Smyglaði of þungum ketti um borð

Galin og Viktor um borð.
Galin og Viktor um borð. Skjáskot/Facebook

Rússinn Mikhail Galin reyndi á dögunum að smygla kettinum sínum, Viktori, um borð í flug frá Riga í Lettlandi til Vladivostok í Rússlandi. Kötturinn Viktor mátti ekki fylgja eiganda sínum inn í farþegarýmið þar sem hann var of þungur. 

Reglur rússneska flugfélagsins Aeroflot leyfa gæludýr í farþegarýminu, en aðeins ef þau eru 8 kíló eða léttari. Viktor greyið er hinsvegar 10 kíló og mátti því ekki fara um borð.

Galin og Viktor komust um borð í fyrsta flugið sitt, frá Riga til Moskvu. Þegar þeir ætluðu svo um borð í tengiflugið sitt sagði flugvallarstarfsmaðurinn að Viktor litli væri of þungur og þyrfti að fara í farangursgeymsluna. Galin var ekki hrifinn af því en dó þó ekki ráðalaus. 

Hann seinkaði fluginu sínu um einn dag. Í Moskvu fékk svo Galin köttinn Phoebe lánaða þegar hann tékkaði sig inn. Phoebe er svipuð í útliti og Viktor, en töluvert léttari. Þegar búið var að tékka Galin og Phoebe inn undir nafni Viktors, skipti hann svo á köttum. 

Galin og Viktor komust því heilu og höldnu um borð og fögnuðu með kampavínsglasi. Þegar heim var komin sagði Galin frá sögunni á Facebook. Hann hefði betur látið það ógert því Aeroflot sáu færsluna og ákváðu að eyða öllum flugpunktum Galin sem hann hafði safnað sér inn hjá flugfélaginu. 

Ráðabruggið gekk upp.
Ráðabruggið gekk upp. skjáskot/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert