dóttur sinni Söru og annarri íslenskri konu. „Enn sem komið er höfum við þrjár náð að anna þessu en það er búið að vera brjálað að gera, sem er gaman.“

Bambú býður upp á góða kokteila og einfaldan matseðil.
Bambú býður upp á góða kokteila og einfaldan matseðil. Mynd úr einkasafni

Einfaldur matseðill með fersku hráefni

Áður en Halla fór að reka barinn hafði hún komið nálægt ýmsu. Hún hafði til að mynda unnið sem einkaþjálfari hjá World Class í ein 10 ár og starfaði einnig lengi sem fararstjóri hjá Vita vítt og breitt um heiminn, meðal annars á Tenerife en þangað kom hún fyrst sem ferðamaður fyrir 10 árum síðan og heillaðist þá strax af eyjunni.  „Það er mikið af bambus og við, bæði í húsgögnum og innréttingum, og svo er allt fullt af  plöntum, sem gefur staðnum notalegt andrúmsloft. Þetta er svona staður sem þú sest niður á og þig langar ekkert að standa upp úr sófanum aftur,“ segi Halla þegar hún er beðin um að lýsa Bambú.  „Matseðillinn er líka allt öðruvísi en á öllum stöðum hér í kring. Á meðan flestir staðir eru með margra blaðsíðna matseðla þá er matseðillinn hér aðeins ein síða. Ég er með fáa en góða rétti. Allt hráefni er ferskt, ekkert er frosið og ekkert er djúpsteikt. Réttirnir eru vel útilátnir og þó ég segi sjálf frá þá hef ég komið sjálfri mér á óvart í eldhúsinu. Þetta eru mjög góðir réttir enda eru gestir duglegir við að hrósa matnum.“

Bambú hefur fengið mjög góða dóma á TripAdvisor en matseðill …
Bambú hefur fengið mjög góða dóma á TripAdvisor en matseðill staðarins er allt öðruvísi en á stöðunum í kring. Mynd úr einkasafni

Góðar móttökur

Halla segist ekki eingöngu vera að stíla inn á Íslendingana, þó þeir hafi vissulega verið stór hluti viðskiptavina hennar hingað til. „Fyrsta laugardag hvers mánaðar höfum við verið að bjóða upp á hittinga fyrir Íslendinga sem hér búa og höfum líka sýnt landsleikina. Um jólin verður íslenskur jólamatur á boðstólum og hér verður líka áramótagleði,“ segir Halla sem fer spennt inn í veturinn. „Í nóvember verður brúðkaup haldið hérna en þá mun parið verða gefið saman við sjóinn og ganga svo eftir rauðum dregli frá ströndinni og hingað inn. Það verður spennandi að sjá hvernig það kemur út. Það er margt spennandi í pípunum en fyrst og fremst er ég í skýjunum yfir öllu því skemmtilega og jákvæða fólki sem hefur komið hingað til okkar og þeim góðu móttökum sem barinn hefur fengið. Ég sé alls ekki eftir því að hafa látið þennan gamla draum rætast. Ef ekki núna hvenær þá?“

Bambú er afslappaður staður með áherslu á ferskan mat, góða …
Bambú er afslappaður staður með áherslu á ferskan mat, góða kokteila og sófahuggulegheit. Staðurinn er við Playa Pinta ströndina en best er að finna hann með því að finna hótelið La Pinta og ganga neðan við það. Mynd úr einkasafni
Það hefur verið brjálað að gera á Bambú síðan staðurinn …
Það hefur verið brjálað að gera á Bambú síðan staðurinn opnaði í haust. Um jól og áramót verður þar ýmis dagskrá sem höfðar sérstaklega til Íslendinga. Mynd úr einkasafni
mbl.is