Eva og Snorri fljúga á bílnum og lifa á íbúðinni

Fjölskyldan á fílabúgarði rétt fyrir utan Chiang Mai í Taílandi. …
Fjölskyldan á fílabúgarði rétt fyrir utan Chiang Mai í Taílandi. Ferðin var afmælisgjöfin hennar Evu, það þýðir hvorki að kaupa áþreifanlega gjafir né minjagripi þegar maður er á svona ferðalagi. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Eva Rán Reynisdóttir og Snorri Marteinsson ásamt börnum sínum þremur, þeim Júlíusi Patrik, Hilmi Erni og Elísu Diljá, héldu af stað í heimsreisu 4. júní síðastliðinn.

Á þeim fimm mánuðum sem þau hafa verið á ferðalagi hafa þau heimsótt 13 lönd, Kanada, Bandaríkin, Japan, Suður-Kóreu, Kína, Filippseyjar, Indónesíu, Malasíu, Taíland, Víetnam og Kambódíu. Þegar mbl.is náði tali af þeim voru þau stödd á Indlandi.

Þau ætla þó ekki að láta þar við sitja og áður en þau koma heim í janúar 2020 ætla þau að fara til Dubai, Írans, Egyptalands, Möltu, Ísrael og enda ferðina í Danmörku hjá móðurfjölskyldu Snorra áður en þau halda heim til Íslands.

Eva er verslunarstjóri hjá A4 og heldur utan um rekstur tveggja sérverslana þeirra í Smáralind. Snorri hefur komið að stofnun og rekstri nokkurra vel þekktra fyrirtækja. Nú síðast Treemember Me og Even labs.

Þau halda úti ferðadagbók á Facebook-síðunni SNEVA worldwide 2019 þar sem hægt er að fylgjast með ævintýrum þeirra.

Fjölskyldan við Halong Bay í Norður-Víetnam.
Fjölskyldan við Halong Bay í Norður-Víetnam. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju ákváðu þið að fara í ferðalag?

„Við höfum lengi látið okkur dreyma um að fara í svona ferðalag, en það var ekki fyrr en í byrjun þessa árs að við ákváðum að láta slag standa og halda út í óvissuna. Asía hefur lengi verið ofarlega á óskalistanum, við gerðum nokkrar áætlanir til að byrja með þar sem við vorum að gæla við að heimsækja sex heimsálfur, en síðan ákváðum við á lokametrunum að einblína á Asíu, vera lengur á hverjum stað og ofan á allt saman ákváðum við að fara hinn hringinn og spara okkur flugþreytuna. Síðast en ekki síst fannst okkur spennandi áskorun að taka krakkana með okkur í „skipulagða“ óvissu, kynnast ólíkum menningarheimum, læra grunninn í nokkrum tungumálum (sem hefur reyndar ekki gengið nógu vel), ýta okkur öllum út úr þægindahringnum og efla okkur sem fjölskyldu.“

Frjósemihátíð Hindúatrúarmanna í Kalkútta. Hér eru þeir aða baða sig …
Frjósemihátíð Hindúatrúarmanna í Kalkútta. Hér eru þeir aða baða sig og setja fórnargjafir í ána rétt um sólsetur. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hefur ferðalagið gengið með þrjú börn?

„Ferðalagið hefur gengið mjög vel í öllum aðalatriðum. Auðvitað er þetta stundum krefjandi, sérstaklega þegar börnin nenna ekki að heimsækja enn eitt musterið eða þegar þegar við erum orðin svöng og þreytt eftir langt ferðalag og enginn er til í að borða framandi mat í nýju landi.

Börnin standa sig mjög vel. Þau hafa sofið á furðulegustu stöðum, séð fólk í aðstæðum sem flest börn sjá í besta falli í bókum eða á mynd, ferðast í æði mismunandi aðstæðum milli staða og smakkað ýmiss konar mat þótt það krefst oft langra samningaviðræðna í hvert skipti.

En að sjálfsögðu koma oft erfiðir og krefjandi dagar þar sem börnin eru pirruð og þreytt, þá finnst okkur gott að staldra við og taka heimadag þar sem við lærum, leikum, spilum tölvuleiki og horfum á YouTube. Oftar eru þó ánægjulegir og skemmtilegir dagar þegar við erum að læra og upplifa nýja hluti.

