Blóðugt að sigla í kringum hnöttinn

Það getur verið skemmtilegt að ferðast um heiminn á skemmtiferðaskipi.
Það getur verið skemmtilegt að ferðast um heiminn á skemmtiferðaskipi. mbl.is/Colourbox.dk

Allt frá því að maðurinn áttaði sig á því að jörðin væri hnöttótt hefur fólk dreymt um að fara hringinn í kringum jörðina. Það þótti einhvern tímann flókið en nú á dögum er það svo einfalt að fólk fer í skemmtiferðasiglingar í kringum jörðina. Þessar siglingar eru aðeins lengri en klassísk tíu daga sigling um Karíbahafið.

Á vef CNN má finna litla úttekt á hringferðum. Sumar ferðirnar eru ekki alveg heill hringur en þó nálægt því. Fólk þarf ekki bara að eiga ansi mikið frí inni til þess að fara í slíka ferð þar sem slíkar ferðir kosta ansi mikið. 

Ferðirnar eru mikið ævintýri og taka marga mánuði. Vegna þess hversu langar ferðirnar eru eignast margir vini um borð sem sumir líta á sem kost.

Hér má sjá nokkur verðdæmi á siglingum í kringum hnöttinn og er nokkuð ljóst að margir gætu nýtt peningana til þess að kaupa íbúð eða stækka við sig. En þetta er auðvitað allt bara spurning um forgangsröðun. 

Skipið Queen Mary 2 siglir af stað í kringum heiminn í janúar þar sem hægt er að velja um 113 nátta ferð eða 99 nátta ferð. Siglingin kostar í það minnsta 14.800 dollara eða tæpar tvær milljónir. 

Crystal Cruise fer ekki alveg heilan hring en fer nokkuð nálægt því á 105 dögum. Ferðin hefst í Miami og endar í Róm. Ódýrasta ferðin með skipinu kostar 194 þúsund dollara eða um 24 milljónir. 

Til eru nokkuð lengri ferðir en rúmlega 100 daga ferðirnar. Á vegum The Finest World Tour er hægt að fara í 150 daga siglingu frá janúar til júní fyrir 51 þúsund pund eða rúmlega átta milljónir. The Uncharted World Tour býður upp á 167 daga siglingu frá janúar til júlí á 77 þúsund pund eða á rúmlega 12 milljónir. 
AFP
mbl.is