Of þungir ferðamenn á Spáni fá að finna fyrir því

Ferðamenn á Spáni. Ekki eru allir ferðamenn á Spáni sem …
Ferðamenn á Spáni. Ekki eru allir ferðamenn á Spáni sem fá leyfi til að fara á asnabak. mbl.is/Colourbox.dk

Ekki fá allir ferðamenn á Spáni grænt ljós til þess að bregða sér á bak asna. Nú hefur bær á Costa del Sol-svæðinu fræga sett þyngdartakmörk á asnaferðir að því fram kemur á vef Independent. Fólk sem er þyngra en 80 kíló mun í framtíðinni ekki fá að fara á bak. 

Bærinn Mijas Pueblo er frægur fyrir „burro-taxis“ sem mætti lýsa sem einskonar asnaleigubílum. Asnar eru notaðir til þess að ferja ferðamenn en nú á að setja reglur í tilliti til dýraverndunarsjónarmiða. Auk þess sem þyngdartakmörk hafa verið sett á einnig að bæta aðstæður asnanna. Nýju reglurnar eru meðal annars unnar í samvinnu við asnaeigendur, fólk sem vinnur með ösnunum og fólk sem vinnur að bættri velferð dýra. 

Þessi tilkynning kemur eftir að Peta-samtökin í Þýskalandi birtu myndband af illri meðferð á ösnum á ferðamannaeyjunni Santorini. Í Grikklandi hefur verið reynt að bregðast við auknu aðhaldi dýraverndunarsinna og var fólki sem var yfir 100 kíló meðal annars bannað að fara á asnabak. Spánverjarnir virðast hins vegar ætla að gera betur við sína asna. 

Hér má meðal annars sjá Camillu hertogaynju af Cornwall klappa …
Hér má meðal annars sjá Camillu hertogaynju af Cornwall klappa asna. AFP
mbl.is