Síðan höfum við auðvitað lent í ýmsum ævintýrum, en finnum á endanum leið til að hlæja að því sem aflaga fer, enda lærir maður yfirleitt eitthvað af öllu saman. Við höfum t.d. misst af flugi og þurft að keyra langan veg um miðja nótt til að ná öðru, höfum eyðilagt myndavél, týnt annarri og endurheimt spjaldtölvu sem gleymdist í flugvél.“

Umferðin í Kalkútta er fjölbreytt.
Umferðin í Kalkútta er fjölbreytt. Ljósmynd/Aðsend

Voruð þið búin að spara fyrir ferðinni eða getið þið unnið á meðan ferðalaginu stendur?

„Við gerðum nokkuð ítarlega áætlun strax í byrjun og þar sem Snorra finnst oft gott að sjá hlutina fyrir sér í myndlíkingum, þá var hugmyndin einfaldlega þessi: „Fljúga á bílnum og lifa á íbúðinni” — þannig að við seldum bílinn og í grófum dráttum náum við að ferðast um heiminn á andvirði hans. Við leggjum áherslu á að gera hlutina á sem hagstæðastan hátt og það ekki bara af fjárhagslegum ástæðum. Við höfum t.d. verið ófeimin við að kaupa ódýra gistingu, kaupum aldrei sæti í flugvélum (sitjum þó alltaf saman), ferðumst einungis með handfarangur (Samtals 33,8 kg þegar síðast var vigtað), ferðumst stundum með óloftkældum rútum og borðum oftar og oftar staðbundinn mat — mættum þó vera duglegri að því. Ævintýrin gerast oftar en ekki, þegar maður tekur ódýra flugið sem fellur niður, neitar sér um netið í símann og þarf að treysta á gömlu góðu aðferðina að spyrja náungann um leiðsögn. Við lítum ekki endilega á þetta sem leiðir til sparnaðar, heldur mikilvæga leið til þess að upplifa raunverulegt líf í þeim löndum sem við heimsækjum, við höfum lika kynnst fjölda fólks á þessu ferðalagi sem hefur verið okkur innan handar, boðið okkur gistingu, borðað með okkur eða deilt með okkur reynslu og/eða ferðasögum.

Sjálfsmynd með apa í Ubud á Balí.
Sjálfsmynd með apa í Ubud á Balí.

Þegar við höfum fengið heimboð höfum við haft sem reglu að planta trjám þeim til heiðurs á Íslandi, þannig að við séum ekki að ferðast um heiminn með fulla tösku af tækifærisgjöfum. Þetta er einnig skemmtileg leið til þess að gefa óefnislega gjöf sem er samt svo raunveruleg og framkallar raunveruleg gæði.

Varðandi vinnu hefur Eva haft fullt í fangi með ferðaskrifstofu fjölskyldunnar og umsjón með heimanámi barnanna. Snorri er auðvitað innan handar með þetta, en hann hefur undanfarið verið mjög upptekinn, fyrst og fremst vegna þess að þau verkefni sem hann hefur haft aðkomu að hafa þurft á því að halda auk þess sem hann hefur mikinn áhuga á að fylgja þeim eftir.“

Hvernig gengur að sinna heimanámi barnanna á ferðalagi?

„Heimanám barnanna hefur gengið betur en við þorðum að vona, en við erum í góðri samvinnu við Háleitisskóla, við fengum t.d. allar námsbækurnar í vor og skönnuðum þær inn, þannig að börnin nota spjaldtölvurnar til að lesa og skrifa í vinnubækurnar. Við erum því með allt námsefni þar inni auk stílabóka og skriffæra. Við erum í góðu sambandi við kennara barnanna og fáum send verkefni og próf. Við leggjum höfuðáherslu á íslensku, stærðfræði, ensku, náttúrufræði og samfélagsfræði. Sum fög fá litla sem enga athygli, eins og danska og tónmennt, en á móti kemur að þau eru í vettvangsferð alla daga og læra margt annað sem erfitt er að læra af bókum og nánast ómögulegt er að gleyma.

Það koma dagar þar sem þau ná lítið að læra vegna ferðalaga eða skoðunarferða, en á móti kemur hafa þau lesið svo gott sem alla daga frá því í byrjun júní auk þess að hafa verið dugleg að læra stærðfræði í Khan Academy (khanacademy.com) samhliða stærðfræðinni í skólanum.“

Hilmir, Júlíus og Elísa við Angkor City í Kambódíu.
Hilmir, Júlíus og Elísa við Angkor City í Kambódíu.

Hvaða staðir hafa heillað ykkur mest?

„Það eru aðallega þrír staðir sem hafa stolið hjörtum okkar en á mismunandi hátt.

Hawaii með einstakan stjörnuhiminin, dýrahljóð og náttúru.

Bali með rólega andrúmsloftið, heillandi mannlífið, veðráttuna og strandirnar.

Og svo Varanasi í Indlandi, þar sem við erum núna. Við sáum heimildaþátt um þessa heilögustu borg Indlands og ákváðum að þangað yrðum við að fara. Indland er rosalega skítugt land, rusl alls staðar (eins og reyndar víðast í Asíu) einstaklega hávaðasamt og kaótískt en jafnframt æðislega litríkt, mannlífið lifandi og glaðlegt, trúin og hefðirnar svo ríkar. Við kolféllum fyrir Varanasi. Þröngar götur, beljur, tuddar, apar, geitur og önnur dýr úti á miðri götu, trúarathafnir í heilögu ánni Ganges, maturinn og andrúmsloftið. Við fleyttum kertum á ánni, bleyttum enni okkar með vatni úr Ganges og höfum orðið vitni að líkbrennslunni við ána.“

Hvernig völduð þið áfangastaðina?

„Við ákváðum að ferðast í 7 mánuði og langaði mest að fara til Asíu vegna þess hve fjarlæg hún er og frábrugðin öllu sem við þekkjum, venjum og lífsháttum.

Við skoðuðum líka að fara til Suður-Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjálands en Asía heillaði okkur meira fyrir þessa ferð og okkur langaði til að upplifa hana með börnunum. Auk þess hefði slík ferð verið mikið kapphlaup við tímann og lítill tími til að lifa, vinna og njóta.

Ætli við hjónin förum svo ekki bara ein til Suður-Ameríku, einhvern tímann síðar, kannski á mótorhjóli eða í húsbíl.“

Snorklað í Honda Bay á Filippseyjum.
Snorklað í Honda Bay á Filippseyjum. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur verið stærsta áskorunin?

„Við höfum ferðast þannig að áfangastaðir, ferðamáti og gistingar hafa verið ákveðnar með stuttum fyrirvara og því stundum stress yfir því að allt gangi upp. Við erum yfirleitt aðeins með eitt flug bókað fram í tímann, auk þess sem við bókum gistinguna í hámark viku í einu. Þannig er frekar hægt að stökkva á næsta stað ef veður eða aðstæður eru óhagstæðar og lengt frekar þar sem manni líkar vel. Við styttum t.d. ferðina okkar til Filippseyja um helming, ákváðum að fara til Balí (sem var ekki á listanum) og ákváðum þrisvar sinnum að framlengja um viku og vorum allt í allt á fjórum gististöðum á þeirri æðislegu eyju.

Að öðru leyti hafa áskoranirnar verið samskiptaerfiðleikar við fólk sem kann ekki stakt orð í ensku eða leita að upplýsingum á skilti eða í leiðbeiningum í landi þar sem menn nota ekki einu sinni latneska stafrófið. Síðan getur verið erfitt að átta sig á mismunandi og oft illskiljanlegum reglum, siðum og venjum, finna réttar bókunarsíður, takast á við hægt eða (hálf)lokað internet í alræðisríkjum og reyna að kenna matvöndum börnum að borða skrítinn og illa lyktandi mat.“

Hvaða ráð getið þið gefið þeim sem langar að stækka sjóndeildarhringinn og fara í svona ferðalag?

„Áður en fólk fer i svona ferð er mikilvægt að kunna að lesa fólk og aðstæður, kunna að segja nei og standa með sjálfum sér. Best er að vita hver þú ert, hvert þú stefnir og hvernig þú ætlar að komast þangað. Það er sem sagt betra að finna sjálfan sig fyrst, þar sem það er annars auðvelt að tapa áttum í svona ferð. Með þessum fyrirvörum viljum ráðleggja fólki að láta verða af því. Lifa drauminn. Safna pening, selja bílinn og leigja eða selja íbúðina. Við lifum aðeins einu sinni.“

„Fyrsta þriðjaheimsrútuferðin, engin loftræsting, engin „óþarfa“ þrif, opnar dyr sem …
„Fyrsta þriðjaheimsrútuferðin, engin loftræsting, engin „óþarfa“ þrif, opnar dyr sem meðreiðarsveinninn hékk reglulega út um og gargaði eitthvað á aðra bílstjóra. Bílstjórinn keyrði svo á tímabili á röngum vegarhelmingi og svo mætti lengi telja.“
mbl.is